Vestfjarðaprófastsdæmi

 

Hvað fermast mörg börn á Vestfjörðum vorið 2017?

Prófastur tók saman upplýsingar um hversu mörg börn muni væntanlega fermast hjá vestfirskum þjóðkirkjusöfnuðum núna í vor.

Í Bolungarvíkurprestakalli fermast 10 börn.  Í Ísafjarðarprestakalli fermast 20 börn.  Í Hólmavíkurprestakalli eru 14 fermingarbörn.  Í Reykhólaprestakalli eru 2 fermingarbörn.  Í Patreksfjarðarprestakalli eru 18 fermingarbörn.  Í Þingeyrarprestakalli eru 2 fermingarbörn.  Í Holtsprestakalli er 1 fermingarbarn.  Samtals eru þetta 67 fermingarbörn.

Í eina tíð hefðu þetta ekki þótt mörg fermingarbörn.  Á fyrri hluta 20. aldar gat árgangur fermingarbarna á Ísafirði einum verið þetta stór.  En tímarnir hafa breyst og fólki hefur fækkað.  Hins vegar leiðir frekari rannsókn það í ljós að flest öll þau börn, sem á annað borð eru skráð í Þjóðkirkjuna, velja það að fermast í kirkju.

Magnús Erlingsson, 17/3 2017

Messusókn á jólum

Messuhald á jólum í vestfirskum kirkjum gekk vel fyrir sig.  Prestarnir lögðu út af jólaguðspjallinu og sungnir voru fallegir jólasálmar.  Að vísu var slæmt veður á jóladag og dró það nokkuð úr messusókn en á nokkrum stöðum þurfti að aflýsa guðsþjónustum vegna slæmrar færðar og óveðurs.  Hér á eftir kemur yfirlit um messuhald í prestaköllum Vestfjarðaprófastsdæmis:

Í Hólmavíkurprestakalli var messusóknin hlutfallsega mjög góð líkt og verið hefur undanfarin ár.  Í Hólmavíkurkirkju voru 122 við jólaguðsþjónustu, í Drangsneskapellu 38, í kirkjunni á Kollafjarðarnesi voru 33 og 14 manns voru í Óspakseyrarkirkju.

Í Reykhólaprestakalli var slæmt veður á jólahátíðinni og erfið færð á vegum og dró það úr messusókninni.  Messað var í Reykhólakirkju á jóladag í aftakaveðri og mættu þá 38 manns til messu.  Á annan í  jólum gaf til að messa á útkirkjunum og voru þá þrjár messur.  Í Garpsdalskirkju voru 26 manns, í Staðarhólskirkju voru 34 og í Skarðskirkju voru 12 manns.

Í Patreksfjarðarprestakalli var góð messusókn á aðfangadag.  Í Bíldudalskirkju voru 64 en í Tálknafjarðarkirkju 70 manns.  Þá voru tvær messur á aðfangadag á Patreksfirði.  Sú fyrri var á sjúkrahúsinu en hin seinni í Patreksfjarðarkirkju.  Við jólamessuna í Patreksfjarðarkirkju voru um 60 manns og það færra en verið hefur.  Til stóð að messa í Sauðlauksdalskirkju á jólnóttina en fella varð niður þá guðsþjónustu vegna ófærðar.  Á jóladag stóð til að messa bæði í Brjánslækjarkirkju og í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi en fella varð niður báðar messurnar vegna illviðris og ófærðar.

Í Þingeyrarprestakalli var messað í Þingeyrarkirkju á aðfangadag.  Við aftansöng voru 41 manneskja og er það minni messusókn en verið hefur enda var færðin í bænum erfið.  Við helgistund á dvalarheimilinu Tjörn voru 18 manns.  Fresta varð öllu messuhaldi á jóladag vegna óveðurs.

Í Holtsprestakalli var messusóknin hlutfallsega góð.  Við aðventukvöld í Dalskirkju í Valþjófsdal þann 22. desember voru 70 manns.  Á aðfangadag voru tvær messur.  Við aftansöng í Suðureyrarkirkju voru 33 en í miðnæturmessu í Flateyrarkirkju voru 31.  Fella varð niður messuhald á jóladag vegna veðurs.  Á gamlársdag var aftansöngur í Staðarkirkju við utanverðan Súgandafjörð.  Þangað var farið í blysför og voru kirkjugestir 42 talsins.

Í Ísafjarðarprestakalli var messuhald með hefðbundnu sniði.  Á aðfangadagskvöld var aftansöngur í Hnífsdalskapellu.  Messan var vel sótt og voru 97 manns í kirkjunni.  Á aðfangadagskvöld var einnig aftansöngur í Ísafjarðarkirkju og þar voru 175 manns.  Er það álíka góð messusókn og undanfarin ár.  Snjóbylur var á jóladag og dró það úr messusókn.  Við hátíðarguðsþjónustu í Ísafjarðarkirkju voru 78 manns.  Á jóladag var einnig guðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Eyri.  Viðstaddir messuna voru 80 manns.

