Vestfjarðaprófastsdæmi

 

Patreksfjarðarprestakall verður auglýst að nýju

Biskup Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á kosningu kjörnefndar Patreksfjarðarprestakalls.  Í ljós hefur komið að fjórir fulltrúar af ellefu hafi ekki verið kosnir á almennum safnaðarfundum eins og starfsreglur kveða á um heldur hafi þeir verið tilnefndir á sóknarnefndarfundum.  Biskup álítur að þessi annmarki í meðferð málsins kunni geta ógilt skipun sóknarprests.  Þess vegna hefur biskup ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli að nýju.

Magnús Erlingsson, 7/11 2017

Val á sóknarpresti fyrir Patreksfjarðarprestakall

Kjörnefnd Patreksfjarðarprestkalls kom saman til fundar fimmtudaginn 26. októbker.  Eftir að hafa farið yfir umsóknir og skýrslu matsnefndar og rætt við umsækjendurna tvo þá var kosið.  Niðurstöður kjörsins og fundargerð voru send biskupi í tölvupósti.

Búist hafði verið við að biskup myndi afgreiða málið föstudaginn 27. október og þá yrði kunngjört hver yrði skipaður næsti sóknarprestur á Patreksfirði.  Það gerðist ekki meðal annars vegna þess að upp kom vafi um hvort allir kjörnefndarfulltrúar væru réttilega kosnir.  Þessi vafi er tilkominn vegna kærumála í Dómkirkjusókninni í Reykjavík.  Í starfsreglum, sem Kirkjuþing samþykkti, er kveðið á um að fulltrúar í kjörnefnd skuli kosnir á aðalsafnaðarfundi eða almennum safnaðarfundi.  Svo virðist sem það sé ekki lögmætt að velja fulltrúa í kjörnefnd á fundi sóknarnefndar.

Vonandi skýrist það á næstu dögum með valið á næsta sóknarpresti fyrir Patreksfjarðarprestkall.  Tveir möguleikar eru í stöðunni.  Annars vegar að niðurstaða kjörnefndar standi eða þá að embættið verði auglýst að nýju.  Líklega munu málin skýrast í næstu viku.

Magnús Erlingsson, 1/11 2017

Vestfirskir prestar fóru til Landsins helga

Dagana 27. september til 5. október fóru fimm prestar af Vestfjörðum til Ísraels og heimsóttu söguslóðir Nýja testamentisins, skoðuðu helga staði og hlýddu á fyrirlestra.  Ferðin var skipulögð í samstarfi við sænksu guðfræðistofnunina í Jerúsalem.  Prestarnir, sem fóru, voru þau Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, Magnús Erlingsson, Elín Salóme Ingólfsdóttir, Hildur Inga Rúnarsdóttir og Hildur Björk Hörpudóttir.  Ferðin tókst afar vel.  Dvalið var í Jerúsalem en ýmsir staðir eins og Betlehem og Galílea heimsóttir.

Magnús Erlingsson, 25/9 2017

Tveir umsækjendur um embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli

Tvær umsóknir bárust um embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli, en umsóknarfrestur rann út þann 15. september síðastliðinn.  Það eru þau sr.  Elín Salóme Guðmundsdóttir og mag.theol. Kristján Arason, sem sóttu um embættið.

Matsnefnd mun nú fara yfir umsóknirnar munu og leggja mat á hæfni umsækjendanna.  Siðan fjallar kjörnefnd prestakallsins um umsóknirnar og kýs að því búnu milli umsækjendanna.  Biskup Íslands skipar biskup þann umsækjanda. sem hlýtur löglega kosningu.  Stefnt er á að nýr sóknarprestur verði skipaður 1. nóvember til fimm ára.

Magnús Erlingsson, 19/9 2017

Ályktun héraðsfundar

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Patreksfirði 3. september 2017 andmælir framkomnum hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum.  Niðurlagning þess embættis mun rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli.  Eins vill fundurinn minna á að einungis rúmt ár er liðið síðan að skipaður var nýr sóknarprestur á Reykhólum og gert við hann haldsbréf.  Embættið var auglýst með þeim skilmálum að til staðar væri íbúðarhæft húsnæði fyrir prestinn.  Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.

