Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

2. sunnudagur í aðventu – Frelsarinn kemur

Litur: Fjólublár.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.

Vers vikunnar:
„Lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúk 21.28)

Kollekta:
Vek þú, Drottinn hjörtu vor, að þau greiði einkasyni þínum veg og oss veitist að þjóna þér hreinum huga vegna komu hans sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jes 35.1-10
Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

Pistill: Heb 10.35-37
Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

Guðspjall: Mrk 13.31-37
Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“

Sálmur: 62
Sól og tungl mun sortna hljóta,
sérhver blikna stjarna skær,
öldur hafs í æði þjóta,
angist ríkja fjær og nær,
alls kyns neyð og eymdir rísa,
enginn þeirri býsn kann lýsa.
Svo fer dagur dóms í hönd,
dynur skelfing yfir lönd.

En er kraftar himna hrærast,
heilög sjón mun ljóma brátt,
hún á skýjum skjótt mun færast
skærri sól um loftið blátt.
Hátign með og miklu veldi
mannsins son, er dauðann felldi,
kemur degi dómsins á
dýrðarsölum himins frá.

Lítið upp sem lútið niður,
lítið upp er slíkt að ber,
skelfi neyð þá engin yður,
yðar lausn því nálæg er.
Horfið upp frá höfum nauða,
horfið upp frá gröfum dauða,
horfið upp frá harmi og sorg,
horfið upp í lífsins borg.

Aftur sé ég unga rísa
endurborna jörðu þá,
aftur sé ég ljósin lýsa
ljóssins skæru hvelfing á,
Endurleyst er allt úr dróma,
endurreist í nýjum blóma,
nýjan himin, nýja jörð
nú má byggja Drottins hjörð.

Sól og tungl mun sortna hljóta
sérhver blikna stjarna skær.
Aldrei slokkna, aldrei þrjóta
orðsins ljós, er Guð oss ljær.
Jörð og himinn fyrirfarast
fyrr en nokkur maður varast.
Orðsins ljós þó aldrei dvín,
eilíft það í heiði skín.

Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, í heiminum er ótti og þjáning. Við þráum réttlæti og frið. Kom þú skjótt, endurnýja sköpun þína, svo að að óp örvæntingarinnar og stunur hræðslunnar megi breytast í lofsöng. Um það biðjum við og á þig vonum við um tíma og eilífð. Amen.