Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Vímuvarnarstefna

I. Hlutverk og markmið

Þjónandi kirkja veitir einstaklingum og fjölskyldum aðstoð, hjálp og sálgæslu vegna erfiðleika, þjáningar og sorgar sem oft hljótast af áfengisneyslu og vímuefnanotkun.
Þjóðkirkjan vill auka fræðslu um vímuefnamál og efla forvarnir svo hún geti betur komið að stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur. Styrkja skal færni vígðra þjóna og annars starfsfólks sem sinnir einstaklingum og fjölskyldum.

Þjóðkirkjan vill vera fyrirmynd og stuðla að hófsemi og sjálfsstjórn.

II. Aðgerðaráætlun

Til að framfylgja vímuvarnastefnunni beitir þjóðkirkjan eftirfarandi vinnulagi:
1. Forvarnir/fræðsla
a) Biskup Íslands hlutast til um fræðslu fyrir vígða þjóna og annað starfsfólk kirkjunnar um vímuvarnir svo og um ráðgjöf og stuðning vegna þjónustu þeirra við alkóhólista og fíkla og aðstandendur. Fræðsla og ráðgjöf verði unnin í samráði við fagaðila.
b) Sérstaklega verði hugað að fræðslu í fermingarundirbúningi og æskulýðsstarfi.

2. Sálgæsla/ráðgjöf
a) Koma til móts við alkóhólista, fíkla og aðstandendur þeirra, vinna trúnað þeirra og styðja þá til að leita sér meðferðar eða annarrar hjálpar.
b) Styðja starfsfólk kirkjunnar til að takast á við áfengis- og vímuefnavanda sinn.
c) Biskup Íslands hefur sér til fulltingis ráðgjafa með faglega þekkingu sem starfar í samvinnu við meðferðarstöðvar og/eða samtök á sviði áfengis- og fíknimála.

3. Reglur um áfengisnotkun í húsnæði kirkjunnar
Setja skal samræmdar reglur og viðmið um áfengisnotkun í húsnæði kirkjunnar. Má þar nefna útleigu safnaðarheimila.
Heimilt er að nota óáfengt vín eða vínberjasafa við altarisgöngur þar sem börn og ungmenni og óvirkir alkóhólistar þiggja sakramentið (sjá Samþykktir um innri málefni kirkjunnar, VI. kafla, gr.11.).

4. Verklagsreglur
Eftirfarandi verklagsreglur gilda um áfengis- og vímuefnavanda vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar:
a. Vígðum þjónum og starfsfólki þjóðkirkjunnar er með öllu óheimilt að vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín. Biskup veitir vígðum þjónum sínum og starfsfólki aðstoð og leiðbeiningar til að vinna úr vanda er tengist notkun vímuefna.
b. Komi í ljós áfengis- eða vímuefnavandi hjá vígðum þjóni eða starfsmanni kirkjunnar skal yfirmanni (biskupi, prófasti, stjórn eða sóknarnefnd) tilkynnt um vandann. Yfirmaður skal boða viðkomandi starfsmann í viðtal sem allra fyrst. Yfirmaður getur vísað vígðum þjóni eða starfsmanni í viðtal til ráðgjafa. Í viðtali hjá yfirmanni hefur viðkomandi rétt á að hafa trúnaðarmann sinn með (t.d. frá viðkomandi stéttarfélagi). Ef grunur leikur á að fjarvistir eða sinnuleysi um starfið séu af ofangreindum ástæðum ber starfsmanni að leggja fram læknisvottorð.
c. Ef vígður þjónn eða starfsmaður kirkjunnar er við störf undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna skal honum umsvifalaust vísað úr vinnu (eða af vinnustað). Vígðum þjóni eða starfsmanni skal þá veitt tiltal af yfirmanni, sem er skráð og undirrituð af báðum aðilum, jafnframt er honum boðin aðstoð t.d. hjá ráðgjafa eða að fara í meðferð. Þá skal honum skýrt frá reglum þjóðkirkjunnar um möguleika á launagreiðslum meðan á áfengis-/vímuefnameðferð stendur.
d. Ef ofangreint atferli endurtekur sig (sbr. lið c.) skal viðkomandi veitt skrifleg áminning af yfirmanni. Ef um er að ræða opinberan starfsmann skal sú áminning styðjast við 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Er þá viðkomandi starfsmanni gefinn kostur á bæta ráð sitt. Ef um er að ræða starfsmann hjá sókn eða stofnun kirkjunnar skal veita áminningu og jafnframt upplýsa viðkomandi starfsmann um að hægt er að segja honum upp starfi bæti hann ekki ráð sitt innan tiltekins tíma.
e. Ef starfsmaður bætir enn ekki ráð sitt (3. brot) skal honum sagt upp störfum. Ef um opinberan starfsmann er að ræða fer málsmeðferð eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Viðauki I

Tilboð um laun á meðan á meðferð stendur
Ef starfsmaður hefur unnið hjá stofnunum þjóðkirkjunnar, öðrum en sóknum, í eitt ár eða lengur er honum boðið að fara í áfengis-/vímuefnameðferð í eitt skipti á launum.

Starfsmanni er kynntur samningur milli hans og þjóðkirkjunnar sem felur í sér eftirfarandi:
1. Að um heildstæða meðferð sé að ræða og hámarkstími greiðslu sé sex vikur
2. Að vottorði frá viðkomandi meðferðarstöð eða lækni sé framvísað
3. Að launagreiðslur fari eftir sömu reglum og í veikindaforföllum
4. Að starfsmanni sé boðið uppá eftirfylgd hjá ráðgjafa.
5. Að starfsmaður geri yfirmanni grein fyrir framvindu bata að meðferð lokinni.

Tilvísanir: Dreifibréf starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins nr. 5/2001 og Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, 21. gr.

Viðauki II

Samningur vegna áfengis- eða vímuefnameðferðar starfsmanns

Nafn starfsmanns Kennitala

Stofnun Starf

Tímabil meðferðar Dagsetning samnings

Fyrirliggjandi gögn/upplýsingar: Vottorð læknis eða meðferðarstofnunar. Staðfest af launadeild að veikindaréttur sé til staðar.

Hér með er staðfest samkomulag milli starfsmanns og þjóðkirkjunnar um ráðstöfun hluta veikindaréttar til starfsmanns á meðan á meðferðinni stendur. Starfsmaður samþykkir að réttur hans til launa í veikindum verði notaður í þessum tilgangi og að uppsafnaður réttur verði skertur sem nemur meðferðartímanum.

Undirritun

____________________________

Staðfesting starfsmanns

 

____________________________

Staðfesting yfirmanns