Ennfremur skorar héraðsfundur á kirkjustjórnina að framvegis verði tveir prestar í fullu starfi í Patreksfjarðarprestakalli.

Héraðsfundir væntir þess að biskupafundur svari þessari ályktun með formlegu bréfi eða fundi með heimamönnum.

Magnús Erlingsson, 4/9 2017

Auglýst eftir sóknarpresti í Patreksfjarðarprestakalli

Biskup Íslands hefur auglýst laust til umsóknar embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.  Umsóknarfrestur er til 15. september 2017.  Skipað er í embættið frá 1. nóvember til fimm ára.

Í Patreksfjarðarprestakalli, búa samtals 1.270 manns. Þar eru átta sóknir, þ.e. Bíldudals-, Breiðuvíkur-, Brjánslækjar-, Haga-, Patreksfjarðar-, Sauðlauksdals-, Saurbæjar- og Stóra-Laugardalssóknir.  Prestssetur er á Patreksfirði.  Sóknarpresturinn hefur skrifstofu í safnaðarheimilinu á Patreksfirði en einnig eru safnaðarheimili á Tálkafirði og Bíldudal.

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar, sem metur hæfni umsækjenda.  Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna og skilar skýrslu þar að lútandi.  Kjörnefnd prestakallsins kýs svo sóknarprest úr hópi fjórmenninganna.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, s. 5284000, hjá fráfarandi sóknarpresti Patreksfjarðarprestakalls, sr. Leifi Ragnari Jónssyni, s. 8944324 og prófasti Vestfjarðaprófastsdæmis, sr. Magnúsi Erlingssyni s. 4563171.   Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis föstudaginn 15. september 2017.  Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar, sjá hér:  http://kirkjan.is/um/biskupsstofa/laus-storf/

Lýsing á prestakallinu og sóknum þess

Patreksfjarðarprestakall er víðfeðmt og nær yfir átta sóknir; þrjár í þéttbýli en fimm í dreifbýli. Í Patreksfjarðarprestakalli eru því átta sóknarkirkjur.  Þetta eru Patreksfjarðarkirkja, Sauðlauksdalskirkja, Breiðavíkurkirkja, Saurbæjarkirkja á Rauðasandi, Bíldudalskirkja, Tálknafjarðarkirkja, Hagakirkja og Brjánslækjarkirkja.  Þessu til viðbótar eru Stóra-Laugardalskirkja, Selárdalskirkja og einnig er kapella á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.   Prestssetrið er á Patreksfirði.  Þaðan er ekið fjallveg yfir á Tálknafjörð og aðra heiði yfir á Bíldudal.  Eins er yfir fjöll að fara þegar ekið er yfir á Barðaströnd, Rauðasand og Breiðuvík.  Í prestakallinu eru 1270 manns með lögheimili.  Af þeim eru 1.007 manns eldri en 16 ára og af þeim eru 761 í þjóðkirkjunni en 246 utan kirkju.  Prestakallinu er þjónað af tveimur prestum; sóknarpresti í fullu starfi og presti í hálfu starfi. Gert er ráð fyrir því að þeir leysi hvorn annan af í sumarleyfum.

Lýsing á umfangi prestsþjónustunnar, starfsaðstöðu og fleira

Kirkjur prestakallsins eru í góðu lagi.  Fara þarf í viðhaldsvinnu í Breiðavíkurkirkju.  Safnaðarheimili er á Patreksfirði, Tálkafirði og Bíldudal.  Er þar góð aðstaða til almenns safnaðarstarfs.  Verður nú gerð nánari grein fyrir starfinu í sóknunum.

Breiðuvíkursókn er fámennust með fjögur sóknarbörn.  Í Saurbæjarsókn á Rauðasandi búa sjö manns.  Átján manns eiga heima í Sauðlauksdalssókn.  Í Hagasókn á Barðaströnd búa 37 manns.  Í Brjánslækjarsókn á Barðaströnd búa 38 manns.  Í þessum fimm sveitasóknum er messað í samráði við heimafólk.  Sóknirnar hafa ekki fastráðinn organista eða starfandi kóra en reynt er að safna saman kórfólki þegar athafnir eru.  Þegar organisti er ekki tiltækur eru stundum notuð önnur hljóðfæri eins og gítar eða þá að sungið er án undirleiks.

