Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

22. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Í skuld við Guð.

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„En hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttist þig. “ (Slm 130.4)

Kollekta:
Drottinn Guð, sem ert athvarf vort og styrkur og einn gefur sanna trú: Heyr bænir kirkju þinnar og lát oss fá að reyna, að þú veitir oss það, sem vér biðjum um. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Am 5.12-14
Já, ég veit að glæpir yðar eru margir
og syndir yðar miklar.
Þér þröngvið þeim sem hefur á réttu að standa,
þiggið mútur og vísið hinum snauða frá réttinum.
Þess vegna þegir hygginn maður á slíkri tíð
því að það er vond tíð.
Leitið hins góða en ekki hins illa,
þá munuð þér lifa
og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður
eins og þér hafið sagt.

Pistill: 1Kor 16.13-14
Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk. Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.

Guðspjall: Matt 18.15-20
Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér] skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast skaltu taka með þér einn eða tvo að „hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna“. Ef hann skeytir þeim ekki þá seg það söfnuðinum. Skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.
Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu mun bundið á himni og hvað sem þér leysið á jörðu mun leyst á himni.
Enn segi ég yður: Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“

Sálmur: 187
Ó, skapari, hvað skulda ég?
Ég skulda fyrir vit og mál.
Mín skuld er stór og skelfileg,
ég skulda fyrir líf og sál.

Ég skulda fyrir öll mín ár
og allar gjafir, fjör og dáð,
í skuld er lán, í skuld er tár,
í skuld er, Drottinn, öll þín náð.

Ó, skapari, hvað skulda ég?
Í skuld er, Guð, þín eigin mynd.
Ó, mikla skuld, svo skelfileg,
því skemmd er hún af minni synd.

Haf meðaumkun, ó, Herra hár,
ég hef ei neitt að gjalda með,
en álít þú mín angurstár
og andvörp mín og þakklátt geð.

Og þegar loks mitt lausnargjald
ég lúka skal, en ekkert hef,
við Krists, míns Herra, klæðafald
ég krýp og á þitt vald mig gef.

Matthías Jochumsson

Bæn dagsins:
Heilagi Guð, kærleikur þinn vinnur bug á valdi hins illa. Við biðjum þig: hjálpa okkur að breytast og batna, svo að við elskum hvert annað eins og þú elskar okkur, að við fyrirgefum hvert öðru, eins og þú fyrirgefur okkur, og styðjum hvert annað eins og þú styður okkur, til þess að fyrirgefningin megi móta heiminn. Þér sé lof að eilífu. Amen.