Í Bolungarvíkurprestakalli voru fjórar jólaguðsþjónustur.  Kirkjan var þéttsetin sem endranær við aftansöng í Hólskirkju á aðfangadagskvöld og taldist meðhjálpara að fjöldi kirkjugesta hefði verið í kringum 160 manns.  Hátíðarmessa var í Hólskirkju á jóladag  og þá komu um 60 manns enda þótt þungfært væri í bænum.  Síðdegis á jóladag var hátíðarstund á Hjúkrunarheimilinu Bergi fyrir heimilisfólk og aðstandendur.  Á annan dag jóla var messað í Súðavíkurkirkju og voru þátttakendur 21 talsins.

Magnús Erlingsson, 29/12 2016

Skil ríkissjóðs á innheimtufé sóknargjalda

Í gildi er samningur milli ríkis og kirkju um að ríkið innheimti sóknargjöld fyrir hverja sókn landsins.  Sóknargjaldið er félagsgjald þeirra, sem eru skráð í Þjóðkirkjuna og hafa náð 18 ára aldri.  Hjá öðrum trúfélögum hetir þetta trúfélagsgjald.

Eftir bankahrunið 2008 hætti ríkissjóður að standa að fullu skil á innheimtum sóknargjöldum.  Þetta var gert með vísan til þess að upp væri komið neyðarástand, sem réttlætti upptöku á innheimtufénu.  Kirkjan lét þetta yfir sig ganga en fljótlega kom í ljós að gengið hafði verið miklu mun lengra gagnvart henni heldur en öðrum, sem sættu skerðingum.  Í ljósi þess hversu sértæk og íþyngjandi umrædd aðgerð var þá var með þessu vegið freklega að fjárhagsstöðu allra safnaða í landinu.

Þrátt fyrir að nokkur leiðrétting hafi fengist í gegn í fyrra þá er staðan enn sú að tekjur sóknanna af af sóknargjaldinu eru um það bil sama krónutala og var á árinu 2008 á meðan almennt verðlag hefur hækkað um 44%.  Hefur þessi tekjuskerðing haft umtalsverð áhrif á starf safnaðanna og viðhald bygginga.

Í ljósi breyttrar stöðu ríkissjóðs og bætt efnahags þá vænta sóknir landsins þess að Alþingi Íslendinga standi við gerða samninga og standi að fullu skil á innheimtum sóknargjöldum frá og með 1. janúar 2017.

Magnús Erlingsson, 1/12 2016

Gufudalssókn og Reykhólasókn sameinast

Á nýafstöðnu kirkjuþingi var samþykkt að sameina Gufudalssókn og Reykhólasókn í eina sókn.  Var þessi breyting gerð að frumkvæði heimamanna.  Ástæða hennar er fólksfækkun í Gufudalssókn.  Sameiningin tekur gildi frá og með 1. desember 2016.

Magnús Erlingsson, 1/12 2016

Kirkjuklukkum hringt til að mótmæla stríðinu í Sýrlandi og Írak

Í Ísafjarðarkirkju og mörgum öðrum kirkjum landsins er kirkjuklukkunum hringt síðdegis þessa síðustu viku októbermánaðar.  Það er gert til að mótmæla þeim hörmungum, sem almenningur í Aleppó og á fleiri stöðum í Sýrlandi og Írak hefur mátt þola nú að undnaförnu.  Sprengjum er varpað á borgir og venjulegt fólk lætur lífið eða slasast.  Þetta ástand er hryllilegt.  Við hringjum kirkjuklukkunum klukkan fimm síðdegis og spyrjum:  Hvar er mannúðin?  Hvenær verður friður?

Magnús Erlingsson, 26/10 2016

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis

Héraðsfundur Vestfjarðarprófastsdæmis 2016 var haldinn á Hólmavík á Ströndum sunnudaginn þann 18. september.  Fundurinn hófst með guðsþjónustu í Staðarkirkju  í Staðardal kl. 11:00 sem sr. Sigríður Óladóttir leiddi en sr. Hildur Björk Hörpudóttir predikaði.  Eftir guðsþjónustuna var snæddur hádegisverður á Café Riis á Hólmavík en þar fór fundurinn fram.  Fundargerðina er að finna undir fyrirsögninni Hérðaðsfundir á hliðarslánni til hægri.

Á héraðsfundinum voru samþykktar tvær ályktanir:

1.         Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Hólmavík 18. september 2016 ítrekar fyrri samþykkt sína um sameiningu Gufudalssóknar og Reykhólasóknar í eina sókn.  Fundurinn hvetur biskupafund til að leggja fram slíka sameiningartillögu á næsta kirkjuþingi.

