Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

1. sunnudagur eftir þrettánda – Guðssonurinn

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14)

Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í himneskri mildi þinni bænir vorar, svo að vér sjáum, hvað oss ber að gera og gefist styrkur til að framkvæma það. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jer 31.10-14
Þjóðir, hlýðið á orð Drottins,
kunngjörið það á fjarlægum eyjum og segið:
Sá sem dreifði Ísrael safnar honum saman,
hann gætir hans eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.
Því að Drottinn hefur leyst Jakob,
frelsað hann úr höndum þess sem var honum máttugri.
Þeir koma og fagna á Síon,
ljóma af gleði yfir hinum góðu gjöfum Drottins,
yfir korni, víni og olíu,
yfir sauðum og nautum.
Þeir verða sjálfir eins og vökvaður garður
og missa aldrei framar mátt.
Þá munu meyjarnar stíga gleðidans
og ungir fagna með öldnum.
Ég breyti sorg þeirra í gleði,
hugga og gleð þá sem harma.
Prestunum gef ég ríkulega af feitum fórnum
og þjóð mín mun seðjast af góðum gjöfum mínum,
segir Drottinn.

Pistill: Ef 6.1-4
Börn, hlýðið foreldrum ykkar vegna Drottins því að það er rétt.
„Heiðra föður þinn og móður“ – það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“.
Og feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.

Guðspjall: Mrk 10.13-16
Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Sálmur: 250
Til mín skal börnin bera
svo býður lausnarinn,
þeim athvarf vil ég vera
og veita kærleik minn.
Ég fæddist fátækt i
sem barn, að börn þess njóti
og blessun alla hljóti
af ástarundri því.

Vor Jesús börnin blíður
að brjósti leggur sér
og þeim hið besta býður,
það borgarréttur er,
með himins helgri þjóð,
hann erfð þeim æðsta veitir
og allri sælu heitir
sitt fyrir blessaða blóð.

Til Krists því koma látið,
þér kristnir, börnin smá
og hæsta heill það játið
að hans þau fundi ná.
Ó, berið börn til hans,
hann virðist við þeim taka
þau voði má ei saka
í faðmi frelsarans.

Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn, hann sem er ljós heimsins, takmark þess sem leitar, og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf, og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum að eilífu. Amen.