Sýning og bók

3. desember 2019

Sýning og bók

Frumleg bók og falleg

Fyrsta sunnudag í aðventu, 1. desember,  var opnuð sýning í forkirkju Hallgrímskirkju og ber hún nafnið Lífsverk – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar. Listakonan er Guðrún Arndís Tryggvadóttir. Það er fagnaðarefni að þessi öfluga list og listaíhugun skuli borin á borð inn í kirkjulegt rými og ætti enginn að láta þennan viðburð fram hjá sér fara. Hér er sagt frá kirkjulistamanni úr bændastétt á 18. öld. 

Samhliða sýningunni kemur út bók eftir Guðrúnu Arndísi með sama heiti og sýningin. Í bókinni er að finna hugleiðingar listakonunnar um forföður sinn og myndir sem orðið hafa til í því sambandi. Arndís S. Árnadóttir og Sólveig Jónsdóttir skrifa hinn fræðilega þátt. Auk þess er að finna ljósmyndir af öllum verkum Ámunda Jónssonar sem varðveist hafa.

Inn í bókartexta höfundanna þriggja er vafið hugnæmum og mögnuðum vatnslitarmyndum, eftir Guðrúnu Arndísi, þær myndir eru í raun nokkurs konar innlifunarmyndir úr sögu Ámunda og tilraun myndlistarkonunnar til að nálgast þennan forföður sinn. Nefna má sérstaklega myndina af Ámunda fyrir framan þann fræga turn, Sívalaturn, í Kóngsins Kaupmannahöfn, bls. 39. Þar horfir sveitamaðurinn og námsmaðurinn Ámundi upp eftir turninum; stjörnum prýddur himinn allt um kring fyllir myndina ævintýrablæ. Ámundi hefur eflaust hugsað margt þá stundina. Guðrún Arndís segist enda unnið á liðnum árum fjölda verka sem fjalla um fjórðu víddina, tímann. Hún er stórhuga kona sem segir í formála bókarinnar: „Ég er að reyna að leita leiða til að sjá tímann á nýjan hátt, tengja hann sjálfri mér og um leið öllu mannkyni.“ (Bls.9).

Guðrún Arndís rekur á persónulegan hátt tilurð bókarinnar. Forfaðir hennar, Ámundi, virðist hafa setið lengi fyrir henni – hún segist sennilega alltaf hafa vitað af honum. Hann bjó innra með henni sem einhvers konar ómur, kannski listaómur aldanna? Listræn mýstik? Nokkrir einstaklingar valda þáttaskilum í leit hennar að forföðurnum, Hörður Ágústsson (1922-2005), listmálari, Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur, og Steingrímur Jónsson (1769-1845), biskup.

Þetta samstarf ásamt persónulegum minningum höfundar virðist takast vel. Út er komin bráðlagleg bók og forvitnileg. Bók sem höfðar til sagnfræðinnar, listasögunnar, menningarsögunnar, guðfræðinnar, litafræðinnar, listaþorstans.

Það er spennandi úrlausnarverkefni hvernig listakona í nútímanum byrjar listrænt samtal við forföður sinn, listamann sem á starfsævi sína að mestu leyti á 18du öld. Þetta samtal er allt hið áhugaverðasta og þrungið vilja til að ná sambandi, skilja listamann liðinnar aldar, Guðrún Arndís veltir við hverjum steini sem verður á göngu hennar í þessu listræna úrvinnsluferli. Hið sama gera samstarfskonur hennar.

En hver var umræddur Ámundi sem verður fólki þessu tilefni til skrifa og listaverka?

Ámundi Jónsson (1738-1805), fékk viðurnefnið snikkari. Hann var ættaður austan úr Rangárvallasýslu, fæddur í Vatnsdal í Fljótshlíðinni. Hann flutti til Reykjavíkur eftir lát foreldra sinna, vann þar um hríð. Hélt svo utan til Kaupmannahafnar til að læra smíðar. Kom síðan heim, kvæntist, var bóndi og smíðaði kirkjur, skar út kirkjugripi og fleira. Steingrímur Jónsson, biskup, sagði um hann: „Var snilldarmaður, vel að sér um flesta hluti, silfursmiður sæmilegur og málari góður.“ (Mynd á þili, Þóra Kristjánsdóttir, bls. 122). Þóra segir jafnframt að málverk Ámunda (altaristöflur, prédikunarstólar o.fl.) sé bernsk og stirt „en skurðverkið hins vegar ekki með neinum viðvaningsbrag.“ Í útskurðinum sé Ámundi í essinu sínu. (Bls. 125).

