Verndum bernskuna

mynd10Barnsárin eru helsti mótunartíminn í ævi okkar allra. Þá er lagður grunnur að framtíð okkar, tilfinningalífi, sálarheill, manngildi og hamingju.

Það á að vera okkur og samfélaginu öllu kappsmál að tryggja börnum áhyggjulaus og hamingjurík bernsku- og æskuár. Við eigum að leyfa börnum að vera börn. Sá sem fær að vera barn og kynnast heiminum smám saman, eftir því sem þroski hans vex, er betur í stakk búinn að takast á við lífið sem fullorðinn einstaklingur.

Bernskan er viðkvæmt æviskeið. Íslendingar og íslenskt samfélag hafa aldrei átt þess betri kost en nú að hlúa vel að börnum þegar litið er til ytri þátta, aðbúnaðar og efnislegrar afkomu. Þess vegna höfum við nú betra tækifæri en nokkru sinni til að vernda bernskuna og búa börnin okkar út í lífið með gott andlegt og tilfinningalegt veganesti.

Sem foreldri og uppalandi áttu stóran þátt í að vel takist til með barnið þitt. Enginn kemur í þinn stað.