Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

1. sunnudagur eftir páska (quasi modo geniti)

Litur: Hvítur.

Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“ (1Pét 1.3)

Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, vér biðjum þig: Veit oss, sem höfum haldið heilaga upprisuhátíð Drottins, náð þína til þess að lifa í ljósi hennar og þjóna í sannri trú og kærleika syni þínum og Drottni vorum Jesú Kristi, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 116.1-9
Ég elska Drottin
af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
Hann hneigði eyra sitt að mér
þegar ég ákallaði hann.
Snörur dauðans umkringdu mig,
angist heljar kom yfir mig,
ég mætti nauðum og harmi.
Þá ákallaði ég nafn Drottins:
„Drottinn, bjarga lífi mínu.“
Náðugur er Drottinn og réttlátur
og Guð vor er miskunnsamur.
Drottinn verndar sakleysingja,
ég var í nauðum og hann bjargaði mér.
Vertu aftur róleg, sála mín,
því að Drottinn gerir vel til þín.
Þú bjargaðir lífi mínu frá dauða,
auga mínu frá tárum,
fæti mínum frá hrösun.
Ég geng frammi fyrir Drottni
á landi lifenda.

Pistill: 1Kor 15.12-21
Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. Við reynumst þá vera ljúgvottar um Guð þar eð við höfum vitnað um Guð að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Ef dauðir rísa ekki upp er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt. Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar. Þá eru einnig þau glötuð sem sofnuðu í trú á Krist. Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.
En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni.

Guðspjall: Jóh 21.1-14
Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.

Sálmur: 159
Að luktum dyrum kom lausnarinn
til lærisveinanna forðum
og bar þeim miskunnarboðskap sinn
með blessuðum friðarorðum.
Um læstar dyr kemst lausnarinn enn,
Guðs lög þótt standi’ í skorðum.

Í Eden forðum var lokuð leið
að lífsins blómguðum viði.
Kerúb með sveipanda sverð þar beið
með sínu himneska liði.
Um læstar dyr kom þar lausnarinn
og lauk upp því gullna hliði.

Og enn er þó harðlæst hjarta manns
og harðlega móti stríðir
og guðdómsraust eigi gegnir hans,
er gjörvöll náttúran hlýðir.
Um læstar dyr kemur lausnarinn
og lýkur þó upp um síðir.

Og eitt sinn grafar hið dimma djúp
yfi’r dauðum oss lykjast tekur.
Þar blundum vér allir í bleikum hjúp,
uns básúnan löndin skekur.
Um læstar dyr kemur lausnarinn
og lúður hans alla vekur.

Og lífsins bók er þó lokað enn
og leiðinni’ að dýrðarhöllum.
Þar stöndum vér daprir, dæmdir menn
og Drottins miskunn áköllum.
Ó, lausnari vor, kom um læstar dyr
og ljúk upp fyrir oss öllum.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, þegar við mætum þér lýkst upp fyrir okkur, að meira að segja hlið heljar eru ekki lokuð lengur, því að þú opnaðir dauðraríkið þegar þú reist upp frá dauðum og settir líf í stað dauða. Og við sem vorum þreytt og uppgefin, orðlaus og vonlaus eins og mörg þeirra sem fylgdu þér forðum, við fengum nýjan kraft. Við réttum úr okkur og horfðum glöð fram á veginn, þegar þú snertir okkur með kærleika þínum og með anda þínum, og við fundum hið nýja líf sem vex og dafnar og sáum og heyrðum að vonin breiðist út, því að þú ert sá sem hjálpar og frelsar, alltaf og allsstaðar. Amen.