Vestfjarðaprófastsdæmi

 

Ályktun héraðsfundar um breytt skipulag prestsþjónustu

Á nýliðnum héraðsfundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:  “Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Suðureyri 2. september 2018 þakkar kirkjuyfirvöldum fyrir framkomnar tillögur um breytingar á skipulagi prestsþjónustunnar þar sem lagt er upp með aukið samstarf og samvinnu. Hins vegar þykir okkur sem þörf sé á frekari útfærslu á þessum hugmyndum. Óljóst sé hver skuli leiða samstarfið og vera sóknarprestur á hverju samstarfssvæði, hvernig sé valið í það embætti eða hvort prestar skiptist á að vera sóknarprestar líkt og raunin er með embætti kirkjuhirðis í Svíþjóð svo dæmi sé tekið. Héraðsfundur hvetur kirkjuyfirvöld til að útfæra þessar tillögur betur og þá í samráði við heimamenn.”

Magnús Erlingsson, 6/9 2018

Ályktun héraðsfundar um Reykhóla- og Patreksfjarðarprestakall

Á nýliðnum héraðsfundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:  “Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Suðureyri 2. september 2018 skorar á kirkjuyfirvöld að reisa hið snarasta nýtt prestssetur á Reykhólum. Ennfremur er skorað á kirkjuyfirvöld að tveir prestar í fullu starfi verði þjónandi í Patreksfjarðarprestakalli.”

Magnús Erlingsson, 6/9 2018

Sr. Hildur Björk leysir af

Vegna veikinda sr. Elínar S. Guðmundsdóttur þá hefur biskup Íslands falið fráfarandi presti, sr. Hildi Björk Hörpudóttur að leysa af sem sóknarprestur í Reykhólaprestakalli allt til loka októbermánaðar.

Magnús Erlingsson, 22/8 2018

Héraðsfundur á Suðureyri sunnudaginn 2. september 2018

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis verður haldinn á Suðureyri við Súgandafjörð sunnudaginn 2. september næstkomandi.  Fundurinn hefst með guðsþjónustu í Suðureyrarkirkju kl. 11:00 þar sem sr. Kristján Arason, sóknarprestur á Patreksfirði predikar en sr. Fjölnir Ásbjörnsson þjónar fyrir altari.  Eftir guðsþjónustuna verður snæddur hádegisverður á veitingastaðnum Talisman á Aðalgötu 14 á Suðreyri en sjálfur héraðsfundurinn verður haldinn í félagsheimilinu, sem er á móti þessum ágæta veitingastað.

Dagskrá héraðsfundar:

1.         Kosning fundarstjóra og fundarritara

2.         Skýrsla héraðsnefndar

3.         Ársreikningar héraðssjóðs

4.         Starfsáætlun héraðsnefndar

5.         Hjálparstarf kirkjunnar

6.         Starfsskýrslur sókna, nefnda og annarra starfsmannstofnana prófastsdæmisins lagðar fram svo og ársreikningar sókna og kirkjugarða.  Skýslur skulu helst vera skriflegar og er hægt að skoða þar til gert eyðublað á heimasíðu prófastsdæmisins en slóðin þangað er:  http://kirkjan.is/vestfjardaprofastsdaemi/.

7.         Erindi frá Kirkjuþingi og biskupafundi:  Sameiningar prestakalla

8.         Samþykktir Prestastefnu og Leikmannastefnu kynntar

9.         Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna fyrir störf þeirra á liðnu ári

10.       Kosningar:

a) Kjósa þarf til héraðsnefndar úr hópi presta; einn aðalmann til tveggja ára og annan til vara.

b) Kjósa þarf fulltrúa héraðsfundar í stjórn friðarsetursins í Holti; einn aðalmann til tveggja ára og annan til vara.

11.       Aðrar kosningar eða tilnefningar sem heyra undir héraðsfund.

12.       Önnur mál.

Aðalefni þessa fundar er kynning á Hjálparstarfi kirkjunnar.  Tveir fulltrúar frá Hjálparstarfinu munu kynna fyrir okkur helstu þætti í utanlands- og innanlandaatðstoðinni og svara fyrirspurnum.

Gert verður kaffihlé á fundinum.  Fundarslit verða síðdegis.

Magnús Erlingsson, 8/8 2018

Messa í Unaðsdal

Sunnudaginn 5. ágúst kl. 14:00 er messa í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd.  Organisti er Kjartan Sigurjónsson en prestur sr. Magnús Erlingsson.  Almennur söngur.  Allir velkomnir.

Magnús Erlingsson, 24/7 2018

Þónknun fyrir prestsverk

Fyrir sérstök embættisverk er prestum greidd ákveðin þóknun.  Greiðslurnar eru sem hér segir:

Fyrir skírn utan messu, það er í sérstakri athöfn hvort sem er í heimahúsi eða kirkju, eru greiddar 6.700 krónur.  Skírn í messu er ókeypis.

