Stutta viðtalið: Kraftmikið starf í Garðasókn

10. febrúar 2020

Stutta viðtalið: Kraftmikið starf í Garðasókn

Sr. Henning Emil Magnússon, prestur í Garðasókn

Margir segja að starf í söfnuðum standi og falli með forystu presta og sóknarnefndarfólks. Prestar eru verkstjórar á vettvangi og ef þeir hafa áhuga, kraft og hugmyndir um starf umfram hefðbundið kirkjustarf, þá getur það skipt sköpun fyrir líf safnaðarins - og ánægju af því fyrir einstaklinginn að vera virkur safnaðarmeðlimur. Eitt kallar á annað. Eftir höfðinu dansa limirnir var einu sinni sagt. Það hefur ekki fallið úr gildi.

Það fer ekki fram hjá neinum að kirkjustarf í Garðasókn er mjög fjölbreytilegt og kraftmikið. Þar er unnið markvisst og skipulega eins og vönduð dagskrá um helgihald sem nær frá janúar og fram í ágúst, ber vitni um. Þessa dagskrá má finna á heimasíðu sóknarinnar auk þess sem hún var gefin út og henni dreift um prestakallið.

Prestar eru þrír í Garðasókn. Fyrst er að telja sóknarprestinn sr. Jónu Hrönn Bolladóttur, þjóðkunn kona og hugmyndarík, og þá sr. Hans Guðberg Alfreðsson, traustan dreng og góðan. Nýjasti presturinn þar á vettvangi er sr. Henning Emil Magnússon og hefur hann starfað þar í sextán mánuði. Nú, og það getur jafnvel farið svo að fjórði presturinn bætist í þessa kraftmiklu sveit klerka en prestakallið fer sístækkandi og fyrir nokkru var ályktað um þörf á fjórða prestinum.

Kirkjan.is ræddi við sr. Henning um starfið og margt fleira.

„Starfið svo umfangsmikið?“ spyr kirkjan.is og er að velta vöngum yfir fjórða prestinum.

„Fimm þúsund íbúar hafa bæst við, Urriðaholtið,“ segir sr. Henning. „Og svo vitum við að aukning verður um tvö til þrjú þúsund manns á næstu tveimur árum. Þá eru í prestakallinu um tuttugu þúsund íbúar.“ Ljóst sé að hinum megin við Reykjanesbrautina muni rísa stórt og mikið hverfi. Urriðaholtið tengist Vífilsstaðasvæðinu. Þá verður og fjölgun á Álftanesi. Svo sannarlega stækkandi söfnuður.

„Fullorðinsfræðsla er alltaf í gangi hér,“ segir sr. Henning, „við höldum áfram með Biblíufræðsluna sem byrjaði fyrir jól.“ Hann segir að seinni lotan í fræðsluröðinni hafi hafist í janúar og standi fram í miðjan mars. Þátttakendurnir í fræðslunni óskuðu eftir því að augum væri beint að Gamla testamentinu og við því var orðið. Ýmsir koma að fræðslunni og það er nokkuð stöðugur hópur sem sækir hana sem er trúfastur og kirkjunni kær.

„Við stefnum svo á fræðslufundi um trú og bókmenntir nú með vorinu, svona þrjú til fjögur kvöld,“ segir sr. Henning. „Það er sístætt stef hvernig bókmenntir og trú tengjast – og líka í trúarheimspekinni.“ Samtal rithöfunda og guðfræðinga og almennings um trúarleg stef er alltaf spennandi og skemmtilegt að mati sr. Hennings. Þá segir hann frá því að í fyrra hafi tónlist og trú verið í sviðsljósinu og það verði örugglega haldið áfram með það þegar tækifæri gefst. „Það er auðvitað líka sístætt stef.“

Fermingarbörnin eru mjög áhugasöm um umhverfismálin að sögn sr. Hennings. „Þau koma að fyrra bragði og vilja að þau mál séu tekin fyrir – þau eru samfélagslega meðvituð,“ og sr. Henning segir að það sé mjög þakkarvert. Annars fer barnastarfið fram með margvíslegum hætti eins og í barnakórum, tíu til tólf ára starfinu og líka í fjölskyldumessum.

