Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Allra heilagra messa

1. nóvember – fyrsti sunnudagur í nóvember.
Litur: Hvítur eða rauður.

Kollekta:
Eilífi, almáttugi Guð, sem vilt helga þá alla, sem þú hefur útvalið og elskað í einkasyni þínum: Lát þú oss líkjast helgum vottum þínum í trúnni, voninni og kærleikanum, að vér megum hljóta sömu sáluhjálp. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Jes 60.19-21
Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.
Allir þegnar þínir eru réttlátir,
þeir munu ævinlega eiga landið.
Þeir eru garður Drottins sem ég hef gróðursett,
handaverk hans
sem birtir dýrð hans.

Pistill: Opb 7.9-12
Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.
Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matt 5.1-12
Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Sálmur: 201
Sælir þeir, er sárt til finna
sinnar andans nektar hér,
þeir fá bætur þrauta sinna,
þeirra himnaríkið er.

Sælir þeir, er sýta’ og gráta.
Sorgin beisk þó leggist á,
Guð mun hugga, Guð mun láta
gróa sár og þorna brá.

Sælir þeir, sem hógvært hjarta
hafa’ í líking frelsarans.
Þeir, sem helst með hógværð skarta,
hlutdeild fá í arfleifð hans.

Sælir þeir, sem þess hins rétta
þorsta’ og hungurs finna til.
Þeim skal svala, þá skal metta,
þeim skal snúast allt í vil.

Sælir þeir, sem vorkunn veita,
vægan dóm þeir skulu fá.
Eins og þeir við aðra breyta
aftur verður breytt við þá.

Sælir allir hjartahreinir,
hjarta þess, sem slíkur er,
sælu öllu æðri reynir,
auglit Drottins blítt það sér.

Sælir allir sáttfýsandi,
síðar friðarljós þeim skín,
friðarins Guð á friðarlandi
faðmar þá sem börnin sín.

Sælir þeir, er sæta þungum
svívirðingum mönnum hjá,
aftur þeir af engla tungum
öðlast vegsemd himnum á.

Sb. 201. Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Eilífi, trúfasti Guð. Þú kallar okkur til samfélags hinna heilögu sem á öllum tímum og á öllum stöðum vegsama nafn þitt. Við þökkum þér að við fáum að standa fylkingu hinna trúuðu, saman tengd á grunni hinnar góðu játningar í glöðu trausti þess að við munum fá að sjá þig augliti til auglitis. Þér sé lof að eilífu. Amen.