Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Annar hvítasunnudagur

Litur: Rauður.

Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)

Kollekta:
Guð, þú sem gafst postulum þínum heilagan anda: Heyr bænir vorar og veit, að vér, sem þú hefur trúna gefið, megum og frið þinn öðlast. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Jes 44.21-23
Minnstu þess, Jakob, og þú, Ísrael,
að þú ert þjónn minn.
Ég skapaði þig, þú ert þjónn minn,
Ísrael, þér gleymi ég ekki.
Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi,
syndum þínum líkt og þoku.
Hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig.
Fagnaðu, himinn, því að Drottinn hefur gert þetta,
gleðjist, undirdjúp jarðar.
Hefjið fagnaðaróp, þér fjöll,
skógurinn og öll tré í honum,
því að Drottinn hefur endurleyst Jakob
og birt dýrð sína í Ísrael.

Pistill: Post 10.42-48a
[Og Pétur sagði:]
Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“
Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu. Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir að Guð hefði einnig gefið heiðingjunum heilagan anda því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. Þá mælti Pétur: „Hver getur varnað þess að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem við.“ Og hann bauð að þeir skyldu skírðir í nafni Jesú Krists.

Guðspjall: Jóh 3.16-21
Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.
Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð.“

Sálmur: 335
Guð helgur andi, heyr oss nú,
ó, heyr, vér biðjum: veit oss rétta trú,
huggun hjörtum mæddum
heims í eymda kjörum,
svölun sálum hræddum,
síðast burt er förum.
Streym þú, líknarlind.

Þú blessað ljós, ó, lýs þú oss
í líknarskjólið, undir Jesú kross.
Veit oss hjálp að hlýða
hirði vorum góða,
lausnaranum lýða,
lífgjafanum þjóða.
Streym þú, líknarlind.

Þú kærleiksandi, kveik í sál
þann kærleikseld, er helgi verk og mál,
að í ást og friði
æ vér lifað fáum,
uns að æðsta miði
allir loks vér náum.
Streym þú, líknarlind.

Þú huggun æðst í hverri neyð,
oss hjálpa þú og styð í lífi’ og deyð.
Veit þú, að oss eigi
afl og djörfung þrjóti,
er hinn óttalegi
óvin ræðst oss móti.
Streym þú, líknarlind.

Guð helgur andi’ á hinstu stund
oss hugga þú með von um Jesú fund.
Þá er þrautin unnin,
þá er sigur fenginn,
sælusól upp runnin,
sorg og þrenging engin.
Streym þú, líknarlind.

Lúther – Sb. 1589

Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Andi sannleikans, þú sem heimurinn fær aldrei skilið vek upp hjörtu okkar í ótta við komu þína, gef okkur þrá eftir friði þínum og tendra í okkur löngun til að mæla þitt máttuga orð Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.