Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ (Lúk 12.48b)

Kollekta:
Almáttugi Guð: Heyr í mildi bænir vorar, sem leitum ásjár þinnar og gef, að vér óskum þess eins, sem þér er þóknanlegt, svo að þú fáir veitt oss það, sem vér beiðumst. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Okv 2.1-6
Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum
og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína
og hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim eins og silfri
og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá mun þér lærast að óttast Drottin
og veitast þekking á Guði.
Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Pistill: 1Tím 1.12-17
Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 16.1-9
Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.

Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.

Sálmur: 187
Ó, skapari, hvað skulda ég?
Ég skulda fyrir vit og mál.
Mín skuld er stór og skelfileg,
ég skulda fyrir líf og sál.

Ég skulda fyrir öll mín ár
og allar gjafir, fjör og dáð,
í skuld er lán, í skuld er tár,
í skuld er, Drottinn, öll þín náð.

Ó, skapari, hvað skulda ég?
Í skuld er, Guð, þín eigin mynd.
Ó, mikla skuld, svo skelfileg,
því skemmd er hún af minni synd.

Haf meðaumkun, ó, Herra hár,
ég hef ei neitt að gjalda með,
en álít þú mín angurstár
og andvörp mín og þakklátt geð.

Og þegar loks mitt lausnargjald
ég lúka skal, en ekkert hef,
við Krists, míns Herra, klæðafald
ég krýp og á þitt vald mig gef.

Matthías Jochumsson

Bæn dagsins:
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, við erum oft óróleg í þessum heimi þar sem gróði eða tap virðast skipta svo miklu máli og verðum hrædd um að tapa. Gefðu okkur kjark til að reikna með þér. Gefðu okkur hlutdeild í auðlegð réttlætis þíns, svo að við eignumst lífið fyrir Jesú Krist.