Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt 11.28)

Kollekta:
Drottinn Guð: Lát oss jafnan óttast og elska þitt heilaga nafn, því að aldrei bregst þín hjálp og forsjá þeim, sem þú gerir stöðug í kærleikanum. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Okv 9.10-12
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja Hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31
Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62
Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“

Sálmur: 384
Vort líf er oft svo örðug för
og andar kalt í fang,
og margur viti villuljós
og veikum þungt um gang.
En Kristur segir: Kom til mín,
og krossinn tekur vegna þín.
Hann ljær þér bjarta sólarsýn,
þótt syrti’ um jarðarvang.

Og hafi eitthvað angrað þig
og að þér freisting sótt,
þá bið þú hann að hjálpa þér,
og hjálpin kemur skjótt.
Hans ljós á vegum lýðsins brann.
Hann leiða þig til sigurs kann.
Hin eina trausta hjálp er hann
á harmsins myrku nótt.

Já, mundu’ að hann á mátt og náð,
þú maður efagjarn,
sem aldrei bregst, þótt liggi leið
þíns lífs um auðn og hjarn.
Frá syndum frelsuð sál þín er,
því sjálfur Kristur merkið ber
hvert fótmál lífsins fyrir þér.
Ó, fylg þú honum, barn.

Kristján Einarsson frá Djúpalæk

Bæn dagsins:
Trúfasti Guð, í syni þínum Jesú Kristi hefur þú upplokið hjarta þínu fyrir okkur og gefið okkur hann að bróður. Þú býður okkur til þín heim. Við þökkum þér að við megum eiga heima í kirkjunni þinni. Hjálpa okkur að vaxa í trúnni og styrkjast í orði þínu. Gefðu okkur samfélag hvert við annað við borð þitt, hjálpa okkur að bera vitni um gæsku þína, hvar sem við erum, í öllu því sem við gerum og erum. Í Jesú nafni. Amen.