Vestfjarðaprófastsdæmi

 

Framboð og kosningar til kirkjuþings

Á kirkjuþingi sitja 29 manns en kirkjuþing er æðsta valdastofnun kirkjunnar og mótar þingið stefnu kirkjunnar í öllum helstu málum og segja má að þingið stýri kirkjunni með því að setja starfsreglur um alla mikilvægustu þættina í starfi kirkjunnar.  12 af þessum 29 kirkjuþingsfulltrúum koma úr hópi vígðra manna, það er presta og djákna.  Hinir 17 eru úr hópi leikmanna kirkjunnar.

Prestar í Vestfjarðaprófastsdæmi eru í kjördæmi vígða í Skálholtsstifti.  Ekki er víst að prestur af Vestfjörðum nái kjöri inn á kirkuþing en tveir prestar í vestrinu hafa lýst yfir áhuga að taka sæti á kirkjuþingi.  Þetta eru þau sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir og sr. Magnús Erlingsson.

Hins vegar á prófastsdæmið einn fulltrúa úr hópi leikmanna á kirkjuþingi.  Þar hafa þrjár konur boðið sig fram.  Þetta eru þær Árný Hallfríður Herbertsdóttir kennari á Ísafirði, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð og Lísbet Harðardóttir Ólafardóttir æskulýðsleiðtogi og málari á Ísafirði.

Kosið verður til kirkjuþings með rafrænum hætti og verður kosið dagana 2.-7. maí 2018.  Það eru aðalmenn í sóknarnefndum, sem kjósa til kirkjuþings.

Magnús Erlingsson, 12/4 2018

Kosning hafin í vígslubiskupsskjöri

Í dag, þann 9. mars 2018 voru kjörgögn í víglsubiskupskjöri í Skálholtsstifti póstlögð til kjósenda.  Kosning er því hafin en kosningarétt hafa presta og fulltrúar sóknanna í kjörnefndum.  Kjörgögn skal senda kjörstjórn í pósti til Biskupsstofu, Laugavegi 31, 101 Reykjavík og skulu kjörgögn póststimpluð eigi síðar en miðvikudaginn 21. mars 2018.

Til að auðvelda kjósendum að glöggva sig betur á prestunum þremur, sem kosið er á milli, þá hafa þeir allir svarað nokkrum spurningum á fasbókar síðu Vestfjarðaprófastsdæmis.  Slóðin er þessi:  https://www.facebook.com/profastinum/

Magnús Erlingsson, 9/3 2018

Fréttir úr Patreksfjarðarprestakalli

Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir hefur verið sett til að þjóna sem sóknarprestur í Patreksfjarðarprestakalli til loka marsmánaðar.

Búið er að auglýsa eftir nýjum sóknarpresti og hafa þrír guðfræðingar sótt um embættið.  Matsnefnd þjóðkirkjunnar er nú að fara yfir umsóknirnar og leggja á þær mat.  Þegar hún hefur lokið störfum mun kjörnefnd prestakallsins verða kölluð saman til að kjósa nýjan prest.

Á Bíldudal stendur til að laga gluggana í safnaðarheimilinu.  Safnaðarheimilið er í gamla skólahúsinu, rétt hjá kirkjunni.  Þetta er fallegt hús með ríka sögu.

Magnús Erlingsson, 3/3 2018

Þessir voru tilnefndir til kjörs sem vígslubiskupar í Skálholti

136 þjónandi prestar höfðu rétt til að tilnefna kandidata til kjörs vígslubiskups í Skálholti.  Gat hver prestur tilnefnt þrjá kandidata.  42 einstaklingar fengu tilnefningu.  Eftirfarandi þrír prestar fengu flest atkvæði:

Sr. Eiríkur Jóhannsson hlaut    51 tilnefningar.

Sr. Kristján Björnsson hlaut    44 tilnefningar.

Sr. Axel Árnason Njarðvík hlaut    42 tilnefningar.

Kosið verður á milli þessara þriggja.  Um er að ræða póstkosningu sem hefst þann 9. mars og lýkur þann 21. mars.

Magnús Erlingsson, 7/2 2018

Þóknun fyrir þjónustu presta

Gjaldskrá presta er ákvörðuð af innanríkisráðherra.  Núgildandi gjaldskrá er frá júlí 2016.  Þóknun fyrir hvert embættisverk prests er sem hér segir:

  • Skírn 6.700 kr.
  • Ferming 19.100 kr.
  • Hjónavígsla 12.400 kr.
  • Útför með ræðu og kistulagningu 24.890 kr.
  • Kistulagning 7.658 kr.
  • Jarðsetning duftkers 7.658 kr.
  • Embættisvottorð 1.900 kr.

Ekki er tekið gjald fyrir skírn við guðsþjónustu.  Ekki er heldur innheimt þóknun fyrir jarðsetningu duftkers eða kistu ef athöfn er í beinu framhaldi af útför.

