Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

6. sunnudagur eftir páska (exaudi)

Heiti sunnudagsins Exaudi er tekið úr Slm 27.7: „Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, ver mér náðugur og bænheyr mig.“ Litur: Hvítur eða rauður.

Vers vikunnar:
Jesús segir: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ (Jóh 12.32)

Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Gef þú að vilji vor sé ávallt helgaður þér og vér þjónum hátign þinni af einlægu hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Sak 14.5c–9
En Drottinn, Guð minn, mun koma og með honum allir heilagir.
Á þeim degi verður hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin, það verður samfelldur dagur og á því kann Drottinn einn skil. Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. Á þeim degi mun ferskt vatn streyma frá Jerúsalem, að hálfu í austurhafið og að hálfu í vesturhafið, jafnt sumar sem vetur. Drottinn mun þá verða konungur yfir veröldinni allri. Á þeim degi mun Drottinn verða einn og nafn hans eitt.

Pistill: Post 1.12-14
Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Guðspjall: Jóh 17.9–17
Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.

Sálmur: 330
Ó, Guð, mér anda gefðu þinn,
er glæðir kærleik, von og trú,
og veit hann helgi vilja minn,
svo vilji’ eg það, sem elskar þú.

Æ, lát hann stjórna lífi’ og sál,
að lifi’ eg eins og kristnum ber,
og öll mín hugsun, athöfn, mál,
til æviloka helgist þér.

Þig, sem hið góða gefur allt,
ó, Guð, af hjarta bið ég nú:
Við ótta þinn mér ætíð halt
og elsku þína’ og sanna trú.

Minn greiði veg þín gæskan blíð,
svo geti’ eg trúr mitt runnið skeið,
en þegar lyktar lífsins stríð,
mér líkna þú í dauðans neyð.

Að ég sé blessað barnið þitt,
ég bið þinn andi vitni þá.
Æ, heyr þú hjartans málið mitt,
vor mildi faðir himnum á.

Sb. 1871 – Páll Jónsson

Bæn dagsins:
Guð, ljósið þitt lýsir mér á jörðu og á himni. Ljósið þitt upplýsir mig, orðið þitt leitar mín og tekur sér bústað í hjarta mínu. Þannig sendir þú mér anda þinn sem leiðir mig. Vert þú með okkur, svo að við séum með þér í dag og alla tíð. Amen.