Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Kristniboðsstefna

Grundvöllur

Jesús sagði: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“ (Mark. 16.15). Biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja er sendiför að boði hans.
Hugtakið „kristniboð“ er notað til að lýsa því verki sem Drottinn kallar kirkju sína að vinna að boða orð hans, víðfrægja dáðir hans, vitna um hjálpræði hans, fræða um vilja hans og þjóna að vilja hans heiminum, sköpunarverkinu og jarðarbörnum öllum til heilla.

Markmið

Þjóðkirkjan í sveit og borg er hluti af þessari sendiför, þáttur í alheimssamfélagi kristninnar. Hennar meginhlutverk er í nærsamfélaginu en hún ber líka skyldur og ábyrgð gagnvart þeim stóra heimi sem Guð skapar og elskar og gaf son sinn til að frelsa.
“Sóknin hlynni að samfélagi umhyggju og kærleika, láti sér annt um að vernda
mannslífið á ólíkum skeiðum þess, og bera þannig vitni um hina kristnu von og
kærleika með líknarþjónustu, svo og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði
kirkjunnar” (Samþykktir um innri mál kirkjunnar, II. kafli).
Þjóðkirkjan vinnur að því að söfnuðir þjóðkirkjunnar styrkist í kristniboðsköllun sinni, finni sig hluta hinnar alþjóðlegu kirkju og minnist hlutverks síns í boðun og útbreiðslu trúarinnar heima og heiman. Það verði gert með:

  • Boðun: Að vitna um kærleika Guðs í Jesú Kristi
  • Samtali: Að trú mæti trú í trausti og heilindum
  • Þjónustu: Að þjóna náunganum með umhyggju og miskunnsemi
  • Þróunarhjálp: Að leggja fjármuni fram til að bæta lífskjör fátækra, efla menntun og styðja þau sem sinna þeim málefnum á akrinum
  • Samfélagi: Að miðla með sér af náðargjöfum og efnislegum gæðum öðrum söfnuðum, kirkjum, einstaklingum til blessunar með guðsþjónustu, bæn, uppörvun og styrk.

Með bæn, boðun og þjónustu um land allt vinnur Þjóðkirkjan að friði, skilningi milli einstaklinga og þjóða, kynþátta og trúarbragða, og vill á þann hátt vekja og glæða vitund fyrir köllun sérhvers kristins manns að stuðla að réttlæti og sáttargjörð í heiminum.
Þjóðkirkjan lítur á kristniboðið sem málefni kirkjunnar allrar, hjartans mál og hugsjón í sérhverjum söfnuði sínum.

Biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja vinnur að því á vettvangi safnaða sinna að móta og styrkja samfélag sem stuðlar að heimi sem er laus úr viðjum ranglætis og kúgunar, þar sem konur og karlar njóta manngildis, virðingar, réttlætis, jafnræðis og frelsis til að lifa lífi sínu í friði og sátt.

Þjóðkirkjan stuðlar með starfi sínu og þjónustu að heilbrigðu viðhorfi einstaklinga og samfélags til þróunarhjálpar sem mótist af gagnkvæmni og heilindum hins trúa ráðsmanns, þar sem kirkjur og hjálparsamtök, stjórnvöld og frjáls félagasamtök hafa sínu hlutverki að gegna. Þar sem allir njóta jafnréttis sem ráðsmenn þess lífs og heims sem Guð gefur.

Leiðir

Unnið verði að því í söfnuðum og stofnunum þjóðkirkjunnar að styðja kristniboðið með því að

  • minnast kristniboðsins með bæn og boðun við guðsþjónustur og í öðru helgihaldi
  • styrkja kristniboðið með reglubundnum fjárframlögum
  • styðja við fjáröflun Kristniboðssambandsins, SÍK, vegna íslenska kristniboðsins erlendis
  • koma á formlegum vinatengslum við söfnuði á kristniboðsakrinum, taka að sér einstök verkefni, t.d. framlag til skólastarfs eða til að launa prests eða kennara.

Aðgerðir

Fræðsla um kristniboð og hjálparstarf, þróunarmál og samkirkjuleg málefni verði á dagskrá kirkjunnar fyrir presta og aðra starfsmenn kirkjunnar á ábyrgð biskups Íslands.
Fræðsluefni, sálmar, bænir og ritningartextar verði tiltækir til notkunar í safnaðarstarfi
til að halda vitund safnaðanna vakandi fyrir málefnum kristniboðsins.

Fulltrúum samstarfskirkna verði reglulega boðið til að heimsækja söfnuði og stofnanir. kirkjunnar í samstarfi við kristniboðsfélögin og Hjálparstarf kirkjunnar.

Veita stuðning kirkjuhjálp Lúterska heimssambandsins.

Kristniboðs og hjálparstarfsnefnd sem skipuð er af kirkjuráði sem samstarfsvettvangur milli hjálparstarfs og kristniboðs, biskupsstofu, og kirkjuráðs fyrir hönd safnaða þjóðkirkjunnar.

Djákni á þjónustusviði Biskupsstofu er tengiliður við SÍK og Hjálparstarf kirkjunnar.