Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1Pét 5.7)

Kollekta:
Drottinn Guð: Lát eilífa miskunn þína hreinsa og vernda kirkju þína. Stjórna henni í mildi þinni, því að án þín má hún eigi stöðug standa né hólpin verða. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: 5Mós 4.29-31
Þar munt þú leita Drottins, Guðs þíns, og þú munt finna hann ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.
Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans. Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast. Hann gleymir ekki sáttmálanum við feður þína sem hann staðfesti með eiði.

Pistill: Fil 4.11-13
Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Guðspjall: Lúk 10.38-42
Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“
En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Sálmur: 303
Vér biðjum þig, ó, Kristur kær,
lát kenning þína fjær og nær
um heiminn blessun breiða,
gegn táli syndar veit oss vörn,
að verðum Guðs hin réttu börn,
þinn anda lát oss leiða.
Við hjarta þitt oss haltu fast,
og hjörtu vor lát gagntakast
af ástaranda heitum,
sem ljóssins börn að lifum vér
og loksins hljótum vist hjá þér
með helgum himnasveitum.

Zwick – Sb. 1589 – Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Drottinn Guð, verndari allra sem á þig vona, við biðjum þig: Léttu af okkur áhyggjunum um framtíð okkar og kenndu okur að horfa til þín og treysta gæsku þinni allar stundir fyrir son þinn Jesú Krist. Amen.