Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

24. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Með gleði þakkið föðurnum sem hefur gert ykkur fært að fá arfleifð heilagra í ljósinu.“ (Kol 1.12)

Kollekta:
Eilífi, almáttugi Guð: Lít í eilífri miskunn til vor, barna þinna. Hneig hug og vilja til þín, gjör hjörtu vor reiðubúin til allra góðra verka og lát oss þroskast í öllu, sem þér er þóknanlegt. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Esk 37.1-14
Hönd Drottins kom yfir mig. Hann leiddi mig burt í anda sínum og lét mig nema staðar í dalbotninum miðjum. Hann var þakinn beinum. Hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu og ég sá að þau voru fjölmörg, skinin bein, dreifð um dalbotninn.
Þá spurði hann mig: „Mannssonur, geta þessi bein lifnað við?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð. Þú einn veist það.“ Þá sagði hann við mig: „Flyt þessum beinum spádóm og segðu við þau: Þið, skinin bein, heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Ég sendi anda í ykkur svo að þið lifnið við. Ég festi á ykkur sinar, þek ykkur með holdi, dreg þar hörund yfir og gef ykkur anda svo að þið lifnið við. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.“
Því næst boðaði ég það sem fyrir mig var lagt. Á meðan ég talaði heyrðist allt í einu hár hvinur og beinin færðust saman, hvert beinið að öðru. Ég horfði á þetta og sá að hold og hörund þakti þau en enginn lífsandi var í þeim.
Þá sagði hann við mig: „Flyt andanum spádóm, mannssonur, flyt spádóm og seg við andann: Svo segir Drottinn Guð: Kom, andi, úr áttunum fjórum og blás á þessa vegnu menn svo að þeir lifni við.“
Þá talaði ég eins og hann bauð mér og lífsandinn kom í þá svo að þeir lifnuðu við. Þeir risu á fætur og var það geysifjölmennur her.
Þá sagði hann við mig: „Mannssonur, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Þeir segja: Bein okkar eru skinin, von okkar brostin, það er úti um okkur. Spá því og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mína, úr gröfum ykkar og flyt ykkur til lands Ísraels. Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mín, upp úr gröfum ykkar. Ég sendi anda minn í ykkur svo að þið lifnið við og bý ykkur hvíld í ykkar eigin landi. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn. Ég hef talað og ég geri eins og ég segi, segir Drottinn.“

Pistill: Kól 1.9b-14 (15-20)
Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum með allri
speki og skilningi svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan
hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði.
Hann styrki ykkur á allar lundir með dýrðarmætti sínum svo að þið fyllist þolgæði í
hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði þakkað föðurnum sem hefur gert ykkur
fært að fá arfleifð heilagra í ljósinu. Hann hefur frelsað okkur frá valdi
myrkursins og flutt okkur yfir í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum við
endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar.

Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs,
frumburður allrar sköpunar.
Enda var allt skapað í honum
í himnunum og á jörðinni,
hið sýnilega og hið ósýnilega,
hásæti og herradómar, tignir og völd.
Allt er skapað fyrir hann og til hans.
Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.
Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar,
hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu.
Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
og láta hann koma öllu í sátt við sig,
öllu bæði á jörðu og himnum,
með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

Guðspjall: Matt 9.18-26
Meðan Jesús mælti þetta við þá kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: “Dóttir
mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.” Jesús
stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.
Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki Jesú og snart fald klæða
hans. Hún hugsaði með sér: “Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.”
Jesús sneri sér við og er hann sá hana sagði hann: “Vertu hughraust, dóttir, trú þín
hefur bjargað þér.” Og konan varð heil frá þeirri stundu.
Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi sagði
hann: “Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur.” En þeir hlógu að honum. Þegar
fólkið hafði verið látið fara gekk hann inn og tók hönd hennar og reis þá stúlkan
upp. Og þessi tíðindi bárust um allt héraðið.

Sálmur: 207
Sú trú, sem fjöllin flytur,
oss fári þyngstu ver,
ei skaða skeyti bitur,
þann skjöld ef berum vér,
í stormum lífs hún styður
og styrkir hjörtu þreytt,
í henni’ er fólginn friður,
sem fær ei heimur veitt.

Minn Jesús, lát ei linna
í lífi trú mér hjá,
svo faldi fata þinna
ég fái þreifað á
og kraftinn megi kanna,
sem kemur æ frá þér
til græðslu meinum manna
og mesta blessun lér.

Í trú mig styrk að stríða
og standast eins og ber,
í trú mig láttu líða,
svo líki, Drottinn, þér.
Er dauðans broddur bitur
mér beiskri veldur þrá,
þá trú, er fjöllin flytur,
mig friða láttu þá.

Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Kristur, upprisinn frá dauðum, við þökkum þér að ekkert getur skilið okkur frá þér. Hjálpa okkur í óttanum við lífið. Hjálpa okkur frá óttanum við dauðann. Ekkert fær spillt lífi þínu eða eyðilagt það. Gef okkur hlutdeild í því, þú sem lifir og ríkir með Guði föður í heilögum anda í dýrð og heiðri að eilífu. Amen.