Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Stefánsdagur frumvotts

Þegar annar jóladagur er haldinn sem minningardagur um djáknann Stefán, fyrsta píslarvott kristninnar eru lestrar og bænir sem hér segir.

Litur: Rauður.

Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn, hjálpa þú oss að breyta eins og vottur þinn, Stefán, sem vér minnumst í dag, svo að vér lærum að elska óvini vora, biðja fyrir þeim, sem ofsækja oss og fela þá miskunn þinni. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: 2Kro 24.17-21
Eftir andlát Jójada komu höfðingjar Júda og sýndu konungi lotningu. Konungur hlustaði á þá og þeir yfirgáfu hús Drottins, Guðs feðra sinna, og tóku að þjóna Asérustólpum og öðrum skurðgoðum. Vegna þessa afbrots kom heiftarreiði yfir Júda og Jerúsalem. Drottinn sendi því spámenn til þeirra til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Spámennirnir áminntu þá en þeir hlustuðu ekki. Þá kom andi Guðs yfir Sakaría, son Jójada prests. Hann gekk fram fyrir fólkið og sagði: „Svo segir Guð: Hvers vegna brjótið þið gegn fyrirmælum Drottins? Þannig mun ykkur ekki vel farnast því að Drottinn yfirgefur ykkur ef þið yfirgefið hann.“
En þeir gerðu samsæri gegn honum og grýttu hann í forgarði húss Drottins samkvæmt skipun konungs.

Pistill: Post 6.8-15 og 7.55-60
Stefán var fullur af náð og krafti og gerði undur og tákn mikil meðal fólksins. Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu en aðrir frá Kilikíu og Asíu og tóku að þrátta við Stefán. En þeir gátu ekki staðið gegn þeirri visku og anda sem hann talaði af. Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: „Við höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði.“ Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið. Þá leiddu þeir fram ljúgvotta er sögðu: „Þessi maður talar sífellt gegn þessum heilaga stað og lögmálinu. Við höfum heyrt hann segja að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum sem Móse hefur sett okkur.“ Allir sem í ráðinu sátu störðu á hann og sáu að ásjóna hans var sem engils ásjóna.

En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“
Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni er Sál hét. Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Þegar hann hafði þetta mælt sofnaði hann.
Sál lét sér vel líka líflát hans.

Guðspjall: Matt 23.34-39
Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta lenda á þessari kynslóð.
Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi? Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“

Sálmur: 203
Sæll er hver, sem deyr í Drottni.
Þótt duftsins veika hreysi brotni,
Guðs vinir hús á himni fá.
Þar sem röðull skær þeir skína,
þar skortur ei né sorg né pína
né dauðans skeyti skelfa þá.
Hvert góðverk þeirra þeim
mun þangað fylgja heim.
Dýrð sé Drottni!
Hans ástarþel
að happi hel
þeim hefur gjört, er stríddu vel.

Heiður, lotning, lofgjörð stærsta,
sé lambi Guðs á stólnum hæsta,
er mannkyns syndabyrði bar.
Hólpna lið, sem heim ert gengið
og hefur sigurkrónu fengið,
þú lambið fræg, sem fórnað var.
Að vorn það deyddi deyð,
það dauða viljugt leið.
Ó, þá elsku!
Sjálft lífið dó
og dauðum bjó
í dýrð á himni líf og ró.

Eigi máni’ og eigi sunna
þar uppi framar lýsa kunna,
því æðri sól þar birtu ber.
Guðs son, Kristur, sólin sanna,
er sjálfur ljósið himinranna,
í geislum hans þar gleðjumst vér.
Þar hvert er horfið tár,
þar hvert er gróið sár.
Hallelúja!
Burt, dimma, fljótt,
burt, dauðans nótt,
kom, dagur lífs hinn mikli, skjótt.

Klopstock – Sb. 1886
Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Himneski faðir þú sem sendir son þinn í heiminn til þess að vera lausnari okkar. Við þökkum þér fyrir Stefán og fyrir þau öll sem þurftu að þola ofbeldi og dauða vegna trúarinnar. Hjálpa þú okkur að horfa til Krists og fyrir eftirfylgd og kross ná um síðir þangað sem við sjáum hann í dýrð sinni, þar sem hann lifir og ríkir með þér og heilögum anda að eilífu. Amen.