Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Hvítasunnudagur

Litur: Rauður.

Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)

Kollekta:
Guð, sem hefur uppfrætt hjörtu trúaðra með ljósi þíns heilaga anda: Veit oss í sama anda þinum að vita hið rétta og ávallt gleðjast af hans heilögu huggun. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 104.24, 27-30
Hversu mörg eru verk þín, Drottinn?
Þú vannst þau öll af speki.
Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.

Öll vona þau á þig
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

Pistill: Post 2.1-4 (-11)
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Guðspjall: Jóh 14.15-21
Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“

Sálmur: 724
Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna,
heilaga lindin alls, sem birtu færir
hann, sem hvern geisla alheims á og nærir,
eilífur faðir ljóssins skín á þig,
andar nú sinni elsku yfir þig.

Ljóma þú, jörð, þér lýsir hvítasunna,
lífgjöf þín, Kristur, risinn upp frá dauðum,
opnar sinn himin heimi vonarsnauðum,
heilagur andi streymir yfir þig,
andar nú sinni elsku yfir þig.

Geisla þú, sál, mót sól þíns lífs og fagna,
sjá, það er vor á jörð, sem Drottinn gefur,
vittu það, barn, og vakna þú, sem sefur,
vitjar þín andi Guðs og skín um þig,
andar nú sinni elsku inn í þig.

Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta,
heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar,
uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar,
ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig,
anda nú þinni elsku inn í mig.

Sigurbjörn Einarsson

Bæn dagsins:
Huggunar-andi og eldur Guðs, lífskraftur alls hins skapaða, í þér mætum við Guði. Þú safnar saman hinum villuráfandi, birtir þeim sannleikann og lætur þau skilja hvert annað. Þökk sé þér fyrir það. Amen.