Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

12. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.“ (Jes 42.3a)

Kollekta:
Almáttugi, miskunnsami Guð. Það er gjöf náðar þinnar, að þeir, sem á þig trúa, veiti þér verðuga og lofsamlega þjónustu, vér biðjum þig: Veit að vér megum höndla fyrirheit þín án þess að hrasa. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 40.2-6
Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.
Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu
og snýr sér ekki til dramblátra
eða þeirra sem fylgja falsguðum.
Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín
og áform þín oss til handa,
ekkert jafnast á við þig.
Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau,
en þau eru fleiri en tölu verði á komið.

Pistill: Jak 3.8-12
en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

Guðspjall: Matt 12.31-37
Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.
En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“

Sálmur: 356
Þú, Guð, sem veist og gefur allt,
mitt geð er hvikult, blint og valt
og hugur snauður hjartað kalt -
þó vil ég vera þinn.
Og þú ert ríkur, þitt er allt,
og þú ert faðir minn.

Þú þekkir allan heimsins harm,
hvert hjarta grætur þér við barm,
þú vegur á þinn ástararm
hvert afbrot manns og böl.
Við krossins djúpa, hreina harm
þú helgar alla kvöl.

Þú átt mitt líf, þú leystir mig,
þú lést mig blindan finna þig
af þeirri náð, er söm við sig
hvern dag mig dæmdan ber.
Þú, Kristur, bróðir, blessar mig
og biður fyrir mér.

Minn Guð, sem varst og ert mér allt
og alla blessar þúsundfalt,
þú skilur hjartað, veilt og valt,
og mannsins mörgu sár.
Þú ber þinn kross og bætir allt
og brosir gegnum tár.

Sigurbjörn Einarsson

Bæn dagsins:
Guð, þú sem ert smyrsl sálarinnar, lækna sár okkar sem ekki gróa og sárin sem við höfum valdið öðrum. Verði vilji þinn að eilífu. Í Jesú nafni. Amen.