Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

3. sunnudagur í aðventu – Fyrirrennarinn

Litur: Fjólublár.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.

Vers vikunnar:
„Greiðið Drottni veg“ „Sjá, Guð yðar kemur“ (Jes 40.3 og 10)

Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Hneig eyra þitt að bænum vorum og lýs upp myrkur hugskots vors fyrir náð vitjunar þinnar, þú sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jes 40.9-11
Stíg upp á hátt fjall, Síon, fagnaðarboði.
Hef upp raust þína kröftuglega, Jerúsalem, fagnaðarboði.
Hef upp raustina og óttast eigi,
seg borgunum í Júda:
Sjá, Guð yðar kemur í mætti
og ríkir með máttugum armi.
Sjá, sigurlaun hans eru með honum
og fengur hans fer fyrir honum.
Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,
taka unglömbin í faðm sér
og bera þau í fangi sínu
en leiða mæðurnar.

Pistill: 2Pét 1.19-21
Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall: Lúk 3.1-9 (10-14) 15-18
Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns:
Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gerið beinar brautir hans.
Öll gil skulu fyllast,
öll fell og hálsar jafnast,
bugður verða beinar
og óvegir sléttar götur.
Og allir munu sjá hjálpræði Guðs.
Við mannfjöldann, sem fór út til að láta hann skíra sig, sagði hann: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður. Ég segi ykkur að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað.“
Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“
En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“
Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“
En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“
Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“
Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“
Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Með mörgu öðru hvatti hann fólk og flutti því fagnaðarboðin.

Sálmur: 69
Upp, gleðjist allir, gleðjist þér,
í Guði vorum fagna ber,
vort hjálpráð nú er nærri,
Ó, heyrið blíðan boðskap þann,
að borinn er í manndóm hann,
sem Guð er, himnum hærri.

Burt, hryggð, úr allra hjörtum nú,
kom, heilög gleði, svo í trú
vér Jesú faðmað fáum,
og elskan heit af hjartans rót
þeim himingesti taki mót
með lofsöngs hljómi háum.

Ó, virstu, góði Guð, þann frið,
sem gleðin heims ei jafnast við,
í allra sálir senda,
og loks á himni lát oss fá
að lifa jólagleði þá,
sem tekur aldrei enda.

Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Drottinn Guð. Þú ert á leiðinni til okkar. Við viljum koma til móts við þig og mæta þér þegar þú kemur, en það er svo margt í veginum sem truflar ferð hins góða til þín. Sigra það sem skilur okkur frá þér svo að við megum mæta þér. Um það biðjum við þig, sem kemur til okkar í Jesú Kristi og vilt vera hjá okkur með anda þínum að eilífu. Amen.