Páskarnir eru án
efa mikilvægasta hátíð kristinnar kirkju. Við fögnum lífinu og sigri þess yfir
dauðanum. Á þessum degi reis Jesús Kristur upp frá dauðum, þremur dögum eftir
pínu hans á Krossi. Krossinn var tæki sem notað var til að kúga og kvelja þau sem
gerðust svo djörf að andmæla valdinu. Tilgangur hans var að vekja ótta og
skelfingu á meðal þeirra sem hugðust gera hið sama. Setjið ykkur í fótspor
fylgjenda Jesú, fjölskyldu hans og vina, sem horfðu upp á leiðtoga sinn og vin
pyntaðan og drepinn á hryllilegan hátt.
Þessi
dauðdagi var sérstaklega niðurlægjandi fyrir Gyðinga en í Fimmtu Mósebók lesum
við: „Fremji maður glæp sem dauðarefsing liggur við og sé líflátinn og þú
hengir hann á tré má líkið ekki vera á staurnum náttlangt. Þú verður að grafa
hann samdægurs því að sá sem er hengdur er bölvaður af Guði.“ Margir fylgjenda
Jesú höfðu gefið allt sem þeir áttu, yfirgefið fjölskyldur sínar og hætt lífi
sínu fyrir þann sem hengdur var á tré, fyrir þann sem bölvaður var af Guði.
Óttinn var mikill og fóru lærisveinarnir í felur. Margir þeirra efuðust um
frelsarann og fáir héldu í vonina. Eins og Jóhannes segir okkur: „Þeir höfðu
ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.“
Í
gegnum árin hefur fjöldi meðlima í Þjóðkirkjunni farið fækkandi og er þetta
ekki einungis að gerast hér á Íslandi heldur einnig á Norðurlöndunum. Fækkunin
á sér margar skýringar og er hún ekki einungis vegna fjölda úrsagna úr
kirkjunni eins og fjölmiðlar vilja gjarnan auglýsa. Staðreyndin er sú að þörfin
fyrir Guð hefur minnkað og trúin er veik hjá mörgum. Hún er svo veik að sumt
fólk er feimið við að ræða hana opinskátt, við að játa trú sína á Jesú Krist.
Samt sem áður er fólk leitandi eftir andlegri næringu og finnur hana á öðrum
stöðum. Það er jafnvel tilbúið að borga háar fjárhæðir fyrir hana. Af hverju?
Við
lifum í samfélagi sem hreykir sér af fjölmenningu sinni. Við teljum okkur
samþykkja allt fólk af öllum trúarbrögðum. Það þykir áhugavert eða jafnvel
flott að tilheyra Ásatrúafélaginu, Siðmennt, Íslam eða öðrum trú- eða
lífsskoðanafélögum en einhverja hluta vegna er skrýtið að játast Jesú Kristi.
Kristinfræðikennsla hefur verið bönnuð í skólum og trúarbragðafræði tekin við,
ef hún er yfir höfuð kennd. Fermingarbörnin þekkja ekki sögur Biblíunnar og
vita varla hver Jesús Kristur var. Fólki finnst ekkert að því að norræn
goðafræði sé kennd þar sem saga hennar er arfur okkar Íslendinga. Ingólfur
Arnarsson átti að hafa numið hér land um árið 870. Kristnitakan varð árið
þúsund og hefur þjóðin verið kristin síðan. Ég spyr: „Hvor hefðin hefur meira
vægi í íslenskri sögu og menningu? Sú sem spannar um 130 ár eða sú sem hefur
verið hér í um 1000 ár? Er ekki mikilvægt að þekkja kristindóminn til að skilja
sögu og arf okkar Íslendinga?“
Fólk
spyr oft: „Af hverju trúir þú á Guð? Af hverju trúir þú á Jesú? Svo þurfum við
að réttlæta trú okkar. Ég hef fengið þessar spurningar oft og mörgum sinnum,
bæði þegar ég var í guðfræði og eftir að ég vígðist til prests hér í Vík. Ég
trúi vegna þess að ég er fullviss um að eitthvað stórkostlegt hafi átt sér stað
fyrir um 2000 árum síðan. Ég trúi að Jesús Kristur hafi risið upp frá dauðum.
Án upprisunnar værum við ekki hér saman komin. Án hennar væri engin kirkja og
engin trú.
Postularnir
trúðu því að Jesús væri Sonur Guðs og að hann hafi risið upp frá dauðum. Þeir
létu lífið fyrir fagnaðarerindið og voru margir þeirra drepnir á hryllilegan
hátt. Páll postuli, sá sem ofsótti fylgjendur Jesú, snerist til trúar á Krist
eftir guðlega opinberun. Hann lét einnig lífið fyrir fagnaðarerindið eins og svo
margir á eftir honum. Það sem ég er að reyna að segja er að fylgjendur Jesú
hefðu ekki fórnað lífi sínu fyrir lygi.
Þessu
til stuðnings vitna ég til þess er Pétur segir við Jesú áður en Jesús er
tekinn. Pétur segir: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi
og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú
þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“ Og hvað gerðist? Pétur afneitaði
Jesú þrisvar áður en haninn gól. Hann var eðlilega hræddur og ekki tilbúinn að
fórna lífi sínu á þessu augnabliki. Af hverju ekki? Því að hann var ekki viss
og hann óttaðist um líf sitt. Hvað ef Jesús væri ekki sá sem hann sagðist vera?
Eftir dauða Jesú fóru orðrómar af stað um að gröfin væri tóm og að frelsarinn væri
upprisinn. Skyndilega eru postularnir og fleiri fylgjendur Jesú tilbúnir að
leggja líf sitt í sölurnar fyrir fagnaðarerindið.
Af
hverju trúi ég á Guð? Því að ég treysti því sem Biblían segir að Kristur er
upprisinn. Margir kraftaverkamenn voru uppi á tíma Jesú sem framkvæmdu
kraftaverk og áttu fylgjendur. Apollóníus frá Týana var einn þessara
kraftaverkamanna en hann var heiðingi. Hann átti að hafa læknað sjúka og
blinda. Hann var dæmdur til dauða fyrir brot sín gegn valdinu og var talinn
hafa risið upp frá dauðum og stigið upp til himna! Hversu marga fylgjendur á
Apollóníus í dag? Ekki marga, né heldur hinir kraftaverkamennirnir sem reyndust
vera falsspámenn.
Það
er alveg ljóst að eitthvað stórkostlegt átti sér stað fyrir um 2000 árum síðan.
Upprisa átti sér stað og með henni hófst boðun fagnaðarerindisins. Bæði menn og
konur boðuðu fagnaðarerindið og létu lífið fyrir það. Boðun þess náði til
stærsta heimsveldis þess tíma; Rómaveldis. Á fjórðu öld e.Kr. varð kristin trú
gerð að ríkistrú í Róm þó svo að fylgjendur hennar voru ofsóttir, pyntaðir og
drepnir í mörg hundruð ár á undan. Það er engin tilviljun og frá Róm streymdi
boðskapurinn til allra heimshorna og þar á meðal til okkar Íslendinga.
Ég
sagði hér í upphafi að kristin trú á Íslandi er veik en hún er enn sterk hjá
sumum okkar og því ber okkur sem enn fylgjum Kristi að halda boðskap hans á
lofti. Fólk er leitandi að andlegri næringu og ég trúi því að með tíð og tíma
muni það átta sig á að hana er að finna hjá Jesú Kristi. Þegar það gerist
verður hér mikil upprisa í anda og trú. Amen.