Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Fjármál þjóðkirkjunnar

Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1998 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar var stjórnsýsla Þjóðkirkjunnar aukin og styrkt til muna. Þjóðkirkjan ræður að mestu starfi sínu og mótar eigin starfshætti innan þess ramma sem löggjafinn hefur markað.

Tekjur Þjóðkirkjunnar byggja á lögum og samningum við ríkið á grundvelli kirkjueigna. Einnig innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna sem og önnur trúfélög. Þjóðkirkjan er sjálfstæð stofnun og jarðeignir sem voru í eigu kirkjunnar stóðu áður beint undir launum og rekstri embættanna og viðhaldi kirknanna.

Árið 1907 eru sett lög um sölu kirkjujarða þar sem samkomulag var gert við ríkið um að afhenda kirkjujarðirnar. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta og þannig verður ríkið vörsluaðili eigna fyrir kirkjuna. Á þeim tíma átti kirkjan verulegar fasteignir.

Í janúar 1997 er fest í samkomulagi milli Þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins að kirkjan afhendi jarðirnar gegn greiðslum frá ríkinu vegna launa 138 presta og prófasta, tveggja vígslubiskupa og biskupsembættisins. Árið eftir var svo gerður fjárhagssamningur sem var útfærsla á kirkjujarðasamkomulaginu. Í október 2006 lauk samningum milli ríkis og kirkju um uppgjör og afhendingu prestssetranna til Þjóðkirkjunnar.

Tilgangur sjóða sem settir hafa verið á stofn er að bæta kirkjunni að hluta tekjumissi sem kirkjan varð fyrir þegar ríkið tók yfir kirkjueignirnar og arð af þeim árið 1907. Helstu sjóðirnir eru Kristnisjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Kirkjumálasjóður og fer Kirkjuráð með stjórn þeirra.

Greiðslur í Kristnisjóð grundvallast á lögum nr. 35/1970. Tekjur Kristnisjóðs renna í Kirkjumálasjóð þar sem veitt eru framlög til starfsemi kirkjunnar. Er þetta liður í einföldun umsýslu Kirkjuráðs.

Árið 1987 er Jöfnunarsjóður sókna settur á stofn með lögum nr. 138/1993. Tekjustofn Jöfnunarsjóðs sókna miðast við 18,5% ofan á sóknargjöld til þjóðkirkjusafnaða. Árlega úthlutar Kirkjuráð til kirkna með sérstöðu, til að jafna aðstöðu sókna og til að auðvelda stofnun nýrra sókna. 15% af tekjum sjóðsins renna árlega í Kirkjumálasjóð þar sem úthlutað er til kirkjulegs félags- og menningarstarfs.

Árið 1993 er Kirkjumálasjóður stofnaður með lögum nr. 138/1993. Sjóðurinn kostar rekstur prestssetra, tónlistarfræðslu kirkjunnar, Kirkjuráðs, Kirkjuþings, prestastefnu, þjálfun prestsefna, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar o.fl. Í kjölfar samnings um prestssetrin var framlag í Kirkjumálasjóð hækkað úr 11,3% af sóknargjöldum í 14,3%. Á móti féllu niður liðir vegna rekstrarkostnaðar einstakra verkefna á fjárlögum.

Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir Þjóðkirkjuna um leið og skattana samkvæmt lögum nr. 91/1987. Sóknargjald greiðir hver einstaklingur sem er eldri en 16 ára og er í Þjóðkirkjunni. Gjald þetta hækkar í hátt við tekjur í landinu. Önnur trúfélög njóta sömu þjónustu frá ríkinu.

Kirkjugarðar landsins fá fjárveitingu á grundvelli reiknilíkans. Greiðslur til kirkjugarða miðast við fjölda greftrana næstliðins árs og stærð kirkjugarða. Hluti af kirkjugarðsgjöldum rennur í Kirkjugarðasjóð. Meginmarkmið sjóðsins er að jafna aðstöðu kirkjugarða.

Sjá nánar um fjármál í grein um grundvöll fjármála Þjóðkirkjunnar.

Nánar

Yfirlit um greiðslur til þjóðkirkjunnar 2008-2012

Tekjustofn safnaðanna, um sóknargjöld