Þrekvirki unnið

5. mars 2020

Þrekvirki unnið

Tveggja binda verk, menningarsögulegt þrekvirki

Merkilegt ritverk hlaut viðurkenningu Hagþenkis í gær í Þjóðbókhlöðunni en kirkjan.is var þar á staðnum aldeilis óvænt. Verk sem ætti að vera til í öllum prófastsdæmum og hjá prestum, sagnfræðingum og öðrum áhugasömum.

Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna. 

Björk Ingimundardóttir, sagnfræðingur, hefur tekið saman mikið rit í tveimur bindum sem ber heitið: Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II. Um er að ræða býsna yfirgripsmikið verk yfir skipan kirkjumála frá fyrstu tíð sem heimildir greina frá, skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma og breytinga sem orðið hafa á þeim á undanförnum öldum. Það var Þjóðskjalasafn Íslands sem gaf verkið út.

Í þakkarræðu sem Björk flutti í gær sagði hún að kveikjan að þessum bókum hefði orðið til fyrir rúmlega þrjátíu árum. Þá hóf hún að endurskrá skjalasafn presta og prófasta í Þjóðskjalasafninu. Sagðist henni þá hafa orðið ljóst hvílíkar breytingar hefðu orðið á skipun prestakalla, sókna og prófastsdæma síðan um miðja 18. öld, þegar lögboðin færsla prestsþjónustubóka og sóknarmannatala hófst. Sagði hún þessar heimildir vera grundvöll þekkingar okkar á lífi forfeðra okkar.

Þetta er uppflettirit, handbók, hafsjór heimilda, rit sem bjargar mörgum þegar átta sig þarf á breytingum á skipulagi frá áratugi til áratugar, öld til aldar. Og rit sem segir sögu að síðasta punkti sínum en sú saga heldur áfram um leið og kirkjuþing gerir breytingar á skipan prestakalla- og prófastsdæma í landinu. Síðar er stefnt að því að allar þessar upplýsinga fari á netið, vef Þjóðskjalasafns - sjá vef safnsins hér.

Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II, sumsé ekki eitt af þeim verkum sem menn lesa frá fyrstu blaðsíðu og til hinnar síðustu og segja við lok lestrar: „Hvað var nú þetta? Var þá engin rúsína í pylsuendanum?“ Eða: „Hvaða skráningarsaga er þetta nú eiginlega?“ Þetta er ekki heldur þannig verk að menn taki það með sér í rúmið til að lesa og fyllist trylltum spenningi. Nei, slíka ritdóma er ekki hægt að fella um rit af þessu tagi. Hins vegar er mjög líklegt að hið gamla orðatiltæki: hver er sjálfum sér næstur, eigi hér við um marga, og menn fletti upp á kirkjustandinu í sinni heimabyggð, til að sjá hvaða prestaköll hafa verið þar á umliðnum öldum, hvernig mörk sókna lágu, hvernig þeim hefur verið steypt saman, og sömuleiðis hvað prófastsdæmin áhrærir. Þá gæti farið svo að eftirsjá og spenningur fari um hjartað og einhverjar rúsínur fylgi með í lesbæti.

En hvers konar rit í menningarsögulegu tilliti er hér um að ræða?

Saga skipulagsmála kirkjunnar er ekki bara kirkjusaga heldur og Íslandssaga því að kennimenn kirkjunnar komu með svo margvíslegum hætti að lífi fólks og sinna heimabyggða. Björk Ingimundardóttir dró einmitt fram í þakkaræðu sinni meðal annars störf presta í samfélagi fyrri alda utan hefðbundinna prestsverka. Á höndum presta voru til dæmis fræðslumál, eftirlitsstörf, skráning upplýsinga um líf fólks og samfélag. Þeir þurftu að gæta að eignum kirkna og standa skil á þeim. Skjalasöfn presta og prófasta geymdu því miklar heimildir um landsmenn og íslenskt samfélag, menntun, heilsufar, búskaparhætti, listir, efnismenningu, byggingarsögu, landnotkun og félagslíf.

Kjarni málsins Dr. Lára Magnúsardóttir, formaður dómnefndar viðurkenningarráðs Hagþenkis komst svo að orði í gær:„Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi er lykill að heimildum og upplýsingum, ekki ósvipað og orðabók er lykill að tungumáli. Lykilinn opnar margar dyr og þess vegna er ekki hægt að spá fyrir um notkun verksins, en afraksturinn er strax farinn að sjást á kortunum tveimur sem fylgja bókunum og sýna prestaköll á Íslandi árin 1801 og 1920. Þar er er í fyrsta sinn hægt að sjá stjórnsýsluskipan kirkjunnar á augabragði og bera saman tímabil, í stað þess að þurfa að leggja á sig jafnmikla undirbúningsvinnu og Björk hefur gert. Búið er að tengja skrárnar inn á landfræðileg kort á vef Þjóðskjalasafns og hafin er vinna við að setja efnið inn á vefinn heimildir.is. Þar er von á meiru, meðal annars á skrá Bjarkar yfir 1400 hugtök sem opnuð verður á vordögum. Hver veit nema kirkjusaga verði eftirleiðis á allra vörum!“

Alls voru tíu ritverk, hvert öðru glæsilegra, tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis. 

Kirkjan.is hefur notað verkið einmitt sem handbók frá því það kom út þegar fréttir hafa verið þess eðlis að nauðsynlegt var að átta sig á skipan prestakalla, prófastsdæma og sókna – og gáta hvort rétt sé með farið. Fróðleikurinn er mikill, og notanda verður ljóst að mikil elja og samviskusemi liggur að baki verkinu.

Þess vegna færir kirkjan.is höfundi innilegar hamingjuóskir með viðurkenninguna fyrir þetta nauðsynjaverk fyrir sögu kirkju og þjóðar.

Sjá nánar hér: Hagþenkir.

hsh


Björk Ingimundardóttir, sagnfræðingur


Sum fræ urðu aldrei að blómum, úr fyrra bindi verksins, bls. 464


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
Aðventukrans.jpg - mynd

Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

27. nóv. 2024
...í Bústaðakirkju