En segja má að persónur í myndverkum Ámunda séu burt séð frá kunnáttuleysi í myndlist, vandvirknislega gerðar af natni og samviskusemi. Nefna má dæmi altaristöflu hans úr óþekktri kirkju á Suðurlandi (bls. 114). Þar er augnsvipur lærisveinanna við kvöldmáltíðarborðið kostulegur – nánast hver með sinn svip. Og svo eru hnífapör lögð við hvern disk! Eflaust má tildra á þetta listfræðilegum einkunnum eins og naívisma en þarna voru menn á sinni tíð að gera eins vel og þeir gátu af litlum efnum og nýttu til hins ýtrasta þá takmörkuðu menntun sem þeir höfðu. Það var sigur út af fyrir sig.

Ámundi er kallaður í heimildum ýmist snikkari, málari, smiður, bíldskeri, siflursmiður, kirkjusmiður, forsmiður eða vefari. Þetta sýnir vít hæfileikasvið mannsins á sviði handmennta.

Nokkra gripi og altaristöflur er að finna eftir Ámunda í kirkjum á Suðurlandi. Allt er skilmerkilega rakið í bókinni ásamt myndum.

Ámundi lék sér með tölur eins og sést á sumum verka hans, t.d. altaristöflunni úr Kaldaðarneskirkju (á bókarflipum). Þar er talan 448 skráð fjórum sinnum lóðrétt við hlið útskorinnar Kristsmyndar og samtala þeirra er 1792 og mun það vera árið sem taflan var gerð. Talan þrettán kemur einnig oft fyrir hjá honum. Þrettán voru systkini hans sem létust – og nokkrar eru altaristöflur Ámunda sem sýna kvöldmáltíðina og þar sitja þrettán við borð. Og þrettán vor kirkjur þær sem hann smíðaði. 

Um dimman dal, er heiti kafla sem Guðrún Arndís skrifar, bls. 99 o. áfr. Þar lætur hún hugarflugið reika með skapandi hætti ásamt innsæi og þekkingu um líf fólks á tíma forföður síns. Hún beinir sjónum sínum einkum að kirkjunni. Hún segir: „Ég sé kirkjuferðirnar fyrir mér sem eins konar kirkjutif eða tímamæli í lífi fólks. Í kirkjunum gerðist allt sem skipti máli.“ (Bls. 100). Síðan fjallar hún um þann tilverugrunn sem kirkjan var í lífi fólks á þessum tíma og þann sess sem kirkjuathafnir á lífskeiði fólks skipuðu. 

En bókin Lífsverk er kraftmikil og nýstárleg blanda, tilraun, sem tekst ágætlega, og er ástæða til að óska höfundum til hamingju með hana. Sérstaklega Guðrúnu Arndísi sem er potturinn og pannan í tiltækinu. 

Níu aðilar studdu útgáfu bókarinnar, rannsókn og sýninguna í Hallgrímskirkju, og þar á meðal voru Biskupsstofa, Suðurprófastsdæmi og Listvinafélag Hallgrímskirkju.

Listferil Guðrúnar Arndísar má sjá hér.

Útgáfuhátíð verður svo í Skálholti 14. desember n.k. kl. 14.00.

Listsýningin í Hallgrímskirkju er á vegum Listvinafélags kirkjunnar. Sýningin stendur til 3. mars 2020. 

Verk á sýningunni eftir Guðrúnu Arndísi.
Til vinstri Þrettán kirkjur og til hægri: Þrettán englar

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir afhenti listakonunni Guðrúnu Arndísi blómvönd
og eintak af Passíusálmunum við sýningaropnun á 1. sunnudegi í aðventu
í Hallgrímskirkju, 1. desember