Orð hafa áhrif

24. ágúst 2019

Orð hafa áhrif

Orð og hvíld

Þegar gengið er sunnan við hornið á Hallveigarstíg og Ingólfsstræti í Reykjavík blasa við veglegar tröppur með sjö pöllum og yfir þeim er letrað: Aðventkirkjan. Það kemur þeim er ekki vita af húsi þessu ögn á óvart að þarna leynist kirkja því kirkjuhúsið er sambyggt íbúðarhúsi í austurenda þess. Og það er hvítt með rauðleitum leirflísum á þaki – dálítið eins og það hafi verið flutt í heilu lagi frá útlöndum og sett hér niður í Þingholtin. En þarna er húsið: Aðventkirkjan. Fallegt hús að utan sem innan.

Nú á menningarnótt var sýning opnuð í Aðventkirkjunni við Hallveigarstíg þar sem áhersla er lögð á orðið. Sjö verk eru á sýningunni. Meðal þeirra eru orð sem varpað er úr myndvarpa á vegg og eru það djúp orð eins og fyrirgefning, kærleikur svo dæmi séu nefnd. Áhorfandi situr á bekk og íhugar þau. Eins er búið að koma upp krossi til hliðar við altarið og á hann er hægt að festa miða með bæn eða skilaboðum frá gestum og gangandi. Á bekk inni í kirkjunni er lítil tréjata og í henni kort með Biblíutilvitnunum sem gestir geta dregið.

Opin kirkja fyrir list og boðun í miðborginni – og hún dró fjölda manns að.

Altaristaflan er auðvitað það fyrsta sem blasir við þegar inn í kirkjuna er komið. Yfir henni eru orð sem eru hluti af sýningunni: „Jeg er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Á stalli altaristöflunnar eru líka orð: „Sælir eru þeir er heyra Guðs orð og varðveita það.“ Fyrir framan altarið er daufgrænn Chesterfield-sófi. Temað er hvíldin og boðið um að koma til frelsarans.

Þessi altaristafla er máluð af Eyjólfi Eyfells og er frá árinu 1927.

Tíðindamaður kirkjan.is ræddi við safnaðarprestinn, sr. Eric Guðmundsson. Hann hefur þjónað Aðventkirkjunni frá 1984 ýmist sem safnaðarprestur eða þá sem forstöðumaður safnaðarins. Í söfnuði Aðventista í Reykjavík eru á annað hundrað félagsmenn og samtals um fimm hundruð á landinu öllu.

Einar Sigurbergur Arason, guðfræðingur, starfsmaður Suðurhlíðarskóla, sýndi tíðindamanni kirkjan.is listaverkin.

Þetta er tíunda árið sem Aðventkirkjan er með sérstaka sýningu á menningarnótt í Reykjavík.

Borðið til sýningar við Ingólfsstræti 19 í Reykjavík

Eitt verkanna, jata með gulum miðum sem geymdu gæfuorð Biblíunnar

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Listaverk í Skálholti eftir Rósu Gísladóttur
15
júl.

Róm heimsækir Skálholt

Merkileg listsýning
Breiðabólsstaðarkirkja í Fljótshlíð - Myndina tók sr. Sigurður Ægisson
14
júl.

Tíu sóttu um Breiðabólsstað

Umsóknarfrestur rann út 13. júlí.
Skálholtsdómkirkja og Þorláksbúð
13
júl.

Glæsileg dagskrá

Skálholtshátíð 2020