Menningarstund í Neskirkju

07. febrúar 2020

Menningarstund í Neskirkju

Nanna Kristín Magnúsdóttir

Menning og trú eru stef sem tengjast náið hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Trúin er aldrei langt frá menningunni. Og menningin umvefur trúna svo á köflum rennur þetta tvennt í eitt.

Alls staðar er hægt að taka sneið af menningunni og flís af trúnni fylgir með. Eða á hinn bóginn: fá skerf af trúnni og rjómarönd af menningunni. Þitt er valið.

Neskirkja bauð í gær til menningarstundar undir heitinu Skammdegisbirta. Ein af mörgum slíkum stundum sem boðið hefur verið til í vetur. Spennandi efni eru tekin fyrir og þau brotin til mergjar eftir því sem er hægt á stuttum tíma.

Þetta er frábært framtak og kirkjan.is var á vettvangi í gær og fylgdist með. Svo sannarlega notaleg stund – full af birtu, já og líka brjóstbirtu ef gestir kusu svo.

Organistinn Steingrímur Þórhallsson fór hamförum á orgelinu eins og sagði í kynningunni. Sá var ekki nú dauffingraður - hann og Bach voru sem eitt nú í byrjun árs. Enda báðir snillingar.

Venju samkvæmt var farið inn á Torgið í Neskirkju að loknum heillandi orgeljarðhræringum. Þar beið súpa og hressing.

Og kórinn tók tvö lög með miklum glæsibrag.

Tema kvöldsins voru prestar.

Það er vel til fundið að beina ljósi að því hvernig prestar eru settir fram í bókmenntum, kvikmyndum og jafnvel myndlist. Af nógu er að taka. Nú var nefi stungið inn í sjónvarpsþættina Pabbahelgar til að finna hvort góðan ilm legði þar af presti eða fnyk.

Orðspor presta í menningunni er misjafnt. Stundum frekar dapurlegt og þung orð sem falla í þeirra garð; hlutur þeirra gerður vafasamur enda þeir fyrrum iðulega fulltrúar valds sem vélar um hversdagslegt líf almúgans. En það er önnur saga sem meira þarf að rýna í.

Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikkona og handritshöfundur sjónvarpsþáttanna Pabbahelgar, ræddi um gerð þáttanna – hún lék auk þess aðalhlutverkið. Það tók sjö ár að kom hugmynd þeirra yfir á filmu – heilög tala þar á ferð. Þættirnir segja frá lífi, segja sögu frá sjónarhóli fáránleika hins hversdagslega lífs, hins hávaðasama og útþanda, sem allir kannast við þótt skammtastærðir hafi verið misjafnar. En umfram allt er það saga sem er sönn að því leyti þegar áhorfandi segir i huga sínum: Já, svona, svona var það... Þetta er það sem kallast gamandrama. Lífið er svo býsna oft sú kvikmyndategund.

Presturinn hennar Nönnu Kristínar reynist vera afskaplega viðkunnanlegur maður og þægilegur. Ljúfur og góður drengur, bráðmyndarlegur og hversdagslegur, sem spyr við fyrstu kynni sín og áhorfanda (og aðalleikara) hvort hægt sé að gefa sér start?

Nokkur atriði voru týnd til úr þáttunum þar sem hann kemur fram og í samskiptum við aðalpersónurnar og þá einkum í kringum fermingu dóttur aðalpersónunnar.

Leikarinn sem lék prestinn, BjarturGuðmundsson, var á staðnum og greindi frá reynslu sinni af því að leika prestinn, fara í hökul, fara með helgitexta o.fl. Það er stúdía per se, eins og gáfumennin segja, hvernig texti, forn og nýr, getur yfirtekið þann sem mælir hann af munni fram og lifir sig inn í hann, textinn fær sjálfstætt líf, jafnvel kennivald og þess vegna er hann í vissum aðstæðum hvort tveggja í senn, magnaður og hættulegur. Leikarinn ræddi einnig um trú sína og trúleysi. Það var einlægt spjall og gott.

Kannski ætti Neskirkja næst að huga að því hvernig aðrar stéttir standa við sinn sóla í anda Lúthers - efna til stéttakvölda!

Já, vel á minnst, start? Hví ekki bifvélavirkinn? Hvernig birtist hann í þeim hversdagslegu bókmenntum sem hvorki komast á filmu eða bók heldur aðeins í heimilisbókhaldið? En hann bankar oft upp á heimilum fólks, sérstaklega ungs fólks þegar heimilisbíllinn fer að stynja á þorra undan ofurþunga ekinna kílómetra meðfram hjólastígunum í Vesturbænum. Það var þetta með tímareimina? „Þú veist hvað gerist þá...? Svo er komið leguhljóð í fyrsta gír.“ Leguhljóð? Hvað er það? Í huga þinn hleypur orðið legusár því að amma þín sáluga fékk slíkt á dvalarheimilinu. En leguhljóð í fyrsta gír? „Já, heyrðu, svo pústar oggulítið inn með miðstöðinni, þú veist bara af því.“ Hjúkk, umhverfisstefna heimilisins kemst í uppnám um stund.

Þorgeir Tryggvason var kynntur til sögunnar. Sá er kunnur meðal þjóðarinnar, Kiljurýnir o.fl. Hann kynnti sjálfan sig sem lestrarhest – sagðist ekki vera bókmenntafræðingur. En sennilega getur nú margur lestarhesturinn verið meiri bókmenntafræðingur en þeir sem hafa bréf upp á slíkt. En Þorgeir var kominn til að vístera nokkra presta í bókmenntum. Þar er náttúrlega mjög svo gróskumikilli garður með alls konar plöntum, hinum fegurstu liljum, rósum og runnum, arfa og illgresi. Er það ekki hugsanlega mannlífið sjálft? Fór hann hratt yfir sögu í þessari vísiteringu eins og gefur að skilja. Og fráleitt voru allir prestar týndir til enda ekki hægt að drekka kaffi á öllum bæjum – saknaði til að mynda sérstaklega séra Jóhanns vinar míns úr Innansveitarkroniku og má láta flakka þessi kjarnaorð hans sem hefðu svo sem verið góð yfirskrift kvöldsins:

„Við vitum ekki mart, sagði séra Jóhann. Í rauninni vitum við ekki nema eitt. Við tilheyrum guði og eigum heima hjá honum. En það er opið báðar leiðir.“ (Innansveitarkronika, Halldór Laxness, R. 1970, bls. 58).

Kvöldstundin var ljúf og sprett var úr spori. Og fólki leið vel og hálfnapur vindur blés á glugga. Hafi Neskirkja kærar þakkir fyrir – og það var góður hópur og all fjölmennur sem kom til að njóta stundarinnar.

Safnaðastarf Neskirkju er öflugt og fjölskrúðugt. Skammdegisbirtuhugmyndin er snjöll. Þar er guðfræði hversdagsins framreidd – eða stefnumót trúar og menningar þar sem svo sannarlega er opið báðar leiðir í anda sr. Jóhanns – og taóismans.

Er það ekki bara gott start?

Heiimasíða Neskirkju.

Sr. Árni Svanur Daníelsson skrifaði meistaraprófsritgerð árið 2015 í guðfræði um presta í átta norrænum kvikmyndum frá 2003-2013 og hana má sjá hér.

hsh


Kór Neskirkju söng


Þorgeir Tryggvason segir frá prestum í bókmenntum -
sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir hlýðir á