Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Grundvöllur fjármála þjóðkirkjunnar

Tekjur Þjóðkirkjunnar byggja á lögum og samningum við ríkið á grundvelli kirkjueigna. Einnig innheimtir ríkið fyrir kirkjuna sóknargjöld, sem eru einskonar félagsgjöld. Mun hér verða gerð grein fyrir helstu tekjustofnum Þjóðkirkjunnar – hvaðan þeir eru upprunnir og hvernig þeim er ráðstafað.

Gildandi samningar við ríkið eru að miklu leyti grundvallaðir á niðurstöðu kirkjueignanefndar frá 1984 en skýrsla hennar markaði tímamót. Áður hafði því verið haldið fram um nokkurt skeið að kirkjan væri eins og hver önnur opinber stofnun og að eignir kirkjunnar væru sjálfkrafa eign ríkisins.

Þjóðkirkjan er sjálfstæð stofnun og sjálfstæður réttaraðili sem ber réttindi og skyldur að lögum. Í hátt við það nýtur Þjóðkirkjan verndar 67. greinar stjórnarskrárinnar og eignir hennar verða ekki teknar af henni nema með ströngum skilyrðum og að fullt verð komi fyrir. (Ákvæði um eignarrétt og eignarnám).

Það er því ljóst að jarðeignir sem voru í eigu kirkjunnar og ekki höfðu verið seldar með lögmætri heimild eru kirkjujarðir en ekki ríkisjarðir. Þetta var grundvöllur viðræðna við ríkið um að tengja saman á ný eignir kirkjunnar og greiðslur frá ríkinu. Lauk þeim viðræðum með samningi milli ríkis og kirkju árið 1997 um kirkjujarðirnar og árið 2006 um prestssetrin.

Sögulegt samhengi

Kirkjueignir og arður af þeim höfðu frá alda öðli staðið undir launum og rekstri embættanna og viðhaldi kirknanna og verður það nú rakið stuttlega.

Upphaflega voru allar kirkjur bændakirkjur á Íslandi. Fjárhagur kirknanna var sjálfstæður þótt þær lytu eignarrétti einstakra manna. Kirkjubóndinn hafði þó takmarkaðan eignarrétt þar sem kirkjan laut hinum almenna kirkjurétti.

Breyting varð á þessu eftir sáttagjörðina í Ögvaldsnesi í Noregi 1297. Þær jarðir sem kirkjan átti meira en helming í færðust undir forræði biskups. Hann afhenti þær síðan prestunum til forsjár og þeir höfðu framfærslu af þeim og kostuðu starfið. Bændur héldu aftur á móti þeim stöðum sem þeir áttu að meirihluta. Þessar deilur á 12. og 13. öld snérust ekki eingöngu um hver ætti að fara með valdið heldur tryggðu eignirnar starfsöryggi prestanna og frelsi þeirra til boðunar.

Við siðskiptin urðu ekki verulegar breytingar á stöðu þessara jarða en konungurinn lagði undir sig klausturjarðirnar sem síðar urðu eign ríkisins – þjóðjarðirnar svonefndu – og einnig jarðir biskupsstólanna að hluta til og tekjustofna þeirra. Lénskirkjurnar og bændakirkjurnar héldu sínum tekjum og réttarstöðu.

Presturinn bar ábyrgð á viðhaldi prestssetursins og kirkjunnar og stóð brauðið eða embættið undir þeim kostnaði. Tekjur embættisins voru arður eigna og ýmsir skattar og kvaðir. Prestakallið var rekið eins og sjálfseignastofnun undir forsjá prestsins. Aðstaða presta var mjög misjöfn eftir því hversu gjöful embættin voru. Prestssetur voru reist fyrir tekjur prestakallanna og prestarnir ábyrgir fyrir þeim með launum sínum. Þannig gegndu eignir kirkjunnar því hlutverki öldum saman að kosta prestsþjónustu við söfnuðina.

Lög um sölu kirkjujarða 1907

Árið 1907 eru sett lög um sölu kirkjujarða þar sem samkomulag var gert við ríkið um að afhenda kirkjujarðirnar. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta og þannig verður ríkið vörsluaðili eigna fyrir kirkjuna. Á þeim tíma átti kirkjan verulegar fasteignir.

