Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Uppstigningardagur

Litur: Hvítur.

Kollekta:
Alvaldi, eilífi Guð, vér biðjum þig: Veit oss, sem trúum því, að einkasonur þinn, Jesús Kristur, frelsari vor, sé upp stiginn til himna, að vér megum hjá honum vera með hug og hjarta og eilíflega fylgja honum, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: B

Lexía: Slm 110.1-4
Davíðssálmur.
Svo segir Drottinn við herra minn:
„Set þig mér til hægri handar,
þá mun ég leggja óvini þína
sem skör fóta þinna.“
Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon.
Drottna þú meðal óvina þinna.
Þjóð þín kemur fúslega er þú kveður til her þinn.
Á helgum fjöllum fæddi ég þig
eins og dögg úr skauti morgunroðans.
Drottinn hefur svarið
og hann iðrar þess eigi:
„Þú ert prestur að eilífu
að hætti Melkísedeks.“

Pistill: Ef 1.17-23
Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem hann lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.

Guðspjall: Lúk 24.44-53
Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“
Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“
Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.

Sálmur: 170
Vér horfum allir upp til þín,
í eilíft ljósið Guði hjá,
þar sem að dásöm dýrð þín skín,
vor Drottinn Jesús, himnum á.

Vorn huga, Drottinn, drag til þín
í dýrðarljómann jörðu frá,
því ekkert hnoss í heimi skín,
sem hjartað friða’ og gleðja má.

Og ekkert löngun hjartans hér
af heimsins gæðum seðja má.
Vér þráum líf, sem eilíft er,
og ætíð þér að vera hjá.

En styrk oss til að stríða hér,
að stríða synd og löstum mót.
Æ, veit oss náð að þóknast þér
og þig að elska’ af hjartans rót.

Sb. 1871 – Páll Jónsson

Bæn dagsins:
Jesús Kristur, himininn stendur opinn og þú sýnir okkur jörðina. Þú ert hjá Guði og þú ert nálægt okkur. Þú hefur himinn og jörð í höndum þínum og þú heldur á okkur. Lof sé þér Kristur, Drottinn. Amen.