„Það er alltaf eitthvað um að vera í kirkjunni,“ segir sr. Henning. Rétt er það og myndarleg dagskráin endurspeglar það svo sannarlega.

Sr. Henning er tónlistarmaður - og áhugamaður um trú og tónlist. Hann hefur pælt heilmikið í Bob Dylan, tónlist hans og boðskap. Sjá hér.

„Við höfum reynt að tengja hér saman trú og íhugun – ásamt tónlist – ýta úr vör íhugunarguðsþjónustum.“

„Fólk sem hefur ekki fundið sig alveg í hefðbundnu helgihaldi hefur notið þess að taka þátt í kyrrðarbæn, biblíulegri íhugun í helgihaldsforminu,“ segir sr. Henning. „Þetta er svo sem ekki nýtt helgihald – þetta byggir allt á gömlum grunni – eins og svo margt í kirkjunni.“ Þátttakendur hafa meira svigrúm, geta til dæmis staðið upp og kveikt á kerti. Formið er opið og afslappað og tónlist kemur þar mikið við sögu. „Við fengum til dæmis bræðurna í hljómsveitinni ADHD til að leika í íhugunarguðsþjónustu hjá okkur,“ segir sr. Henning, „og það tókst glimrandi vel.“ Og bætir við kíminn á svip: „Enda þeir Garðbæingar.“

Sr. Henning Emil er Keflvíkingur. Hann segist hafa kynnst kirkjulegu starfi í Ragnarsbakaríi.

„Ragnarbakaríi?“, hváir kirkjan.is.

„Húsnæði bakarísins í Keflavík var keypt af KFUM- og K sem rak þar svo unglingadeild,“ segir sr. Henning, „ég tók þátt í þessu starfi og leið þar vel – okkur var treyst af fullorðna fólkinu og við fundum að það var yfir okkur vakað.“ Við tókum þátt í barnastarfi og stýrðum því í plássunum í kring – eins og í Sandgerði. Hann nefnir fleira ungt fólk sem þarna fór í gegn og gekk svo í þjónustu kirkjunnar: sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir og sr. Íris Kristjánsdóttir.

„Sumsé vel heppnaður bakstur,“ hugsaði kirkjan.is.

Sr. Henning tók fyrst BA-próf í guðfræði, svo kennsluréttindi og kenndi víða – mest í Keflavík. Hafði alltaf opið að hann myndi halda áfram í guðfræðinámi til embættisgengis. Og svo fór.

Inni á skrifstofu sr. Hennings eru hljóðfæri, harmóníum og gítarar.

Og rafmagnskontrabassi – magnað hljóðfæri sem sr. Henning á.

„Það var gamall draumar að eignast svona grip,“ segir hann ekki dreyminn á svip því að draumurinn varð að veruleika, svipurinn er hins vegar fullur af músík.

„Þú ert músíkmaður?“ spyr kirkjan. Af hógværð svarar sr. Henning því til að hann sé áhugamaður um tónlist.

„Spilað í hljómsveitum?“

„Já, í mörgum,“ svarar hann hugsi, „já, og mörgum skrítnum.“ Og brosir vinalega. Hann segir að tónlistin sé leið til að koma einhverju skapandi frá sér. Hann hafi unnið mikið með spuna og fleira. „Það er tónlist sem verður til á staðnum.“

Sr. Henning er í fullu starfi og hann er ánægður í Garðabænum. Segir Garðbæinga hafa tekið vel á móti sér, fagnað nýjum manni og muni hann reyna að standa sig eins vel og hann geti. Og víst er að Garðbæingar eru svo sannarlega vel mannaðir þegar prestar og starfsfólk sóknarinnar eru annars vegar.

Þess má geta í lokin að konudagur hefur alltaf skipað veglegan sess í Garðasókn. Nú er konudagur, góa byrjar, 23. febrúar. Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, mun flytja ávarp í Vídalínskirkju. Sóknarpresturinn sr. Jóna Hrönn Bolladóttir þjónar fyrir altari ásamt Helgu Björk Jónsdóttur, djákna. Gospelkór syngur og einnig eldri barnakór kirkjunnar. Guðsþjónustunni verður útvarpað kl. 11.00 sama dag. 

Heimasíða: Garðasókn.

hsh