Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Síðasti sunnudagur kirkjuársins

Litur: Grænn eða hvítur.

Vers vikunnar:
„Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga.“ (Lúk 12.35)

Kollekta:
Almáttugi Guð, vér biðjum þig: Gef oss af náð þinni að mega þjóna þér í öllum verkum vorum. Helga þú ávöxt iðju vorrar og ger oss minnug á kærleika þinn. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Job 14.1-6
Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

Pistill: 2Pét 3.8-13
En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Guðspjall: Jóh 5.24-27
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.

Sálmur: 64
Vakna, Síons verðir kalla,
ó, vakna, hljómar röddin snjalla,
þú Jerúsalem, borg Guðs, brátt.
Hyggin vert og hugsa eigi,
að hér til hvíldar bjóða megi,
þótt yfir standi aldimm nátt.
Sjá, Herrann kemur kær,
kom, brúður, honum nær.
Blys lát brenna
og gleðst í lund,
á Guðs þíns fund
hann leiðir þig við ljúfa mund.

Síon hljóminn helga nemur,
sig hún í skyndi býr og kemur
og ástvin breiðir arma mót.
Sjá, hann birtist, son Guðs fríður,
í sannleiksvaldi, náðarblíður,
sú morgunstjarna’ og meinabót.
Þú, Herra’, ens hæsta son,
vor huggun, gleði’ og von.
Hósíanna!
Með fögnuð vér
nú fylgjum þér
í himnadýrð, sem eilíf er.

Eilíft lof með einum rómi
þér inna skal, Guðs dýrðarljómi,
með englum sælum uppi þar,
þar sem lífsins geislar glitra
frá guðdómstóli hins alvitra,
sem með sér ann oss eilífðar.
Hvað auga aldrei sá
og eyra mátti’ ei ná,
vér nú sjáum.
Ó, Herra, þér,
sem hjörtun sér,
um eilífð syngjum vegsemd vér.

Nicolai – Sb. 1871 – Stefán Thorarensen

Bæn dagsins:
Eilífi Guð, þegar þú kemur til dóms munu orð okkar og verk verða að engu. Von okkar er Kristur. Af því að hann hefur fórnað sér fyrir okkur og tekið á sig refsingu okkar biðjum við: Lít til hans en ekki okkar og sýkna okkur hans vegna, við tilbiðjum hann ásamt þér og heilögum anda að eilífu. Amen.