Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Kristniboðsdagurinn – annar sunnudagur í nóvember

Kollekta:
Miskunnsami Guð, þú sem sendir son þinn Jesú Krist inn í þennan heim til þess að vera ljós heiðingjanna og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. Lát frelsandi kraft fagnaðarerindis þíns vera boðað öllum þjóðum þessarar jarðar.Vek trú og von með öllum þjóðum og kynþáttum fyrir Jesú Krist drottin vorn. Amen.

Textaröð: B

Lexía: Jes 12.2-6
Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaró p, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.

Pistill: Róm 10.8-17
Hvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. “Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;” því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða. En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu. En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?

Guðspjall: Matt 28.16-20
En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Einnig má lesa Matt 9.35-38:

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“

Sálmur: 302
Í fornöld á jörðu var frækorni sáð,
það fæstum var kunnugt, en sums staðar smáð,
það frækorn var Guðs ríki’, í fyrstunni smátt,
en frjóvgaðist óðum og þroskaðist brátt.

Þá dundu’ yfir stormar og hretviðrin hörð,
og haglél og eldingar geisuðu’ um jörð.
Það nístist af frosti, það funaði’ af glóð,
en frjóvgaður vísir þó óskemmdur stóð.

Og frækornið smáa varð feiknastórt tré,
þar fá mátti lífsins í stormunum hlé,
það breiddi sitt lim yfir lönd, yfir höf,
á lifenda bústað, á dáinna gröf.

Í skjóli þess þjóðirnar þreyta sitt skeið
og þreyttur fær hressing á erfiðri leið,
í skjóli þess hrakinn og vesall fær vörn,
þar velja sér athvarf hin saklausu börn.

Það vantar ei ennþá hin ísköldu él
og orma, sem vilja þess rót naga’ í hel,
en hvernig sem fella það farið er að,
þeir fá því ei grandað né eyðilagt það.

Það blómgast og vex og æ blómlegra rís,
í breiskjandi hita, í nístandi ís,
af lausnarans blóði það frjóvgaðist fyrst,
þann frjóvgunarkraft eigi getur það misst.

Frá heimskauti einu til annars það nær,
þótt önnur tré falli, þá sífellt það grær,
þess greinar ná víðar og víðar um heim,
uns veröldin öll fær sitt skjól undir þeim.

Og sú kemur tíðin, að heiðingja hjörð
þar hælis sér leitar af gjörvallri jörð,
sú tíðin, að illgresið upp verður rætt
og afhöggna limið við stofninn sinn grætt.

Hve gleðileg verður sú guðsríkisöld.
Um gjörvallan heim ná þess laufskálatjöld.
Úr hvelfingu myndast þar musteri frítt,
þar mannkynið allt Guði lof syngur blítt.

Sb. 1886 – Valdimar Briem

Bæn dagsins:
Eilífi Guð og faðir, þú sem helgar kristnina alla og leiðir hana í heilögum anda, gef að orð þitt heyrist um gjörvalla jörðina. Heyr bænir lýðs þíns, og hjálpa börnum þínum til að liðsinna hinum fátæku og kúguðu og játa þig meðal þeirra sem þig hata, fyrir son þinn Jesú Krist, bróður okkar og frelsara. Amen.