2.         Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Hólmavík 18. september 2016 skorar á kirkjuyfirvöld að í Patreksfjarðarprestakalli verði tveir prestar í fullu starfi.  Rökstuðningur: Eðli prestsstarfanna er þannig að það getur verið erfitt að samþætta það öðru starfi.  Nær lagi væri að fela öðrum prestinum einhver verkefni innan kirkjunnar, sem viðkomandi gæti sinnt.

Magnús Erlingsson, 15/9 2016

Gjaldskrá fyrir prestsþjónustu

Gjaldskrá fyrir prestsþjónustu er ákvörðuð af Innanríkisráðuneytinu.  Samkvæmt Stjórnartíðindum þá átti gjaldskráin að hækka um síðustu áramót.  Nýja gjaldskráin lítur svona út:

  • Skírn:  6.254 kr.
  • Ferming:  17.868 kr.
  • Hjónavígsla:  11.614 kr.
  • Embættisvottorð:  1.787 kr.

Prestsþjónusta við jarðarfarir er greidd af viðkomandi kirkjugarði og þess vegna er sá taxti ekki auglýstur hér.

Magnús Erlingsson, 20/6 2016

VERÖLD Í VANDA

Haldnir verða þrír kynningar- og samræðufundir á vegum Biskupsstofu og þriggja prófastsdæma undir yfirskriftinni; VERÖLD Í VANDA - Fræðsla og  samræður um umhverfismál og lífsviðhorf.  Fundirnirverða í Digraneskirkju miðvikudagana 25. maí, 1. júní og 8. júní, frá kl. 09:30 til 11:30.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og rithöfundur, mun í máli og myndum fræða og fjalla um ,,umhverfismál í víðum skilningi’’ og einkum stöðu Íslands og norðurslóða og bjóða til samræðna um lífsgildi og viðbrögð í því samhengi.  Á hverri fræðslustund mun hann í tveimur fyrirlestrum fjalla um tiltekna efnisflokka.  Erindin eru um 20-30 mínútur að lengd en síðan er gert ráð fyrir umræðum í rúmar 20 mínútur eftir hvert erindi.  Svona lítur dagskráin út:

Miðvikudaginn 25. maí:  1. Hlýnun jarðar, afleiðingar hennar og viðbrögðin.  2. Samræður.  3. Sóun, endurvinnsla og gjörnýting hráefna – lykill að framtíðinni.  4. Samræður.

Miðvikudaginn 1. júní:  1. Ferðaþjónustan, þjóðgarðar og náttúruvernd.  2. Samræður.  3. Virkjanir, iðnaður og orkuflutningsnetið.  4. Samræður.

Miðvikudaginn 8. júní:  1. Hefðbundnu atvinnuvegirnir og samgöngur.  2. Samræður.  3. Opnun norðurslóða og olíuleit við Ísland.  4. Samræður.

Til glöggvunar er verðandi þátttakendum bent á bók Ara Trausta – Veröld í vanda -  sem kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi síðla í maí – og netsíður á borð við umhverfisfrettir.is, natturan.is, natturuvernd.is og environice.is.

Ari Trausti telur að prestar og kirkjufólk gætu haft mikið að segja um það í hvaða farveg umhverfisumræðan fari í samfélaginu og hvernig brugðist verði við hættumerkjum en verði að fá sem bestar upplýsingar um ýmis atriði viðkomandi umhverfisaðstæðum og þekkja vel til þeirra, til að geta haft marktæk og farsæl áhrif á umræðuna og stýrt henni til heilla.

Verðandi þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að skrá sig sem fyrst til þátttöku á þessari slóð: https://docs.google.com/forms/d/1xqAeDpM5THj1oLXAFWm5AwlrDqC-orHTiEONg1XvvUY/viewform

Magnús Erlingsson, 18/5 2016

Héraðsfundurinn verður á Hólmavík

Héraðsnefnd Vestfjarðaprófastsdæmis kom saman til fundar í safnaðarheimilinu á Ísafirði þann 2. maí síðastliðinn.  Ákveðið var að halda héraðsfund 2016 á Hólmavík sunnudaginn 18. september 2016.  Dagskráin hefst með messu í kirkjunni á Stað í Steingrímsfirði kl. 11:00 og síðan verður snæddur hádegisverður á Hólmavík og þar yrði fundurinn haldinn.

Magnús Erlingsson, 4/5 2016

Prestafundur á Ísafirði

Mánudaginn 9. maí kl. 11:00 verður haldinn fundur vestfirskra presta í safnaðarheimilinu á Ísafirði.  Rætt verður um þau málefni er snerta kirkju landsins og presta hennar.

Magnús Erlingsson, 4/5 2016

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis er sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafirði.

Vefir sókna
Ísafjarðarkirkja
Reykhólakirkja

Forsíðumyndin
Myndin, sem prýðir forsíðu vefsins, er af krossmarkinu á Óshlíðinni við Ísafjarðardjúp.

 

Safnaðarheimili Hólskirkju, Aðalstræti 22, 415 Bolungarvík. Sími 456 7435 · Kerfi RSS