Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Sá sem á yður hlýðir hlýðir á mig og sá sem hafnar yður hafnar mér.“ (Lúk 10.16a)

Kollekta:
Drottinn Guð, þú sem ert styrkur þeim sem á þig vona: Heyr í náð bænir vorar, veikra og dauðlegra manna, sem án þín erum vanmegna. Veit oss af náð þinni hjálp til að þóknast þér í vilja og verki. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Mík 6.6-8
Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin,
fram fyrir Guð á hæðum?
Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir,
með veturgamla kálfa?
Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
og tugþúsundum lækja af ólífuolíu?
Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína,
ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?
Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð.

Pistill: 1Tím 6.17-19
Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjall: Lúk 12.13-21
Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Sálmur: 179
Hvað stoðar þig allt heimsins góss og gæði
og gull og silfur, skart og dýrleg klæði,
er ber þú utan á þitt dauðlegt hold?
Hvar liggur það, þá líkaminn er dauður
og langt frá öllu prjáli hvílir snauður
í myrkri mold?

Veist þú þá ei, að dómsins lúður dynur,
þá djásnið fölnar, veldisstóllinn hrynur
og gullkálfurinn hjaðnar eins og hjóm?
Veist þú þá ei, að ekkert gildi hefur
öll auðlegð heims og neina bót ei gefur
við Drottins dóm?

Vor auðlegð sé að eiga himnaríki,
vor upphefð breytni sú, er Guði líki,
vort yndi’ að feta’ í fótspor lausnarans,
vor dýrðarskrúði dreyrinn Jesú mæti,
vor dýrlegasti fögnuður og kæti
sé himinn hans.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Mikli Guð, sem himnarnir rúma ekki, en kemur þó til okkar og ert okkur nálægur í orði þínu, við biðjum þig. Allt í kringum okkur eru orð. Hjálpa þú okkur að heyra þína rödd meðal allra þeirra sem tala til okkar og vilja hafa áhrif á okkur, svo að líf okkar megi tilheyra þér og að það sé borið uppi og mótað af kærleika þínum sem við mætum í Jesú Kristi. Þér sé lof og dýrð að eilífu. Amen.