Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Allra heilagra messa

1. nóvember – fyrsti sunnudagur í nóvember. Litur: Hvítur eða rauður.

Kollekta:
Eilífi, almáttugi Guð, sem vilt helga þá alla, sem þú hefur útvalið og elskað í einkasyni þínum: Lát þú oss líkjast helgum vottum þínum í trúnni, voninni og kærleikanum, að vér megum hljóta sömu sáluhjálp. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: 5Mós 33.1-3
Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17
Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16
Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Sálmur: 201
Sælir þeir, er sárt til finna
sinnar andans nektar hér,
þeir fá bætur þrauta sinna,
þeirra himnaríkið er.

Sælir þeir, er sýta’ og gráta.
Sorgin beisk þó leggist á,
Guð mun hugga, Guð mun láta
gróa sár og þorna brá.

Sælir þeir, sem hógvært hjarta
hafa’ í líking frelsarans.
Þeir, sem helst með hógværð skarta,
hlutdeild fá í arfleifð hans.

Sælir þeir, sem þess hins rétta
þorsta’ og hungurs finna til.
Þeim skal svala, þá skal metta,
þeim skal snúast allt í vil.

Sælir þeir, sem vorkunn veita,
vægan dóm þeir skulu fá.
Eins og þeir við aðra breyta
aftur verður breytt við þá.

Sælir allir hjartahreinir,
hjarta þess, sem slíkur er,
sælu öllu æðri reynir,
auglit Drottins blítt það sér.

Sælir allir sáttfýsandi,
síðar friðarljós þeim skín,
friða’rins Guð á friðarlandi
faðmar þá sem börnin sín.

Sælir þeir, er sæta þungum
svívirðingum mönnum hjá,
aftur þeir af engla tungum
öðlast vegsemd himnum á.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Eilífi, trúfasti Guð. Þú kallar okkur til samfélags hinna heilögu sem á öllum tímum og á öllum stöðum vegsama nafn þitt. Við þökkum þér að við fáum að standa fylkingu hinna trúuðu, saman tengd á grunni hinnar góðu játningar í glöðu trausti þess að við munum fá að sjá þig augliti til auglitis. Þér sé lof að eilífu. Amen.