Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Þrettándinn (Birtingarhátíð Drottins) – 6. janúar

Litur: Hvítur.

Vers vikunnar:
„Myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.” (1Jóh 2.8)

Kollekta:
Drottinn Guð, þú sem lést stjörnu vísa heiðingjum veg til einkasonar þíns: Unn oss, sem nú þekkjum þig fyrir trúna, að fá um síðir að líta fegurð hátignar þinnar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Jes 60.1-6
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
Hef upp augu þín og litast um,
þeir safnast allir saman og koma til þín,
synir þínir koma langt að
og dætur þínar verða bornar á örmum.
Við þá sýn muntu gleðjast,
hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði
því að til þín hverfur auður hafsins
og auðæfi þjóða berast þér.
Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt,
drómedarar frá Midían og Efa
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.

Pistill: Ef 3.2-12
Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur: Með opinberun birtist mér leyndardómurinn. Um það hef ég stuttlega skrifað áður. Þegar þið lesið það getið þið skynjað hvað ég veit um leyndardóm Krists. Hann var ekki birtur mannanna börnum fyrr á tímum. Nú hefur Guð látið andann opinbera hann heilögum postulum sínum og spámönnum: Vegna samfélagsins við Krist Jesú og með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur, einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við.
Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis af því að Guð gaf mér þá náð með krafti máttar síns. Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists og að upplýsa alla um það hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi sem frá eilífð var hulinn hjá Guði sem allt hefur skapað.
Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum á himnum hve margháttuð speki Guðs er. Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. Á honum byggist djörfung okkar. Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði.

Guðspjall: Matt 2.13-15
Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“

Sálmur: 89
Sjá, morgunstjarnan blikar blíð,
sem boðar náð og frelsi lýð
og sannleiksbirtu breiðir.
Þú blessun heims og harmabót,
þú heilög grein af Jesse rót,
mig huggar, lífgar, leiðir.
Jesús, Jesús,
líknin manna, lífið sanna,
ljósið bjarta,
þér ég fagna, hnoss míns hjarta.

Þú dásöm perla, dýr og skær,
þú djásnið mannkyns, Jesús kær,
þú eilíf alheims gleði,
þú himinlilja’ í heiminum,
þitt heilagt evangelíum
er svölun særðu geði.
Herra, Herra,
himneskt manna, hósíanna!
Hátign þinni
vegsemd, dýrð og lof ei linni.

Nicolai – Helgi Hálfdánarson

Bæn dagsins:
Jesús Kristur, barn Guðs og ljós þjóðanna, þú sem hefur birst á meðal okkar, eins og barn en ekki eins og einn hinna voldugu. Gef okkur náð til þess að leita þín þar sem þú ert. Þá verður speki þessa heims auðmjúk og fyllist undrun er hún uppgötvar hversu góður þú ert, frelsari okkar og bróðir. Amen.