Bók sem skiptir máli: Dag í senn

3. desember 2019

Bók sem skiptir máli: Dag í senn

Holl og uppbyggileg bók eftir sr. Karl Sigurbjörnsson

Vel hefur tekist til með útgáfu bókarinnar Dag í senn, eitt andartak í einu, eftir sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup. Hún geymir hugleiðingar fyrir hvern dag ársins og í samræmi við það er hún í handhægu og yfirlætislausu kiljuformi sem á vel heima hvort heldur á eldhúsborði eða vélaverkstæði. Hver hugleiðing lyftir upp Biblíutexta með þeim hætti sem sr. Karli er einum lagið að gera.

Lesandinn er leiddur inn í heim umhugsunar um gildi kristinnar trúar og mikilvægi þeirra; leiddur inn á vettvang þess dags þar sem trúartextar ávarpa nútímann og kalla á viðbrögð. Samspil höfundar og lesanda í efnistökum og lestri á blaðsíðum bókarinnar verður með þeim hætti að lesandinn velkist fráleitt í vafa um að kristin trúargildi skipta höfuðmáli. Framsetning höfundar er enda skýr og skorinorð, einlæg og hlý, og ljóst að hann kann til verka við að miðla boðskapnum á vönduðu íslensku máli sem unun er að lesa. Oft er hann persónulegur og slær á létta strengi sem hæfa efni og aðstæðum, úr æsku eða af öðrum æviskeiðum.

Þótt hugleiðing sé fyrir hvern dag ársins, oftast ein og sér, þá eru engu að síður sumar hugleiðingar framhald af þeim fyrri og því er hægt að lesa áfram án þess að vera hugsa út í hvaða dagur sé. Þannig getur ein forvitnileg umfjöllun um texta dags og heimfærsla kallað á lesandann til að halda lestri áfram.

Sú trúarhugsun sem lögð er fyrir lesandann er sígild kristin trú ef svo má segja, bænholl, Biblíu- og játningaholl, Kristsmiðlæg og fyllt anda skaparans. Hér er ekkert á óljósu floti í framsetningu trúarinnar, öllu miðlað átakslaust og af mýkt umhyggjuseminnar. Höfundi tekst skínandi vel að tengja vel mótaða trú sína og túlkun hennar við hverdagslegt líf nútímamannsins með umhugsunarverðum hætti fyrir lesandann.

Þessi bók ætti að liggja frammi í öllum kirkjum og safnaðarheimilum og fólk hvatt ti l að lesa hvern dag – og líka hvað stendur á afmælisdegi viðkomandi! Það finnst sumum spennandi.

Sr. Karl hefur verið afkastamikill höfundur kristinna bókmennta af ýmsu tagi bæði áður en hann varð biskup, og þann tíma sem hann sat á biskupsstóli, og eftir að hann settist í helgan stein. Þar er góður og gegn útvörður guðskristni í landinu sem gott er að vita af sem og öðrum er standa þá vakt. Hafi hann heilar þakkir fyrir.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gefur bókina út. Umbrot og hönnun var í umsjón Brynjólfs Ólasonar. Bókin er prentuð hjá Ísafoldarprentsmiðju, gaman að sjá það í ljósi þess að mikill meirihluti bóka er nú prentaður ytra. Bókin er 543 bls.


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Girnilegar danskar pylsur

Pylsur trekkja

01. okt. 2020
...leið til fólks gegnum magann?
Þorláksbúð í Skálholti

Fjölgar á grænni leið

30. sep. 2020
Örþing í Skálholti 2. október
Græna stúdíóið - frá vinstri: Bjarni Gíslason, Einar Karl Haraldsson, dr. Sigurður Árni Þórðarson, og sr. Elínborg Sturludóttir

Græna stúdíóið og vatnið

29. sep. 2020
...vatn er lífsréttur