Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Jónsmessa – 24. júní

Vers vikunnar:
„Þetta er vitnisburður Jóhannesar skírara: „Hann á að vaxa en ég að minnka.““ (Jóh 3.30)

Kollekta:
Drottinn Guð, upphaf og skapari alls ljóss. Þú sem valdir Jóhannes í móðurlífi til að bera vitni um ljósið sem upplýsir öll börnin þín. Vér biðjum þig: Gef oss náð til þess að helga líf vort því ljósi eins og Jóhannes, svo að Kristur vaxi og verði máttugur í oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottinn vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda frá eilífð til eilífðar. Amen.

Textaröð: B

Lexía: Jes 40.1-8
Huggið, huggið lýð minn,
segir Guð yðar.
Hughreystið Jerúsalem
og boðið henni
að áþján hennar sé á enda,
að sekt hennar sé goldin,
að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins
fyrir allar syndir sínar.
Heyr, kallað er:
„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,
sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
og hamrar að dalagrundum.
Þá mun dýrð Drottins birtast
og allt hold sjá það samtímis
því að Drottinn hefur boðað það.“
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Pistill: Post 17.22-31
Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: „Aþeningar, þið komið mér svo fyrir sjónir að þið séuð í öllum greinum miklir trúmenn því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum ykkar og fann þá meðal annars altari sem á er ritað: Ókunnum guði. Þetta sem þið nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég ykkur. Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum sem með höndum eru gerð. Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi að þær leituðu Guðs ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af okkur. Í honum lifum, hrærumst og erum við. Svo hafa og sum skáld ykkar sagt: Því að við erum líka hans ættar. Fyrst við erum nú Guðs ættar megum við eigi ætla að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gerðri með hagleik og hugviti manna. Guð hefur umborið vanvisku liðinna tíma. En nú boðar hann mönnum hvarvetna að allir skuli snúa sér til hans því að hann hefur sett dag er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“

Guðspjall: Lúk 1.57-66
Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.

Sálmur: Jónsmessuhymni úr Hólabókinni
Eilífum Föður öll hans hjörð
af hjarta syngi þakkargjörð,
með sinnar náðar sætu orð
sendi Jóhannes oss á jörð.

Hann öllum bauð að hafna synd,
hræddi dramblátra manna lund,
hæsta dómarans fengi fund,
fram til þess væri lítil stund.

Hér með þá lýður hræddur var,
hjálpar veg sannan predikar,
sjálft lamb með fingri sýnir þar,
sem mannkyn við Guð forlíkar.

Staðfastur þennan boðskap ber,
birti Krists komu fylgja sér.
Eins sem dagstjarnan undan fer
uppgöngu sólar kunngjörir.

Farisearnir fróman mann
fengu ei beygt né anda þann.
Elías annan héldu hann
hræsni djarflega straffa kann.

Ó, faðir þig áköllum vér
að þú vor hjörtu uppvekir
Svo öll vér trúum eflaust þér
eins sem Jóhannes vitni ber.

Úr Hólabókinni 1589. Philipp Melanchthon

Bæn dagsins:
Guð, huggun kirkju þinnar. Þú lést Jóhannes skírara undirbúa veginn fyrir komu sonar þíns Jesú Krists. Hjálpa þú okkur að fylgja dæmi hans og hlýða kalli hans til að fylgja vegi hjálpræðisins, fyrir Jesú Krist bróður okkar og Drottin. Amen.