Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

5. sunnudagur eftir páska (rogate) – Hinn almenni bænadagur

Litur: Hvítur.

Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð er hvorki vísaði bæn minni á bug né tók frá mér miskunn sína.“ (Slm 66.20)

Kollekta:
Almáttugi Guð, sem gefur allt hið góða, vér biðjum þig: Laða oss með anda þínum til að hugsa það eitt sem er rétt og veit oss leiðsögn til að framkvæma það. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 121
Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.

Pistill: Róm 8.24-27
Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.
Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.

Guðspjall: Lúk 11.5-13
Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.
Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Sálmur: 163
Biðjið – og þá öðlist þér,
eftir Jesú fyrirheiti.
Hans í nafni biðja ber,
bænin svo þér fullting veiti.
Bænin sé þér indæl iðja,
öðlast munu þeir, sem biðja.

Leitið – og þér finnið fljótt
frið í yðar mæddu hjörtum.
Drottinn gegnum dimma nótt
dreifir náðargeislum björtum.
Hann mun frið og frelsi veita,
finna munu þeir, sem leita.

Knýið á – þá opnar sig
ástríkt Drottins föðurhjarta
og við dauðans dimma stig
dýrðarinnar höllin bjarta.
Í Guðs náðar arma flýið,
upp mun lokið, þá þér knýið.

Brun – Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Guð, við áköllum þig og þráum áheyrn þína eins og kona með hríðir þráir að barnið fæðist. Gefðu okkur kjark til að bíða og kraft til að þrýsta á, þar til trúin í okkur fær líf. Gef þá að við megum vera verkfærin sem bera frið þinn og fögnuð þinn inn í heiminn. Á þig vonum við um tíma og eilífð. Amen.