Í Bíldudalssókn eiga heima 222 manns.  Í Stóru-Laugardalssókn við Tálknafjörð búa 268 manns.  Patreksfjarðarsókn er fjölmennust en þar búa 689 manns.  Á Bíldudal og Tálknafirði er sameiginlegur kór og í þessum sóknum er messað einu sinni í mánuði.  Í Tálknafirði er stundum messað í Stóru-Laugardalskirkju.  Á Patreksfirði er kirkjukór og þar er messað hálfsmánaðarlega.  Sameiginlegur organisti er fyrir sóknirnar en stefnt er að því að bæta við öðrum organista.  Í þéttbýlissóknunum þremur er reglubundið barnastarf.  Einnig tekur presturinn þátt í félagsstarfi eldri borgara.  Þá er prestsþjónusta við sjúkrahúsið á Patreksfirði og þar eru hafðar helgistundir.

Sóknarpresturinn leiðir samstarf prestanna.  Hann sér til þess að sóknarbörn njóti prestsþjónustu við helgiathafnir á tímamótum mannsævinnar, sálgæslu, uppfræðslu og annars þess er tilheyrir almennu safnaðarstarfi.

Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu í safnaðarstarfi og stjórnum

Patreksfjarðarprestakall er víðfeðmt og með margar sóknir.  Launaðir starfsmenn eru fáir og þarf sóknarpresturinn því að vera fjölhæfur og jafnvígur á ólíkum sviðum prestsþjónustu hvort sem um er að ræða þjónustu við unga sem aldna og við ólíkar aðstæður.  Eins þarf prestur að geta leitt helgihald þótt organisti sé ekki til staðar.  Samskiptahæfni prests þarf að vera í góðu lagi og hann þarf að geta myndað persónuleg tengsl við sóknarbörnin.  Prestsþjónusta á Vestfjörðum útheimtir ferðalög og akstur við ýmsar aðstæður.  Í fámennum sóknum er erfitt með að halda úti reglulegu helgihaldi en þar er þess vænst að prestur ræki skyldur sínar við söfnuðinn með húsvitjunum.

Magnús Erlingsson, 29/8 2017

Kosning vígslubiskups í Skálholti

Vígðir þjónar kirkjunnar hafa tilnefnt presta og guðfræðinga til þáttöku í kjöri vígslubiskups.  Rétt á að tilnefninga höfðu 136 en einungis 108 nýttu rétt sinn.  Alls voru 54 einstaklingar tilnefndir.  Þeir þrír, sem fengu flest atkvæði, voru sr. Kristján Björnsson (54 tilnefningar),sr. Eiríkur Jóhannsson (45 tilnefningar) og sr. Axel Árnason Njarðvík (35 tilnefningar).  Þessir þrír prestar verða því í kjöri til vígslubiskups í Skálholti.  Kjörnefndir allra prestakalla í Skálholtsstifti munu kjósa ásamt vígðum þjónum kirkjunnar.  Viðhöfð verður póstkosning og mun hún hefjast þann 28. september en ljúka þann 9. október.

Magnús Erlingsson, 29/8 2017

Námskeið fyrir barnafræðara

Miðvikudaginn 6. september kl. 20:00 verður haldið námskeið fyrir fræðara í barnastarfi kirkjunnar. Námskeiðið verður í safnaðarheimili Ísafjarðarkirkju. Leiðbeinandi er Elín Elísabet, sem gert hefur barnaefni kirkjunnar undanfarin ár. Elín mun kynna efni vetrarins, nýtt sunnudagaskólalag, nýja Hafdísar- og Klemmaþætti og ýmsar nýtirlegar hugmyndir fyrir starf með börnum.

