Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal.6.2)

Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Stýr þú rás heimsins til friðar, svo að kirkja þín megi í rósemi og gleði þjóna þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Jer 7.1-7
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

Pistill: Róm 14.7-13
Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.

Guðspjall: Lúk 6.36-42
Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Sálmur: 196
Á þig, Jesú Krist, ég kalla,
kraft mér auka þig ég bið.
Hjálpa þú mér ævi alla,
að ég haldi tryggð þig við.
Líkna mér og lát mér falla
ljúft að stunda helgan sið.

Eg svo hlýði ætíð þínum
elskuboðum, Herra minn,
votti trú í verkum mínum,
vel að reki’ eg feril þinn,
þinni raust með sannleik sínum
sífellt gegni varfærinn.

Fullkomnun, sem fyr’ir mig lagðir,
framt ástunda gef þú mér,
þá að elska, sem þú sagðir,
samt af alhug varast hér
neinn að fleka fölsku bragði,
fyrst að bræður erum vér.

Veit, að það, sem heimur heldur
heill, ei dragi mig frá þér.
Það, sem fyrir gott hann geldur,
gjarnan spott og vanþökk er,
en það sælu æðstu veldur,
ef vér, Drottinn, hlýðnumst þér.

Þá skal trú mín, þýði Herra,
þægan ávöxt bera sinn,
Drottins ætíð dýrðin vera,
dug og kraft er efldi minn,
fasta vörn skal fyrir bera,
freistar mín ef heimurinn.

Heyrir þú mitt hróp, ég treysti,
Herra, þér, og stenst ég þá.
Þótt mín syndir þráfalt freisti,
þú mér aldrei víkur frá,
en mér sendir sanna hreysti,
sigri frægum loks að ná.

Agricola – Sb. 1589 – Jón Espólín

Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi. Amen.