Kórónaveiran og kirkjan

1. mars 2020

Kórónaveiran og kirkjan

Kirkjan sýnir ábyrgð og festu

Nokkrar umræður hafa átt sér stað hjá kirkjufólki um hvernig bregðast skuli við kórónaveirunni. 

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, skrifaði prestum bréf í gær þar sem hún ræddi um þá hættu sem stendur af kórónaveirunni - sjá bréfið hér.

Biskup hvetur presta til að sjá til þess að handspritt sé við kirkjudyr og fylgt sé leiðbeiningum um þvott á höndum og sprittþvott. Jafnframt mælist biskup til þess að sleppt verði handabandinu í friðarkveðjulið guðsþjónustunnar. Sérstök aðgáð skal höfð í altarisgöngu, handspritt sé notað og hendur þvegnar fyrir athöfn, auk þess sem huga verður vel að allri snertingu. „Ekki er talið óhætt vegna smithættu að allir dýfi brauðinu í vínið í kaleiknum og því síður að allir bergi af sama bikar“, segir biskup í bréfi sínu í lokin og biður presta „að hugleiða þetta og finna í þessu farsæla leið.“ 

Kirkjan.is kannaði málið hjá nokkrum prestum og spurðist fyrir um hvað væri nú hyggilegast að gera í ljósi þessa veirufaraldar.

Fólk telur mikilvægt að fara í öllu að fyrirmælum biskups - sjá hér, og  landlæknisembættisins - sjá hér. Sjá einnig heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hér.

Í kirkju er mikil nánd í athöfnum, eins og þegar altarissakramentið er haft um hönd.

Niðurdýfing oblátu í kaleik hefur orðið nánast allsráðandi í söfnuðum landsins eins og kunnugt er.

Prestar telja það vera lykilatriði að þau sem deila út sakramentinu verði að þvo sér vel um hendurnar og spritta. Þá eigi að láta handabönd, faðmlög og kossa eiga sig. Tveir prestar nefndu að í stað handabands mætti krækja saman fótum, eða láta fót heilsa fæti með nettri snertingu, fótaband. Einn benti á að nóg væri að deila út brauðinu og sakramentið væri jafngilt enda þótt ekkert væri vínið að sinni. Enn annar prestur sagði að sprittbrúsinn yrði í forkirkju, og prestur myndi bera spritt vandlega á hendur sínar fyrir altarisgöngu, og sá eða sú sem aðstoðar við útdeilinguna verður með sprittbrúsann í röðinni við altarisgönguna.

Þá nefndi prestur nokkur að það væri leið í þessum óvenjulegu aðstæðum að sleppa altarisgöngum í guðsþjónustunum meðan faraldurinn gengi yfir.

Því var stungið að tíðindamanni að fólk kæmi með sinn bikar eða staup í kirkju þar sem ekki væru til sérbikarar og færi með það heim að lokinni guðsþjónustu.

Við prests- og djáknavígslu í morgun í Dómkirkjunni nefndi sr. Agnes M. Sigurðardóttir af gefnu tilefni að ekki yrði tekið í hendur fólks í forkirkju að athöfn lokinni eins og venja væri - heilsað og kvatt yrði með orðum. Þá voru sérbikarar Dómkirkjunnar notaðir við altarisgönguna.

Og við dyr í forkirkju var sprittbrúsi á borði með sálmabókum. Eins var sprittbrúsi á altari Dómkirkjunnar og er það eflaust sögulegur viðburður að slíkur brúsi skuli hafa verið þar á meðan guðsþjónusta fór fram. 

Ljóst er að kirkjufólk með biskup í fararbroddi er mjög á varðbergi og vill standa að hinum kirkjulegu athöfnum af fyllsta öryggi og ábyrgð gagnvart samfélaginu og öllum þeim er kirkju sækja.

hsh


Í Neskirkju í morgun var handspritt - sr. Arnþrúður Steinunn Björnsdóttir 


Í forkirkju Dómkirkjunnar