Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“ (Slm 103.2b)

Kollekta:
Drottinn, eilífi Guð, án þín hljóta dauðlegir menn að falla: Vér biðjum þig að varðveita kirkju þína í trúfastri miskunn þinni. Kom til hjálpar, vík frá öllum voða og leið oss á vegi hjálpræðis þíns. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 103.1-6
Davíðssálmur.
Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.
Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.

Pistill: Gal 2.20
Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.

Guðspjall: Jóh 5.1-15
Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

Sálmur: 406
Góði Jesús, læknir lýða,
líkna mér, sem flý til þín,
þjáning ber ég þunga’ og stríða,
þreytt er líf og sálin mín.
Sjá, mitt tekur þol að þverra,
þú mér hjálpa, góði Herra,
mín svo dvíni meinin vönd,
milda þína rétt mér hönd.

Sjá, hve langvinn þraut mig þjakar
þyrnavegi bröttum á,
heyr, mín örmædd öndin kvakar
upp til þín, sér hjálp að fá.
Syndabönd af sekum leystu,
sjúkan lækna, fallinn reistu,
leið mig heilan lífs á stig,
ljúfi Jesús, bænheyr mig.

En ef það er ei þinn vilji
aftur heilsu’ að gefa mér,
veit mér þá ég viti’ og skilji,
vizka þín að eilíf sér
minni sál það bezt til bóta,
betra lífs svo fái njóta
hún í fögrum himnasal,
hafin yfir táradal.

Sendu mínu særðu hjarta
sannan frið í lífi’ og deyð,
lát þitt náðarljósið bjarta
lýsa mér á hættri leið.
Lát þitt ok mér indælt vera,
auk mér krafta það að bera,
unz ég fæ þitt auglit sjá
og þér sjálfum vera hjá.

Brandur Ögmundsson

Bæn dagsins:
Guð, þú sem ert brunnur og lind náðarinnar. Allt hið góða kemur frá þér, og af því gefur þú okkur ríkulega. Opna þú hjörtu okkar svo að við sjáum og skiljum það, og lærum að þakka þér fyrir gæsku þína og miskunnsemi svo lengi sem við lifum. Fyrir Drottin Jesú Krist, son þinn, og bróður okkar, sem með þér og heilögum anda lifir og gefur líf að eilífu.