Gamla kerfið hafði gengið sér til húðar og ekki hægt að reka prestssembættin á því sem kirkjujarðirnar gáfu af sér. Einnig hafði átt sér stað samfélagsþróun þar sem þótti æskilegt að leiguliðar eignuðust ábýlisjarðir sínar – en kirkjan vildi leggja sitt af mörkum í þeirri jákvæðu þróun.

Í samkomulaginu frá 1907 var gengið út frá að kirkjujarðirnar skyldu afhentar og ríkið myndi ávaxta andvirði seldra kirkjujarða í kirkjujarðasjóði og í prestslaunasjóði. Prestslaunasjóður var jöfnunarsjóður er átti að jafna tekjur presta. Þetta launakerfi varð ekki langlíft og prestar fóru á föst laun frá ríkinu nokkrum árum seinna – efnahagsþrengingar höguðu því þannig að sjóðirnir urðu að engu.

Kirkjujarðasamkomulagið og samkomulag um prestssetur

Í janúar 1997 var gert samkomulag milli Þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins um að “kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frá töldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, væru eign íslenska ríkisins” á móti þeirri skuldbindingu að íslenska ríkið greiddi “laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins”. Þetta var síðan áréttað í lögum um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er tóku gildi 1. janúar 1998 – sett fram á táknrænan hátt frekar en að nákvæmir útreikningar liggi á bak við.

Í framhaldi var gerður fjárhagssamningur sem var útfærsla á ofangreindu kirkjujarðasamkomulagi og fjallaði hann um laun og rekstrarkostnað biskupsembættisins, presta, prófasta og vígslubiskupa. Samkomulagið frá 1997 er endurnýjun og árétting á löggjöfinni frá 1907. Það felur í sér uppgjör vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við þá og eru laun presta Þjóðkirkjunnar í dag þannig arðgreiðsla af þessum kirkjueignum. . Byggist samningurinn á niðurstöðu Kirkjueignanefndar þar sem segur; “….. að jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með öðrum sambærilegum hætti eru kirkjueignir”.

Það eru því kirkjujarðirnar eins og þær voru 1907 sem standa að baki árlegri greiðslu til Þjóðkirkjunnar (1.430,8 árið 2009). Greiðslan er til að standa straum af launum og embættiskostnaði 139 presta og prófasta og af launum og rekstri Biskupsstofu.

Auk þessa eru í gildi lögum rekstur Skálholtsskóla og í lög nr. 36/1963 þar sem kveðið á um framlög til uppbyggingar í Skálholti.

Í október 2006 lauk samningum milli ríkis og kirkju um uppgjör og afhendingu prestssetranna til Þjóðkirkjunnar. Var framlag í Kirkjumálasjóð hækkað úr 11,3% af sóknargjöldum í 14,3% af sóknargjöldum. Samhliða umræddri hækkun falla brott fjárlagaliðir vegna rekstrarkostnaðar einstakra verkefna samtals um 20 m.kr.

Sjóðir kirkjunnar

Tilgangur sjóða sem settir hafa verið á stofn er að bæta kirkjunni að hluta tekjumissi sem kirkjan varð fyrir þegar ríkið tók yfir kirkjueignirnar og arð af þeim árið 1907.
Helstu sjóðirnir eru Kristnisjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Kirkjumálasjóður.

Greiðslur í Kristnisjóð grundvallast á lögum nr. 35/1970 og samningi ríkis og kirkju og samsvarar 15 prestslaunum í fámennustu prestaköllunum.

Stofnfé Kristnisjóðs var inneign í prestakallasjóði og kirkjujarðasjóði. Kirkjujarðasjóðurinn var peningalítill því hann hafði verið óvarinn og óverðtryggður frá 1907. Prestakallasjóðurinn var stofnaður 1933 og hafði tekjur af launum sem spöruðust vegna óveittra prestakalla.

Kristnisjóður er undir stjórn Kirkjuráðs en tekjur sjóðsins renna í Kirkjumálasjóð þar sem veitt eru framlög til starfsemi kirkjunnar til eflingar kristinnar trúar og siðgæðis meðal þjóðarinnar. Þetta fyrirkomulag er liður í einföldun umsýslu Kirkjuráðs.

Árið 1987 er Jöfnunarsjóður sókna settur á stofn með lögum nr. 91/1987. Þessi sjóður er einnig grundvallaður á kirkjujörðum þjóðkirkjunnar.

