Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

2. sunnudagur í föstu (reminiscere)

Vers vikunnar:
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)

Kollekta:
Drottinn Guð. Þú veist, að vér megnum ekkert af sjálfum oss. Varðveit oss hið ytra og innra, ver oss vernd og skjól gegn öllu því, sem saurgar hug og hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: 2Mós 33.12-13
Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“

Pistill: Heb 5.7-10
Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Guðspjall: Mrk 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“
Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“
Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.
Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“
Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Sálmur: 191
Hvar lífs um veg þú farinn fer,
þú finnur ávallt marga,
er eigi megna sjálfum sér
úr sinni neyð að bjarga.
Þótt fram hjá gangi fjöldi manns,
þú fram hjá skalt ei ganga,
lát þig langa
að mýkja meinin hans,
er mæðu líður stranga.

Hvar sem þú einhvern auman sér,
hann aðstoð máttu’ ei svipta.
Hvort sem hann vin eða’ óvin er,
það engu lát þig skipta.
Þið eruð báðir börnin hans,
er báða skapað hefur
vernd og vefur,
og limir lausnarans,
er líf hann báðum gefur.

Þú getur sífellt alveg eins
í ólán ratað líka,
þér getur orðið margt til meins,
að miskunn þurfir slíka.
Vilt þú þá ei, að aðrir menn
því úr að bæta reyni
mæðu meini?
Þeir fara fram hjá enn,
þó flýr ei burt sá eini.

Sá eini’, er hvergi fram hjá fer,
er frelsarinn vor blíði.
Hvert mein hann veit, hvert sár hann sér,
er svellur lífs í stríði.
Hann sjálfur bindur sárin öll
og særðum heimför greiðir,
eymdum eyðir,
og loks í himnahöll
til herbergis oss leiðir.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Drottinn Guð, minnstu miskunnar þinnar sem þú hefur auðsýnt börnum þínum frá upphafi. Lát okkur eigi gjalda þess er við treystum á eigin mátt og gleymum þér. Opna eyru okkar svo að við heyrum þegar þú talar og kunngjörum verk þín til björgunar sem þú sýnir okkur í syni þínum Jesú Kristi sem tekur að sér málefni okkar nú og að eilífu.