Þýsk sálumessa í Neskirkju

25. október 2019

Þýsk sálumessa í Neskirkju

Einbeitt fólk á æfingu - Júlíus Sigurjónsson tók myndina

Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna ráðast nú í að flytja eitt helsta stórvirki kórbókmenntanna, meistaraverk Jóhannesar Brahms (1833-1897), Þýska sálumessu (Ein deutches Requiem.)

Þessi tónlistarviðburður verður á morgun, laugardaginn 26. október, í Neskirkju og hefst kl. 17.00.

Kirkjan.is sló á þráðinn til Steingríms Þórhallssonar, organista Neskirkju, til að forvitnast nánar um málið.

„Kórinn byrjaði að huga að þessu í vor,“ segir Steingrímur „og fór að æfa með hljómsveitinni þegar á leið haustið.“

Í hljómsveitinni leikur fólk sem æfir að jafnaði í Seltjarnarneskirkju. Það er tónlistarfólk sem starfar við tónlist, tónlistarnemendur, og fólk sem hefur farið í langt tónlistarnám og kemur saman til æfinga ánægjunnar vegna í hljómsveitinni. „Það er mjög áhugasamt og metnaðarfullt í tónlistarflutningi sínum“, segir Steingrímur.

„Þetta er með því viðamesta sem ég hef tekið að mér,“ segir organistinn, „já, þetta er um fimmtíu manna hljómsveit og kórinn álíka fjölmennur – rúmlega hundrað manns sem koma að þessu.“

Steingrímur segir að sérstakt við þennan flutning á morgun verði meðal annars það hvað áheyrendur verði í miklu návígi við listafólkið, kór og hljómsveit, söngvara og stjórnanda. Það sé óvenjulegt. En verkefnið sé spennandi og afar ánægjulegt að takast á við það. Metnaðarfullt verkefni sem sé þess virði að allt kirkjufólk og tónlistaráhugafólk gefi því gaum og komi til að hlýða á. 

Annars er það um Sálumessu Brahms að segja að hann samdi hana á tímabilinu frá 1865 til 1868 í kjölfar fráfalls móður sinnar.

Sálumessan var frumflutt í Bremen, á föstudaginn langa, árið 1868.

Sagan segir að áheyrendur hafið orðið fyrir gríðarlegum áhrifum af flutningnum og að þeir hafi setið með tárin í augunum allt frá fyrsta kórkaflanum þar sem þungi sorgar Brahms hreyfði við hverjum hlustanda: „Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.“

Brahms var ekki fullkomlega ánægður með verkið eftir flutninginn í Bremen og bætti úr því. Síðar var Þýska sálumessan flutt í endanlegri gerð í Leipzig árið 1869.

Sálumessan var umsvifalaust viðurkennd sem meistaraverk og með henni komst Brahms í fremstu röð tónlistarmanna á alþjóðlega vísu.

Í verkinu nýtir Brahms orkuna í kór og hljómsveit með einstökum hætti og úr verður gríðarlega kraftmikið og áhrifaríkt verk.

Um einsöng sjá þau Hallveig Rúnarsdóttir og Hrólfur Sæmundsson.

Stjórnandi er sem fyrr segir Steingrímur Þórhallsson, organisti.

Miða má nálgast hér eða við innganginn.

Heimasíða Neskirkju er hér.


Jóhannes Brahms (1833-1897)

 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta