Biskup í Borgarfirðinum

12. febrúar 2020

Biskup í Borgarfirðinum

Biskup Íslands prédikar í Reykholtskirkju

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vísiteraði Reykholtsprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi, dagana 9. og 10. febrúar síðastliðinn.

Reykholtsprestakall er myndað af samnefndri sókn (Reykholtssókn) auk Gilsbakka- og Síðumúlasókna. Sóknarkirkjur í prestakallinu eru þrjár, Reykholtskirkja, Gilsbakkakirkja og Síðumúlakirkja. Kirkja er í Stóra-Ási í Hálsasveit en sú sókn var sameinuð Reykholtssókn 2008. Þá er kapella að Húsafelli.

Sóknarprestur Reykholtsprestakalls er sr. Geir G. Waage.

Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, voru með biskupi á ferð hennar um prestakallið.

Messað var í Reykholtskirkju á sunnudeginum þar sem biskup Íslands prédikaði. Sóknarprestur þjónaði fyrir altari ásamt sr. Flóka Kristinssyni sem las ritningarlestrana. Guðlaugur Óskarsson, meðhjálpari og kirkjuþingsmaður, las upphafs- og lokabæn.

Organisti var Dóra Erna Ásbjörnsdóttir. Reykholtskórinn söng við messuna, einnig barnakór. Lisbeth Inga Kristófersdóttir lék á þverflautu við undirleik organistans.

Boðið var í kirkjukaffi að lokinni messu og síðan fór fram fundur biskups, prófasts, sóknarprests og biskupsritara með sóknarnefndarmönnum úr öllum sóknum prestakallsins, þeim: Vilborgu Pétursdóttur, Ásbirni Sigurgeirssyni, Ólafi Magnússyni, Þorvaldi Jónssyni, Þuríði Guðmundsdóttur, Torfa Guðlaugssyni, Guðlaugi Óskarssyni og Guðfinnu Guðnadóttur.

Sr. Geir G. Waage sagði frá skipulagi helgihalds í prestakallinu sem er í föstum skorðum.

Sönglíf er öflugt í prestakallinu og hafa Hvanneyrar-, Stafholts- og Reykholtsprestaköll meðal annars samstarf um það.

Í samtali biskups við sóknarnefndir ber gjarnan margt á góma sem varðar innra og ytra starf kirkjunnar og safnaða hennar. Skipulag kirkjunnar í héraði hefur verið á dagskrá, þar sem biskupafundur hefur lagt fram drög að endurskoðuðu heildarskipulagi prestakalla um land allt.

Fram kom að engar tillögur liggja nú fyrir kirkjuþingi sem snerta sóknir Borgarfjarðar.

Sóknarmörk og hugmyndir að breytingum á þeim, eru iðulega rædd á fundum biskups með sóknarnefndum. Biskup hefur lagt áherslu á að breytingar á sóknarmörkum séu fyrst og fremst málefni heimamanna, þ.e.a.s. að hjá þeim eigi frumkvæði að slíkum breytingum að liggja.

Kirkjulýsing og munaskrá Reykholtskirkju lá fyrir, hún uppfærð frá vísitasíu biskups 2002.

Að loknum fundi með sóknarnefndarfólki kynnti sr. Geir starfsemi Snorrastofu, fyrir biskupi og föruneyti.

Á mánudeginum var haldið að Síðumúla í Hvítársíðu. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir og föruneyti hennar skoðaði Síðumúlakirkju og fundaði með fulltrúum sóknarnefndar, þeim Ásbirni Sigurgeirssyni og Guðjóni Kjartanssyni.

Heitavatnslögn sprakk í Síðumúlakirkju árið 2015 og hlaust mikið tjón af. Hugur er í heimamönnum að ráðast í þær lagfæringar sem þarf til að koma kirkjunni í samt lag og áður. Kirkjan var reist árið 1926.

Því næst hélt biskup og föruneyti hennar að Gilsbakkakirkju í Hvítársíðu. Kirkjan var skoðuð og fundur haldinn með fulltrúum sóknarinnar, þeim Torfa Guðlaugssyni, Þuríði Guðmundsdóttur og Ólafi Magnússyni.

Gilsbakkakirkja er fallegur helgidómur, vel við haldið og í góðri hirðu. Kirkjan var reist árið 1908 en miklar endurbætur voru gerðar á henni á sjötta áratug síðustu aldar, forkirkju bætt við sem og turni – og gluggum fjölgað. Kirkjugarðurinn að Gilsbakka er vel hirtur og til mikillar prýði.

Húsafellskapella var einnig skoðuð og tók kirkjunefnd kirkjunnar á móti biskupi og föruneyti. Kirkjunefndina skipa þau: Hrefna G. Sigmarsdóttir, Bergþór Kristleifsson og Páll Guðmundsson.

Kapellan er fallegur helgidómur og var reist árið 1973. Hún á eina kirkjuklukku og hér er hægt að hlýða á hljóm hennar hér.

Páll Guðmundsson er þjóðkunnur listamaður – Páll á Húsafelli. Hann lék á ýmsar tegundir af heimagerðum flautum fyrir biskup og föruneyti hennar. Páll gaf biskupi stein úr Selgilinu og þegar slegið er á hann heyrist nótan -a-.

Að lokinni kirkjuskoðun bauð Páll biskupi að skoða starfsaðstöðu sína á staðnum. Listamaðurinn lék á steinspil, sýndi málverk sín og höggmyndir.

Vísitasíu biskups í Reykholtsprestakall lauk með því að Stóra-Áskirkja í Hálsasveit var skoðuð. Kirkjan var reist árið 1897. Stórasássókn var sameinuð Reykholtssókn árið 2008. 

Vísitasían gekk mjög vel fyrir sig og var biskupi og föruneyti hennar hvarvetna vel tekið.

þv/hsh

Myndir: Guðlaugur Óskarsson og Þorvaldur Víðisson


Dóra Erna Ásbjörnsdóttir, orgel, og Lisbeth Inga Kristófersdóttir, þverflauta
(Mynd: Guðlaugur Óskarsson)


Biskup fundar með kirkjufólki í Reykholtsprestakalli
(Mynd: Guðlaugur Óskarsson)


Horft út um glugga Gilsbakkakirkju
(Mynd: Þorvaldur Víðisson)


Sr. Geir og sr. Agnes fyrir utan Síðumúlakirkju í Hvítársíðu
(Mynd: Þorvaldur Víðisson)


Páll á Húsafelli segir frá listaverkum sínum -
biskup, prófastur og sóknarprestur hlýða á
(Mynd: Þovaldur Víðisson)


Biskup með prestshjónunum í Reykholti, frá vinstri Dagný Emilisdóttir, 
sr. Agnes, biskup, og sr. Geir
(Mynd: Þorvaldur Víðisson)

 


  • Biskup

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut