Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

1. sunnudagur í föstu (invokavit)

Vers vikunnar:
„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak 4.8a)

Kollekta:
Drottinn, vér biðjum þig: Lít þú mildilega til lýðs þíns og vík í miskunn frá honum öllu því, sem gegn honum rís. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: 1Mós 4.3-7
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16
Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-32
Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“

Sálmur: 124
Við freistingum gæt þín og falli þig ver,
því freisting hver unnin til sigurs þig ber.
Gakk öruggur rakleitt mót ástríðu her,
en ætíð haf Jesú í verki með þér.

Hinn vonda soll varast, en vanda þitt mál,
og geymdu nafn Guðs þíns í grandvarri sál,
ver dyggur, ver sannur, því Drottinn þig sér,
haf daglega Jesú í verki með þér.

Hver sá, er hér sigrar, skal sigurkrans fá,
í trúnni vér vinnum, þótt verði margt á,
því sá, er oss hjálpar, við hrösun oss ver.
Ó, hafðu þinn Jesú í verki með þér.

Palmer – Sb. 1886 – Matthías Jochumsson

Bæn dagsins:
Órannsakanlegi Guð. Vilji þinn og vegur þinn er okkur einatt ókunnugur. Þú gerir okkur oft erfitt fyrir þegar við leitum sannleikans. Gefðu okkur skíra sjón og skarpan skilning til þekkja það sem er rétt og kjark til að hafna því sem er rangt og falskt. Þú sendir son þinn í heiminn til að sigra vald hins illa. Láttu ekki viðgangast að við forðumst að taka ákvarðanir og afstöðu. Leiðbeindu okkur á þinum vegi að takmarkinu sem þú setur. Lofaður sért þú að eilífu. Amen.