Keníustrákarnir í Lindakirkju

18. júlí 2019

Keníustrákarnir í Lindakirkju

Keníska fótboltaliðið fyrir utan Lindakirkju. Formaður sóknarnefndar, Arnór Pálsson til vinstri og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur Lindasóknar, til hægri

Fótboltastrákarnir frá Keníu hafa verið í fréttum. Þeir komu hingað til að keppa á alþjóðlega Rey Cup fótboltamótinu sem haldið er árlega. Margir hafa lagt þessum fátæku drengjum frá kenísku borginni Got Agulu lið svo að draumur þeirra rættist um að komast á stórt fótboltamót. 

Biskup Íslands tók á móti þeim um daginn í biskupsgarði og bauð þeim upp á íslenska kjötsúpu. Þá heimsóttu þeir forseta Íslands heim á Bessastaði sem bauð þeim upp á bakkelsi, kleinur og vínarbrauð.

Þeir hafa vakið athygli fyrir prúðmennsku og hógværð.

Nú var komið að pizzu!

Það var glaður hópur fótboltastráka en þreyttur sem kom í Lindakirkju í gær. Leik þeirra gegn Breiðabliki var nýlokið. Fjörugur leikur og spennandi. En Blikarnir höfðu betur, skoruðu fjögur mörk en gestirnir þrjú. Yfirþjálfarinn hjá Breiðablik, Hákon Sverrisson, sagði kenísku strákana harða af sér og efnilega knattspyrnumenn.

Í Lindakirkju tók sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur, á móti þeim. Hann ræddi við þá og fararstjórana. Síðan leiddi hann þá í borðbæn en sóknin bauð þeim í pizzu og gos. Það var létt yfir þeim og pizzurnar runnu vel niður. Eftir að hafa nært sig fóru þeir í kapelluna. Þar sungu þeir nokkra keníska söngva og síðan kenndi sr. Guðmundur Karl, Daginn í dag, sem þeir tóku smám saman undir. Arnór Pálsson, formaður sóknarnefndar, heilsaði upp á strákana.

Eftir heimsóknina í Lindakirkju héldu strákarnir frá Keníu í Salalaug í Kópavogi. Þeir voru fullir tilhlökkunar enda höfðu þeir áður farið í laug hér og þótti það mikið ævintýri eins og reyndar öll dvölin á Íslandi. Þeir halda utan til Keníu eftir nokkra daga.

Minningar þeirra eru góðar um landið kalda í norðri og ylja þeim vonandi um hjartarætur!

 

Sr. Guðmundur Karl slær gítarinn einbeittur á svip

Pizzurnar runnu út

 

 

 


  • Æskulýðsmál

  • Alþjóðastarf

  • Heimsókn

  • Samstarf

  • Skipulag

Gleðin við völd
18
ágú.

Fagnað með fagnendum...

Kirkjan er fólkið og engin tvö eru eins...
Ljóðabók Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur er áhrifarík
17
ágú.

Vökukonan í Hólavallagarði

Hún gefur þessum konum rödd með miklum sóma
Þöggun, verk eftir Viktoríu Guðnadóttur
16
ágú.

Beinagrind og nakin kona

Þrír listamenn sýna í Neskirkju verk sín á þremur veggjum