Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Litur: Grænn.

Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal.6.2)

Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Stýr þú rás heimsins til friðar, svo að kirkja þín megi í rósemi og gleði þjóna þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: 1Mós 4.8-13
Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“
Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana.

Pistill: Róm 2.1-4
Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs?

Guðspjall: Jóh 8.2-11
Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.
Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“
En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“
Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“

Sálmur: 711
Drottinn, Guðs sonur, sem duftið mitt bar,
dó til að lífga mitt fölskvaða skar,
reis upp af gröf, svo að gæti hann mér
gefið sitt eilífa ríki með sér.

Kristur, í náð þinni komstu til mín,
kveiktir það ljós, er mig vakti til þín,
orðið þitt varð mér að lifandi lind,
ljómaði við mér þín heilaga mynd.

Þú hefur játast mér eins og ég er,
augað þitt heilaga þekkir og sér
hjarta mitt, vafið í villu og tál,
vilja minn blindan og flekkaða sál.

Samt viltu eiga mig, allsvana barn,
eigrandi skugga um vegalaust hjarn,
sekt minni gleyma, þótt særði ég þig,
sýkna og lækna og umskapa mig.

Trúin mín sér þig og sólin mér skín,
sála mín fagnar og brosir til þín,
vaknar sem blómið, þá veturinn fer,
vegsamar lífið, sem kemur með þér.

Frelsari heimsins, mitt hjarta er þitt,
hugsun mín, vilji og allt, sem er mitt,
lofi og kunngjöri kærleika þinn,
konungur, bróðir og lífgjafi minn.

Sigurbjörn Einarsson

Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi. Amen.