Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

13. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Þrettándi sunnudagur eftir þrenningarhátíð er dagur díakoníunnar.

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
Kristur segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40b)

Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Auk oss trú, von og kærleika. Lát oss elska það, sem þú býður, að vér öðlumst það, sem þú hefur heitið oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jes 58.6-12
Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
Þá muntu kalla og Drottinn svara,
biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.

Pistill: 1Kor 13.1-7
Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Guðspjall: Matt 5.43-48
Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Sálmur: 52
Ég tigna kærleiks kraftinn hljóða,
Kristur, sem birtist oss í þér.
Þú hefur föður hjartað góða,
himnanna ríki, opnað mér.
Ég tilbið undur elsku þinnar,
upphaf og takmark veru minnar.

Mitt líf í helgum huga þínum
hefur þú líknarstöfum skráð,
og allt, sem býr í barmi mínum,
bera skal vitni þinni náð,
svo aftur lýsi elskan bjarta,
endurskin þitt, frá lind míns hjarta.

Ég dýrka helga hátign þína,
himneski vinur, Drottinn minn.
Lát trú og verk og vitund mína
vegsama kærleiks máttinn þinn
og mig um alla eilífð bera
anda þíns mót og hjá þér vera.

Tersteegen – Sigurbjörn Einarsson

Bæn dagsins:
Guð, sem elskar, þú sem sérð eymd og neyð okkar mannanna og sendir son þinn til þess að þjóna okkur í kærleika. Hjálpa þú okkur að líkjast honum. Gefðu okkur góðvild og miskunnsemi svo að við göngum ekki framhjá þeim sem þarfnast hjálpar okkar. Heyr þá bæn fyrir Jesú Krist. Amen.