Fólkið í kirkjunni: Torfalækur og Vesturbærinn

2. nóvember 2019

Fólkið í kirkjunni: Torfalækur og Vesturbærinn

Ástríður og Ásta Camilla í Neskirkju

Þær eru ungar og vaskar konur og búa í Vesturbænum. Önnur vinnur sem sviðsstjóri á stjórnsýslusviði hjá Þjóðskrá Íslands og er frá Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu. Hin er landslagsarkitekt hjá VSÓ-ráðgjöf og er úr Vesturbænum.

Þær sitja báðar í sóknarnefnd Neskirkju.

Ástríður Jóhannesdóttir er sú sem er að norðan. Hennar kirkja var Blönduóskirkja eða öllu heldur Þingeyrarklausturskirkja. „Ja, ég ég fermdist í henni og gifti mig þar,“ segir hún.

Ástríður fór að sækja sunnudagaskólann og barnstarf í Neskirkju með börnunum sínum. Þannig kynntist hún kirkjustarfi með beinum hætti og áður en hún vissi af var hún farin að syngja í kórnum árið 2008. Og svo komin í sóknarnefnd í hverfinu sínu. Kirkjunni sinni.

Og Ásta Camilla Gylfadóttir kom í sóknarnefndina og sumir lyftu brúnum og sögðu hana vera svo unga. Þetta var árið 2014. Hún er borinn og barnfæddur Vesturbæingur og alin upp við að fara í kirkju frá blautu barnsbeini. Hefur fundið ætíð fundið sig þar í kirkjunni. Og sungið í kórnum.

„Við Ástríður kynntumst í kórnum,“ segir Ásta Camilla.

Þær eru báðar kirkjukonur. Leggja áherslu á að í kirkjunni sé að finna gott samfélag og uppbyggilegt. Gefandi samfélag og hollt fyrir líkama og sál.

„Ég er stolt af því að vera í sóknarnefnd,“ segir Ásta Camilla. Og Ástríður tekur heilshugar undir það.

Stundum rekur fólk upp stór augu þegar Ásta Camilla segir frá sóknarnefndarsetu sinni – fær jafnvel fleirspurult augnatillit því að það er ekki alltaf á öllum stöðum í takt við meginstraum líðandi stundar sem fleytt er áfram af hinum og þessum sem telja sig vita betur en aðrir hvað sé flott og hvað ekki.

„Það er stórkostlegt að kynnast hér litrófi mannlífsins,“ segir Ástríður og bætir því við að samfélagið í kirkjunni sé alúðlegt og kærleiksríkt. Fólk mæti með bros á vör og sýni hvert öðru umhyggju.

„Og öllum finnst gott að vita af því að til kirkjunnar er hægt að leita á raunastundum,“ segir Ásta Camilla, „og þar sé veitt framúrskarandi þjónusta og leiðsögn veitt sem hjálpi fólki svo sannarlega.“

Sóknarnefndarkonurnar, þær Ástríður og Ásta Camilla, segja líka sóknarnefndina vera vel mannaða og unga miðað við margar sóknarnefndir á landinu. Svo búi þau auk þess að því að hafa hugmyndaríka og áhugasama presta og aðra starfsmenn í kirkjunni. Allt sé þetta grunnur að öflugu starfi einnar sóknar.

Þær eru báðar sammála því að Neskirkja sé fastur punktur í hringiðu þessa hverfis þar sem rótgróinn Melaskóla er að finna handan götunnar, Hagaborg, Hagaskóla, Háskólabíó, já og hótelið sem eitt sinn var kennt við sögu. Og svo bættist Þjóðarbókhlaðan við og enn bætist við þar sem er Hús íslenskra fræða rís loks úr jörðu. Kirkjan stendur í þessari húsaþyrpingu ef svo má að orði kveða – ótrúlega framsýn bygging þótt sextug sé og mikið listaverk eitt og sér.

Þær eru báðar mjög ánægðar með Torgið í Neskirkju. Segja það hafa heppnast einstaklega vel og sé nýtt með frábærum hætti.

„Nú er hinsegin listasýningunni að ljúka,“ segir Ásta Camilla, „og Hinsegin messa á sunnudaginn.“

Þær Ásta Camilla og Ástríður segja að listsýning eins og þessi og messa með þessari yfirskrift dragi fram kirkju sem hugsi út fyrir boxið og taki með lifandi og vakandi hætti á brýnum málum líðandi stundar.

Ástríður segir frá ávaxtalundinum í horni einu skjólsælu utan við kirkjuna og að því verki hafi komið landslagsarkitektinn Ásta Camilla sem sé með græna fingur. „Þar eru eplatré – og plómutré.“ Stefnt er að því að bæta við tveimur trjám á hverju ári. Á vorin er gróðurmessa þar sem athygli er vakin á þessu framtaki og hvatt til dáða. Auk þess séu guðsþjónustur oft hafðar um hönd við þennan lund á sumrin þegar vel viðrar og telja þær það vera einstaklega vel til fundið og hafi góð áhrif og dragi að sér fólk frekar en ekki.

„Krókusar voru settir niður hér í kringum kirkjuna,“ segir Ásta Camilla og Ástríður bætir því við að þeir séu fallegur vorboði þegar börnin fermast í sínum hvítu kyrtlum.

Ástríður og Ásta Camilla eru drífandi sóknarnefndarkonur í Vesturbænum, styrkar fyrirmyndir fyrir fólk á öllum aldri og í hópi þeirra fjölmörgu sem standa við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.



  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
Aðventukrans.jpg - mynd

Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

27. nóv. 2024
...í Bústaðakirkju