Í lok 19. aldar færðist umsjón með viðhaldi og byggingu kirkna frá prestinum til safnaðarins – en án þess að tekjur vegna jarða eða skattar fylgdu með. Eignir kirkjunnar voru afhentar ríkinu árið 1907 eins og áður segir en tekjur af þeim höfðu ávallt staðið undir viðhaldi eignanna og þjónustu við söfnuðina. Sóknirnar fengu því leyfi til að leggja á sóknarbörnin sérstakt aukagjald til viðbótar við sóknargjöld. Þetta aukagjald er grunnurinn að Jöfnunarsjóði sókna.

Við undirbúning nýrra laga um sóknargjöld árið 1987 þótti óeðlilegt að sóknir væru að ákvarða gjöld, sem Alþingi eitt hefði vald til. Var þessi heimild því numin úr gildi og ákvæði um Jöfnunarsjóð sókna sett inn í lögin um sóknargjöld.

Tekjustofn hans miðast við 18,5% til viðbótar heildarsóknargjöldum til þjóðkirkjusafnaða. Jöfnunarsjóður er styrkjasjóður og Kirkjuráð úthlutar úr honum til kirkna með sérstöðu, til að jafna aðstöðu sókna ef tekjur nægja ekki fyrir útgjöldum og til að auðvelda stofnun nýrra sókna. 15% af tekjum sjóðsins renna árlega í Kirkjumálasjóð þar sem úthlutað er til kirkjulegs félags- og menningarstarfs.

Árið 1993 er Kirkjumálasjóður stofnaður með lögum nr. 138/1993. Hann kostar rekstur prestssetra, tónlistarfræðslu kirkjunnar, Kirkjuráðs, Kirkjuþings, prestastefnu, þjálfun prestsefna, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar o.fl. Þessi verkefni færðust af beinum fjárlögum yfir í sjóðinn og eru nú á ábyrgð kirkjunnar sjálfrar. Tekjur hans eru 14,3% ofan á sóknargjöld.

Sóknargjöld

Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir Þjóðkirkjuna um leið og skattana. Sóknargjald greiðir hver einstaklingur sem er eldri en 16 ára og er í Þjóðkirkjunni. Gjaldið var 872 kr. á mánuði árið 2008 fyrir einstakling og hækkar í hátt við meðaltekjuskattstofn tveggja næstliðinna ára sbr. lög nr. 91/1987. Sóknargjaldið rennur beint til sóknanna og er notað í safnaðarstarfi og til kirkjubygginga. Sóknir, sem í dag eru um 270 talsins, eru misfjölmennar og því afar breytilegt hversu mikla fjármuni þær hafa til ráðstöfunar. Árið 2011 eru um 78% þjóðarinnar í Þjóðkirkjunni eða 247.245 af 318.452.

Kirkjugarðsgjöld

Kirkjugarðar landsins fá fjárveitingu á grundvelli reiknilíkans. Greiðslur til kirkjugarða miðast við fjölda greftrana næstliðins árs og stærð kirkjugarða.

Hver kirkjugarður er sjálfseignastofnun í umsjón og ábyrgð safnaðar, sem kýs kirkjugarðsstjórn, og er jafnframt undir yfirstjórn prófasts og biskups. Þannig er kirkjunni trúað fyrir því að hafa yfirumsjón með kirkjugörðum og greftrunum.

Hluti af kirkjugarðsgjöldum rennur í Kirkjugarðasjóð. Meginmarkmið sjóðsins er að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Kirkjugarðaráð stýrir Kirkjugarðasjóði og veitir árlega styrki úr honum til viðhalds kirkjugarða.

Þjóðkirkjan

Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1998 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar var stjórnsýsla Þjóðkirkjunnar aukin og styrkt til muna. Þessu fylgir aukin fjármálaleg ábyrgð þannig að nú gefur Alþingi ekki kirkjustjórninni fyrirmæli um ráðstöfun fjármuna samkvæmt fjárlögum heldur ber Þjóðkirkjan sjálf ábyrgð á ráðstöfun þess fjár. Þjóðkirkjan ræður að mestu starfi sínu og mótar eigin starfshætti innan þess ramma sem löggjafinn hefur markað.

Þjóðkirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar með margvíslegri þjónustu og gerir ekki greinarmun á sóknarbörnum og þeim sem standa utan Þjóðkirkjunnar. Greiðslur ríkisins til Þjóðkirkjunnar utan sóknargjalda byggjast á afhendingu kirkjujarðanna fyrst og fremst, en einnig ríkri skyldu sem hvílir á Þjóðkirkjunni til almennrar þjónustu um land allt.