Magnús Erlingsson, 30/1 2018

Patreksfjarðarprestakall verður auglýst að nýju

Biskup Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á kosningu kjörnefndar Patreksfjarðarprestakalls.  Í ljós hefur komið að fjórir fulltrúar af ellefu hafi ekki verið kosnir á almennum safnaðarfundum eins og starfsreglur kveða á um heldur hafi þeir verið tilnefndir á sóknarnefndarfundum.  Biskup álítur að þessi annmarki í meðferð málsins kunni geta ógilt skipun sóknarprests.  Þess vegna hefur biskup ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli að nýju.

Magnús Erlingsson, 7/11 2017

Val á sóknarpresti fyrir Patreksfjarðarprestakall

Kjörnefnd Patreksfjarðarprestkalls kom saman til fundar fimmtudaginn 26. októbker.  Eftir að hafa farið yfir umsóknir og skýrslu matsnefndar og rætt við umsækjendurna tvo þá var kosið.  Niðurstöður kjörsins og fundargerð voru send biskupi í tölvupósti.

Búist hafði verið við að biskup myndi afgreiða málið föstudaginn 27. október og þá yrði kunngjört hver yrði skipaður næsti sóknarprestur á Patreksfirði.  Það gerðist ekki meðal annars vegna þess að upp kom vafi um hvort allir kjörnefndarfulltrúar væru réttilega kosnir.  Þessi vafi er tilkominn vegna kærumála í Dómkirkjusókninni í Reykjavík.  Í starfsreglum, sem Kirkjuþing samþykkti, er kveðið á um að fulltrúar í kjörnefnd skuli kosnir á aðalsafnaðarfundi eða almennum safnaðarfundi.  Svo virðist sem það sé ekki lögmætt að velja fulltrúa í kjörnefnd á fundi sóknarnefndar.

Vonandi skýrist það á næstu dögum með valið á næsta sóknarpresti fyrir Patreksfjarðarprestkall.  Tveir möguleikar eru í stöðunni.  Annars vegar að niðurstaða kjörnefndar standi eða þá að embættið verði auglýst að nýju.  Líklega munu málin skýrast í næstu viku.

Magnús Erlingsson, 1/11 2017

Vestfirskir prestar fóru til Landsins helga

Dagana 27. september til 5. október fóru fimm prestar af Vestfjörðum til Ísraels og heimsóttu söguslóðir Nýja testamentisins, skoðuðu helga staði og hlýddu á fyrirlestra.  Ferðin var skipulögð í samstarfi við sænksu guðfræðistofnunina í Jerúsalem.  Prestarnir, sem fóru, voru þau Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, Magnús Erlingsson, Elín Salóme Ingólfsdóttir, Hildur Inga Rúnarsdóttir og Hildur Björk Hörpudóttir.  Ferðin tókst afar vel.  Dvalið var í Jerúsalem en ýmsir staðir eins og Betlehem og Galílea heimsóttir.

Magnús Erlingsson, 25/9 2017

Tveir umsækjendur um embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli

Tvær umsóknir bárust um embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli, en umsóknarfrestur rann út þann 15. september síðastliðinn.  Það eru þau sr.  Elín Salóme Guðmundsdóttir og mag.theol. Kristján Arason, sem sóttu um embættið.

Matsnefnd mun nú fara yfir umsóknirnar munu og leggja mat á hæfni umsækjendanna.  Siðan fjallar kjörnefnd prestakallsins um umsóknirnar og kýs að því búnu milli umsækjendanna.  Biskup Íslands skipar biskup þann umsækjanda. sem hlýtur löglega kosningu.  Stefnt er á að nýr sóknarprestur verði skipaður 1. nóvember til fimm ára.

Magnús Erlingsson, 19/9 2017

Ályktun héraðsfundar

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Patreksfirði 3. september 2017 andmælir framkomnum hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum.  Niðurlagning þess embættis mun rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli.  Eins vill fundurinn minna á að einungis rúmt ár er liðið síðan að skipaður var nýr sóknarprestur á Reykhólum og gert við hann haldsbréf.  Embættið var auglýst með þeim skilmálum að til staðar væri íbúðarhæft húsnæði fyrir prestinn.  Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.

Ennfremur skorar héraðsfundur á kirkjustjórnina að framvegis verði tveir prestar í fullu starfi í Patreksfjarðarprestakalli.

Héraðsfundir væntir þess að biskupafundur svari þessari ályktun með formlegu bréfi eða fundi með heimamönnum.

Magnús Erlingsson, 4/9 2017

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis er sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafirði.

Vefir sókna
Ísafjarðarkirkja
Reykhólakirkja

Forsíðumyndin
Myndin, sem prýðir forsíðu vefsins, er af krossmarkinu á Óshlíðinni við Ísafjarðardjúp.

 

Safnaðarheimili Hólskirkju, Aðalstræti 22, 415 Bolungarvík. Sími 456 7435 · Kerfi RSS