Prestur í einn mánuð

1. nóvember 2019

Prestur í einn mánuð

Ungi presturinn á leið til Hríseyjar

„Samfélagið hér er mjög velviljað kirkjunni,“ segir hún, „og það treystir henni og ber virðingu fyrir henni.“

Það er presturinn á Dalvík sem hefur orðið. Sr. Jónína Ólafsdóttir sinnir þar afleysingu fram á vor.

Hún er nákvæmlega búin að vera einn mánuð þjónandi prestur, hóf störf 1. október s.l.

Og í dag er 1. nóvember.

Margt hefur gerst í prestslífi þessarar ungu konu þennan mánuð. Hana óraði ekki fyrir því hvað starfið yrði fjölbreytilegt og gleðiríkt.

„Fólkið hefur mikinn áhuga á kirkjunni,“ segir hún. „Það sést til dæmis á hve kyrrðar- og samverustundir í Dalvíkurkirkju á miðvikudögum eru vel sóttar.“ Hún segir rúmlega fjörutíu hafa komið síðast og nú sé stefnt að fimmtíu komi næst. Messusókn sé auk þess góð.

„Það er reyndar nýr prestur kominn, ég , og svo er nýr kokkur tekinn við pottunum, kannski trekkir það,“ segir hún hlæjandi og bætir svo við alvörufyllri að kyrrðarstundir hafi verið vel sóttar jafnt og þétt um áraraðir.

„Kyrrðar- og samverustundin er í raun mjög einföld hjá okkur. Við byrjum inni í kirkjunni við kertaljós. Ég fer með bæn og les úr Biblíunni eða einhvern annan góðan texta og spjalla um efnið,“ segir hún og bætir við að stundum segi hún fólki hvað hafi drifið á daga hennar í prestsskapnum og það hafi bara gaman af því. „Svo förum við með velvildarbæn og sitjum svo í þögn og íhugum um stund.“

Kyrrðar- og samverustundin tekur svona fimmtán mínútur að hennar sögn og þá er farið inn í safnaðarheimlið þar sem súpa bíður, kannski plokkfiskur eða eitthvað annað gott. Kaffi og súkkulaði á eftir.

Sr. Jónína segir að fólk á öllum aldri sæki þessa stund en þó eru flestir sextíu ára og eldri. Fólk sem sé hætt að vinna – sé heima fyrir. Þá hafi sr. Oddur Bjarni Þorkelsson einnig komið að þessum samverum – en þau tvö þjóna prestakallinu.

Í mörg horn að líta

„Dalvík er dásamlegur bær,“ segir sr. Jónína. Henni hafi verið tekið vel frá fyrsta degi og hún sé strax farin að kvíða því að þurfa að yfirgefa staðinn. Þessi mánuður hafi verið ótrúlega skemmtilegur. Alltaf sé eitthvað nýtt í pípunum. Nú sé á dagskrá að heimsækja leikskólann í bænum. Svo sé farið einu sinni í viku á Dalbæ, hjúkrunarheimilið, og sungið. Hún stefnir að því að byrja þar með kyrrðarstundir á næstunni.

Og auðvitað er fermingarstarfið hafið. Fermingarbörnin eru tuttugu og eitt. „Þau eru nýbúin að ganga í hús og safna fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Það gekk mjög vel,“ segir sr. Jónína. „Þau fengu svo hina sígildu pizzu eftir söfnunina.“

Sr. Jónína segist hafa gefið fólki kost á því sem hún kallar opinn sálgæslutíma sem felst í því að fólk geti pantað sálgæslutíma gegnum síma eða tölvupóst. „Það kemur í kirkjuna í fullkomnu næði og þar er enginn nema ég,“, segir hún. Þetta hafi gefið góða raun og verið vel sótt. Augljóslega hafi verið þörf fyrir þetta. Hún hefur sérmenntun í sálgæslu og flutti fyrir nokkru fyrirlestur fyrir Björgunarsveit Svarfdæla um áföll; muninn á áföllum og sorg.

„Svo er ég auðvitað búin að messa hér í Dalvíkurkirkju, einnig í Urðarkirkju, Stærri-Árskógskirkju, Bægisárkirkju – já og Siglufjarðarkirkju!“ segir hún og gleðin leynir sér ekki í röddinni. „Og svo er ég líka búin að gifta og skíra í Akureyrarkirkju og Munkaþverárkirkju.“

Já, sr. Jónína hefur svo sannarlega ekki setið auðið höndum þennan mánuð sem hún hefur þjónað sem prestur.

Dalvíkurprestakall er myndað af Dalvíkur-, Miðgarða-, Möðruvallaklausturs-, Hríseyjar- og Stærra- Árskógssóknum. Íbúar prestakallsins eru á þriðja þúsund.

Fyrstu skrefin mikilvæg

Og í lokin kemur hin sígilda spurning um færðina.

„Það er hláka,“ segir hún með hörðu, fráblásnu lokhljóði – segist vera að rifja upp norðlenska framburðinn.

Sr. Jónína er öllu vön enda landsbyggðarkona, fædd á Borgarfirði eystri og ólst upp í Þingeyjarsýslu frá fimm ára aldri.

Einn mánuður í prestsembætti er ekki langur tími í sjálfu sér. En allt sem gerist á þeim mánuði er nýtt og festist því betur í minni og verki. Skapar verklag og viðhorf.

Og margra mílna ferð hefst á einu skrefi, sagði spekingurinn forðum daga. Mánuður er liðinn af þeirri ferð sr. Jónínu og kirkjan.is óskar henni gæfu og blessunar á þeirri göngu.

Glatt á hjalla yfir matarborðum á kyrrðar- og samverustund
  • Frétt

  • Heimsókn

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
Aðventukrans.jpg - mynd

Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

27. nóv. 2024
...í Bústaðakirkju