Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað.“ (Ef 4.2)

Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Hjálpa oss að forðast öll áhrif hins vonda, leita þín hreinum huga og lifa þér einum sönnum Guði. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jes 1.16-17
Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.

Pistill: Gal 5.1-6
Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.
Takið eftir því sem ég, Páll, segi ykkur: Ef þið látið umskerast, þá gagnar Kristur ykkur ekkert. Og enn legg ég ríka áherslu á að sérhver sem lætur umskerast er skyldur til að halda allt lögmálið. Þið eruð orðin viðskila við Krist, þið sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þið eruð fallin úr náðinni. En við væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna sem er von okkar. Í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.

Guðspjall: Mrk 2.14-28
Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.
Svo bar við að Jesús sat að borði í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“
Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: „Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea en þínir lærisveinar fasta ekki?“
Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir fastað meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund sem brúðguminn er hjá þeim geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim degi.
Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“
Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“

Sálmur: 195
Hver fögur dyggð í fari manns
er fyrst af rótum kærleikans.
Af kærleik sprottin auðmýkt er,
við aðra vægð og góðvild hver
og friðsemd hrein og hógvært geð
og hjartaprýði stilling með.

Vér limir Jesú líkamans,
er laugast höfum blóði hans,
í sátt og eining ættum fast
með elsku hreinni’ að samtengjast,
því ein er skírn og ein er von
og ein er trú á Krist, Guðs son.

Og einn er faðir allra sá,
er æðstan kærleik sýndi þá,
er sinn hann eiginn son gaf oss
og síðan andans dýra hnoss,
þess anda’, er helgar hjarta manns
og heim oss býr til sæluranns.

Ó, látum hreinan hjörtum í
og heitan kærleik búa því,
að eins og systkin saman hér
í sátt og friði lifum vér,
vor hæsti faðir himnum á
sín hjartkær börn oss kallar þá.
Kingo – Sb. 1886

Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Guð, þú sem hlustar. Við treystum því að þú heyrir bænir okkar. Hjálpa þú okkur að taka það alvarlega sem við biðjum um. Kenndu okkur að ganga fram fyrir auglit þitt í hógværð og einlægni og einurð. Í Jesú nafni. Amen.