Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Fasteignastefna

I. Um fasteignir kirkjumálasjóðs

Almenn atriði
1. Til að styðja þjónustu þjóðkirkjunnar, hlutverk hennar og markmið skulu lagðar til fasteignir þar sem nauðsyn krefur og eftir því sem fjárhagur leyfir og stefna þessi mælir nánar fyrir um.

2. Þjóðkirkjan varðveitir auk þess tilteknar fasteignir þyki sérstök söguleg, menningarleg eða önnur veigamikil rök hníga til þess. Kirkjuþing ákveður hvaða fasteignir, aðrar en kirkjur, skuli varðveittar hverju sinni, á þeim grundvelli.
Ráðstöfun þeirra fasteigna kirkjunnar sem falla undir 2. lið fer eftir stefnu þessari og gildandi réttarheimildum á hverjum tíma.

3. Við varðveislu fasteigna sinna virðir þjóðkirkjan eftir því sem við á, umhverfi, fornminjar, sögu, náttúrufar, friðun náttúru og mannvirkja og önnur þau sérkenni sem telja má að hafi varðveislugildi.

4. Leitast skal við að gefa almenningi kost á að njóta aðgangs að jörðum þjóðkirkjunnar til fræðslu og útivistar í samráði við umráðanda hverju sinni. Virða skal rétt umráðanda til afnota og friðhelgi.
5. Við umsýslu fasteigna skal unnið á grundvelli stjórnsýslulaga og góðra stjórnsýsluhátta.

Fjárhagslegir þættir
6. Leitast skal við að hámarka arðsemi fasteignanna og fylgja fjárfestingarstefnu kirkjunnar í því sambandi.
Arður af fasteignum kirkjumálasjóðs skal nýttur til styrktar þjónustu kirkjunnar. Meta má umráðanda prestssetursjarða til tekna umsýslu og vinnuframlag vegna hlunninda og reksturs jarðarinnar.

7. Gæta skal hagkvæmni við rekstur og umsýslu fasteigna kirkjumálasjóðs í hvívetna. Bjóða skal verkefni út í samræmi við gildandi lög um opinber innkaup hverju sinni svo og ef hagkvæmt þykir.

8. Öll fjármálaumsýsla vegna fasteigna kirkjumálasjóðs skal vera gagnsæ og sýnileg.

Viðhald og endurbætur
9. Fasteignir skulu almennt vera í góðu ásigkomulagi og líta vel og snyrtilega út. Virða skal upphaflega útlitshönnun mannvirkja eftir því sem kostur er. Viðhald og endurbætur fasteigna skulu fara eftir fyrirfram mótuðum verklagsreglum og viðmiðum um reglubundið viðhald. Gerðar skulu framkvæmdaáætlanir til þriggja ára og framkvæmdum forgangsraðað eftir mikilvægi.

Réttindagæsla
10. Varðveita skal tryggilega réttindi og hlunnindi sem tengjast fasteignum kirkjumálasjóðs.
Þinglýsa skal eignarréttindum yfir fasteignum.
Landamerki jarða og landa skulu vera skýrlega mörkuð og lögum samkvæmt.

11. Kirkjuráð skal sjá til þess að skráning og mat á fasteignum kirkjumálasjóðs í fasteignaskrá sé ávallt rétt.

12. Fasteignir kirkjumálasjóðs skulu vátryggðar fyrir bruna, en aðrar tryggingar skulu eigi vera nema sérstök þörf sé talin á.

Hverjum skal leggja til fasteign
13. Leggja skal kirkjuþingi og Biskupsstofu (biskupi Íslands og kirkjuráði) til nægilegt og hæfilegt húsnæði til starfsemi sinnar.

14. Heimilt er að leggja biskupi Íslands og vígslubiskupum til embættisbústaði.

15. Embættisbústaðir verða lagðir til skv. 1. og 2. tl. fasteignastefnunnar.

Kaup og sala
16. Kirkjuþing skal samþykkja kaup og sölu á fasteignum.

17. Við kaup á fasteign skal að jafnaði auglýst eftir eign, nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars.

18. Eigi skal kaupa fasteignir á jörðum kirkjumálasjóðs eða annað sem þeim tengist nema við ábúðarlok. Nú er kaupskylda kirkjumálasjóðs ekki fyrir hendi og skal þá eigi heimilt að kaupa eignir nema brýna nauðsyn þyki bera til.

19. Fasteignir kirkjumálasjóðs, sem seldar eru, skulu auglýstar til sölu og öllum gefinn kostur á að bjóða í þær. Kirkjuþing getur samþykkt undantekningar frá þessu í einstökum tilvikum. Þess skal ávallt gætt að tryggja viðhlítandi landsréttindi kirkna og kirkjugarða ef við á, áður en sala fer fram.

Nýbyggingar
20. Við nýbyggingar fasteigna á vegum þjóðkirkjunnar skal að jafnaði kanna hvort efna skuli til samkeppni um hönnun, einkum ef um mannvirki á prestssetursjörðum er að ræða.
Landbúnaðarstarfsemi á jörðum í eigu þjóðkirkjunnar

21. Þjóðkirkjan fjárfestir ekki í uppbyggingu landbúnaðarstarfsemi á jörðum í eigu kirkjumálasjóðs, nema því aðeins að brýna nauðsyn beri til, lög mæli fyrir um, eða telja megi slíkt fjárhagslega hagkvæmt.

22. Framleiðsluréttur á jörðum skal að jafnaði seldur við lok ábúðar í samræmi við nánari reglur þar að lútandi.

II. Um aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar
23. Um aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar en hér um ræðir gilda ákvæði starfsreglna kirkjuþings hverju sinni.

24. Í hverri sókn skal vera sóknarkirkja auk fullnægjandi starfsaðstöðu fyrir sóknarbörn og starfsmenn. Sóknir geta þó sameinast um eina sóknarkirkju og starfsaðstöðu ef hagkvæmt þykir.

25. Kirkjuþing setur nánari starfsreglur í samræmi við stefnu þessa.

26. Fasteignastefna þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.