Magnús Erlingsson, 22/8 2017

Héraðsfundur 2017

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis verður haldinn á Patreksfirði sunnudaginn 3. september næstkomandi.  Fundurinn hefst með guðsþjónustu í Sauðlauksdalskirkju kl. 11:00 þar sem sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir predikar.  Eftir guðsþjónustuna verður snæddur hádegisverður í Stúkuhúsinu í Aðalstræti 50 á Patreksfirði en sjálfur héraðsfundurinn verður haldinn í safnaðarheimilinu, sem er næsta hús við hliðina á þessum ágæta veitingastað.

Vegna hádegisverðar og kaffiveitinga er nauðsynlegt að fólk láti vita af því hvort það hyggist mæta á héraðsfundinn svo að veitingamaðurinn viti hvað hann á að gera ráð fyrir mörgum.  Vinsamlegast látið sóknarprestinn ykkar vita eigi síðar en miðvikudaginn 30. ágúst.  Prófastur hefur síðan samband við prestana og fær hjá þeim upplýsingar um fjölda þátttakenda.

Héraðsnefnd hefur veitt þeim ferðastyrk, sem aka um langan veg til að sækja héraðsfund og er þá miðað við að safnast sé saman í bíla.  Sé næg þátttaka þá er hugsanlegt að skipuleggja rútuferð.

Dagskrá héraðsfundar:

1.         Kosning fundarstjóra og fundarritara

2.         Skýrsla héraðsnefndar

3.         Ársreikningar héraðssjóðs

4.         Starfsáætlun héraðsnefndar

5.         Starfsskýrslur sókna, nefnda, héraðsprests og annarra starfsmanna prófastsdæmisins lagðar fram svo og ársreikningar sókna og kirkjugarða.  Skýslur skulu helst vera skriflegar og er hægt að skoða þar til gert eyðublað á heimasíðu prófastsdæmisins en slóðin þangað er:  http://kirkjan.is/vestfjardaprofastsdaemi/.

6.         Kynning frá Kirkjuþingi á nýjum þjóðkirkjulögum.  Steindór R. Haraldsson formaður löggjafarnefndar kynnir tilöguna og svarar fyrirspurnum

7.         Samþykktir Prestastefnu og Leikmannastefnu kynntar

8.         Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna fyrir störf þeirra á liðnu ári

9.         Hugmyndir Biskupafundar um breytta skipan prestakalla.

10.       Kosningar:

a) Kjósa þarf til héraðsnefndar úr hópi leikmanna; einn aðalmann til tveggja ára og annan til vara.

b) Kjósa þarf tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára og tvo til vara

c)  Kjósa þarf einn aðalmann í fulltrúaráð Hjálparstarfsins til tveggja ára og annan til vara..

11.       Aðrar kosningar eða tilnefningar sem heyra undir héraðsfund.

12.       Önnur mál.

Aðalefni þessa fundar er kynning á tillögum að nýjum þjóðkirkjulögum.  Þjóðkirkjulögin eru grundvallarlög fyrir allt skipulag kirkjunnar og núverandi lög tóku gildi 1997.  Steindór R. Haraldsson, kirkjuþingsmaður frá Skagaströnd mun kynna tillögurnar fyrir okkur og svara fyrirspurnum.

Undir 9. lið verður rætt um framkomnar tillögur biskupafundar um breytta skipan prestakalla á Vestfjörðum.  Viðraðar hafa verið hugmyndir um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum og í framhaldinu stokka upp skipan prestakalla.  Prófastur mun kynna þessar tillögur.

Gert verður kaffihlé um fjögurleytið og gengið yfir í Stúkuhúsið.  Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki síðdegis.

Magnús Erlingsson, 9/8 2017

Messa í Unaðsdal

Sunnudaginn 23. júlí kl. 14:00 verður messa í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd.  Organisti er Kjartan Sigurjónsson en prestur sr. Magnús Erlingsson.

Magnús Erlingsson, 11/7 2017

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis er sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafirði.

Vefir sókna
Ísafjarðarkirkja
Reykhólakirkja

Forsíðumyndin
Myndin, sem prýðir forsíðu vefsins, er af krossmarkinu á Óshlíðinni við Ísafjarðardjúp.

 

Safnaðarheimili Hólskirkju, Aðalstræti 22, 415 Bolungarvík. Sími 456 7435 · Kerfi RSS