Fermingarfræðsla í heilan vetur leggur sig á 19.100 krónur.

Fyrir hjónavígslu eru greiddar 12.400 krónur.

Fyrir jarðarför eru greiddar 24.800 krónur.

Magnús Erlingsson, 7/7 2018

Kirknaráð Evrópu kallar eftir friði og réttlæti svo að hægt sé að leysa vanda flóttafólks

Kirknaráð Evrópu, á ensku Conference of European Churches, skammstafað CEC, var stofnað árið 1959 og var Þjóðkirkja Íslands einn af stofnendum þess.  Í kirknaráðinu eru allar kirkjudeildir og kirkjur í Evrópu.  Upphaflegt markmið ráðsins var að að vinna markvisst að einingu og friði í heiminum.  Í dag eru áskoranir kristninnar í Evrópu m.a. fækkun meðlima og aukið skilningsleysi á hlutverki kirkjunnar. Flestir Evrópubúar aðhyllast kristna siðfræði og samsinna þeim boðskpa, sem kemur fram í dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum.  Á sama tíma fækkar þeim, sem ástunda kristna trú, sækja kirkju og biðja.  Mætti hér tala um siðrof, þar sem hin kristna breytni er ekki endilega tengd kjarna hinnar kristnu trúar.

Fundur Kirknaráðsins er haldinn þessa dagana í bænum Novi Sad í Serbia.  Biskup úr grísku rétttrúnaðarkirkjunni ræddi um þann fjölda flóttafólks, sem leitar skjóls á Grikklandi.  Þar mætti það gestrisni hins kristna samfélags, sem í anda Krists þjónar fólki í neyð.  Á sama tíma væri einnig lögð áhersla á að hjálpa fólki til að snúa aftur til síns heima.  Biskupinn sagði jafnframt að ekki dygði að kirkjur veittu aðstoð og sýndu gestrisni, því jafnframt þyrftu sterkar þjóðir og ríkjandi öfl að hætta að selja vopn til stríðandi fylkinga í heiminum.  Ekki væri hægt að styðja fólk til að búa í sínu heimalandi ef á sama tíma væri verið að selja vopn til stríðandi fylkinga á þeim sömu svæðum.  Vesturlönd þyrftu að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á stríðandi svæðum.

Magnús Erlingsson, 7/6 2018

Sr. Elín sett til að þjóna Reykhólum

Biskup Íslands hefur ákveðið að setja sr. Elínu Salóme Guðmundsdóttur til að þjóna Reykhólaprestakalli í eitt ár frá og með 1. júlí 2018.

Sem stendur er prestssetrið á Reykhólum óíbúðarhæft og mun sr. Elín hafa íverustað á dvalarheimilinu Barmahlíð.  Kirkjuráð hyggst nota næstu tólf mánuði til að finna lausn á húsnæðisvanda embættisins á Reykhólum.

Magnús Erlingsson, 9/5 2018

Kosningar til kirkjuþings

Niðurstaða kosninga til kirkjuþings liggur fyrir. Við Vestfirðingar eigum tvo góða fulltrúa þar inni. Það eru þær Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð og sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir sóknarprestur á Þingeyri. Er þeim óskað til hamingju með kjörið.

Önnur ánægjutíðindi frá kjörinu eru þau að konur eru nú í meirihluta á kirkjuþingi. Af 29 fulltrúum eru 16 konur.

Magnús Erlingsson, 9/5 2018

Sr. Hildur á förum frá Reykhólum

Sr. Hildur Björk Hörpudóttir sóknarprestur á Reykhólum hefur sagt embætti sínu lausu frá og með 1. júlí 2018.

Ein meginástæða fyrir uppsögn sr. Hildar eru vandræði með embættisbústað hennar á Reykhólum.  Fyrir rúmu ári síðan kom í ljós að prestssetrið var óíbúðarhæft vegna myglu.  Þurfti prestsfjölskyldan þá að flytja úr húsinu.  Þar eð ekkert húsnæði var á lausu á staðnum þá þurfti fjölskylda sr. Hildar að flytja suður.  Sjálf fékk hún aðstöðu í lítilli íbúð á dvalarheimilinu Barmahlíð.

Magnús Erlingsson, 9/5 2018

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis er sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafirði.

Vefir sókna
Ísafjarðarkirkja
Reykhólakirkja

Forsíðumyndin
Myndin, sem prýðir forsíðu vefsins, er af krossmarkinu á Óshlíðinni við Ísafjarðardjúp.

 

Safnaðarheimili Hólskirkju, Aðalstræti 22, 415 Bolungarvík. Sími 456 7435 · Kerfi RSS